Laugardagur 05.03.2022 - 09:58 - Rita ummæli

Brovarí

Þorpið Brovarí nálægt Kænugarði er í fréttum þessa dagana vegna innrásar Pútíns og liðs hans í Úkraínu. Þetta þorp gegnir örlitlu hlutverki í íslenskri bókmenntasögu, því að Halldór Kiljan Laxness sagði í Gerska æfintýrinu frá för þangað. Hann skoðaði þar samyrkjubú, sem hét Íljíts í höfuðið á Vladímír Íljíts Lenín. Laxness kvað íbúana hafa verið hina ánægðustu. Skáldið heimsótti meðal annars átta manna fjölskyldu, sem bjó í fimm herbergja húsi.
Heimsóknir erlendra gesta til Brovarí á dögum Stalíns voru hins vegar ekkert annað en einn stór blekkingarleikur. Til er frásögn af því, þegar franski stjórnmálamaðurinn Eduard Herriot átti að heimsækja sama þorp fimm árum áður. Þá var roskinn kommúnisti látinn leika forstöðumann samyrkjubúsins. Allt þorpið var þrifið. Húsgögn voru tekin úr leikhúsi þorpsins og komið fyrir í samkomusal verkamanna. Gluggatjöld og borðdúkar voru sendir frá Kænugarði. Kálfum og svínum var slátrað og bjór útvegaður. Öll lík voru hirt upp af þjóðveginum og betlarar reknir burt.

Þorpsbúum var sagt, að taka ætti upp kvikmynd, og þeir, sem valdir voru til þátttöku, fengu nýjan fatnað frá Kænugarði, skó, sokka, föt, hatta og vasaklúta. Konurnar fengu nýja kjóla. Fólk var látið setjast til borðs, þegar von var á Herriot. Það fékk stóra kjötbita og bjór með. Það tók rösklega til matar síns, en þá var því fyrirskipað að snæða hægt. Síðan var hringt frá Kænugarði og sagt, að för Herriots í þorpið hefði verið aflýst. Fólkið var umsvifalaust rekið frá borðum og skipað að skila öllum fatnaði, nema hvað það mátti halda eftir sokkum og vasaklútum. Öllu hinu varð að skila í búðirnar í Kænugarði, sem höfðu lánað það.

Nú hefur þessi leikvöllur lyginnar breyst í vígvöll, því að Kremlverjar vilja ekki, að Úkraína gerist vestrænt ríki.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. mars 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir