Laugardagur 12.03.2022 - 09:59 - Rita ummæli

Rödd frá Úkraínu

Í nóvemberlok 1951 kom út á íslensku bókin Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko, verkfræðing frá Úkraínu, sem leitað hafði hælis í Bandaríkjunum vorið 1944. Þar sagði höfundur meðal annars frá hungursneyðinni í Úkraínu á öndverðum fjórða áratug, hreinsunum Stalíns og þrælkunarbúðum ráðstjórnarinnar, en allt þetta hafði hann horft upp á.

Kommúnistar um allan heim hófu óðar áróðursherferð gegn Kravtsjenko, og höfðaði hann mál gegn frönsku kommúnistatímariti fyrir meiðyrði. Réttarhöldin, sem fóru fram í París á útmánuðum 1949, snerust upp í réttarhöld um stjórnarfarið í Ráðstjórnarríkjunum. Sendi ráðstjórnin fjölda manns til að bera vitni, þar á meðal fyrrverandi eiginkonu Kravtsjenkos, en sjálfur leiddi hann fram ýmis fórnarlömb Stalíns, þar á meðal Margarete Buber-Neumann, en hún var einn þeirra þýsku kommúnista, sem setið höfðu í fangabúðum Stalíns, uns hann afhenti þá Hitler eftir griðasáttmála einræðisherranna tveggja í ágúst 1939. Úrskurðuðu franskir dómstólar Kravtsjenko í vil, og mörgum áratugum síðar viðurkenndi ritstjóri kommúnistatímaritsins, að hann hefði haft rétt fyrir sér.

Lárus Jóhannesson alþingismaður þýddi bókina og gaf út, og luku þeir Hermann Jónasson, Ólafur Thors og Stefán Jóhann Stefánsson allir lofsorði á hana opinberlega. Þeir Brynjólfur Bjarnason og Magnús Kjartansson sögðu hins vegar, að hún væri leiðinleg, og Einar Bragi birti í Þjóðviljanum árás á höfundinn. En því fer raunar fjarri, að bókin sé leiðinleg. Hún er mjög læsileg og vel skrifuð, þótt hún sé átakanleg á köflum. Almenna bókafélagið gaf hana aftur út á Netinu 7. nóvember 2017 í tilefni hundrað ára afmælis bolsévíkabyltingarinnar með inngangi og skýringum eftir mig. Er hún þar aðgengileg öllum endurgjaldslaust.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. mars 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir