Laugardagur 18.12.2021 - 09:47 - Rita ummæli

Málfrelsi og samfélagsmiðlar

Á ráðstefnu evrópskra íhalds- og umbótaflokka um netfrelsi í Róm 10.–12. desember rifjaði ég upp rökin fyrir mál- og hugsunarfrelsi. Bönnuð skoðun gæti verið rétt, og þá missir mannkynið mikils. Hún gæti verið röng, en þá er mönnum hollt að spreyta sig á því að hrekja hana. Og bönnuð skoðun gæti verið að sumu leyti rétt og að sumu leyti röng. En síðasta áratug hafa komið til sögu tveir öflugir samfélagsmiðlar, Facebook og Twitter, sem hafa skert málfrelsi notenda sinna verulega. Þeir takmörkuðu til dæmis mjög svigrúm til að segja fréttir af afritaðri tölvu Hunters Bidens forsetasonar og til að láta í ljós þá skoðun, að kórónuveiran væri upprunnin í kínverskri tilraunastofu. Nokkrum dögum áður en Donald Trump lét af forsetaembætti, lokuðu bæði fyrirtækin jafnvel reikningum hans.

Sagt er á móti, að þetta séu einkafyrirtæki og megi setja reglur um, hverjum þeir hleypi að. Réttur minn til að segja skoðun mína feli ekki í sér skyldu þína til að hlusta á mig eða hleypa mér að tækjum þínum. En í Róm hélt ég því fram, að vegna einokunaraðstöðu sinnar og eðlis væru þessi fyrirtæki almannamiðlar (common carriers) svipað og einkavegir, gistihús og símafyrirtæki. Þótt vegur sé í einkaeigu, má eigandinn ekki banna konum að aka um hann (eins og gert var í Sádi-Arabíu). Gistihús má ekki neita þeldökkum mönnum um afgreiðslu (eins og gert var í Suður-Afríku). Símafyrirtæki má ekki mismuna eftir trúar- eða stjórnmálaskoðunum. Samkvæmt bandarískum lögum bera Facebook og Twitter ekki ábyrgð á því, hvað menn segja á þeim. En ef þeir taka upp ritskoðun, eins og þeir eru að gera (og þá aðallega á hægri mönnum), þá er eðlilegt, að þeir taki á sig slíka ábyrgð. Annaðhvort verða þeir að vera opnir og ábyrgðarlausir eða lokaðir og ábyrgir þeirra orða, sem á þeim falla.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. desember 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir