Laugardagur 02.04.2022 - 10:02 - Rita ummæli

„Yndisleg húngursneyð“

Úkraínumenn hafa verið óheppnari með nágranna en Íslendingar. Einn hræðilegasti atburður tuttugustu aldar í Evrópu var hungursneyðin í Úkraínu árin 1932–1933. Talið er, að fjórar milljónir manna hafi þá soltið í hel. Orsök hennar var, að Kremlverjar vildu koma á samyrkju, en bændur streittust á móti. Kremlverjar brugðust við með því að gera mestalla uppskeru þeirra upptæka. Þeir reyndu síðan að koma í veg fyrir allan fréttaflutning af hungursneyðinni.

Tveir breskir blaðamenn í Moskvu, Malcolm Muggeridge og Gareth Jones, leituðust þó við að fræða heimsbyggðina á því, sem væri að gerast. Hersveitir Stalíns „höfðu breytt blómlegri byggð og frjósamasta landi í sorglega auðn“, hafði Morgunblaðið eftir Muggeridge 19. júlí 1933. Vísir birti 2. ágúst lýsingu Jones á hungursneyðinni. Nýlega var gerð kvikmyndin Mr. Jones, þar sem lýst var baráttu hans fyrir að fá að segja sannleikann, en fréttaritari New York Times í Moskvu, Walter Duranty, tók fullan þátt í því með Kremlverjum að kveða niður frásagnir af þessum ósköpum.

Íslenskir stalínistar létu ekki sitt eftir liggja. Í október 1934 andmælti Halldór Kiljan Laxness skrifum Morgunblaðsins í tímaritinu Sovétvininum: „Ég ferðaðist um Ukraine þvert og endilángt í „hungursneyðinni“ 1932. Það var yndisleg húngursneyð. Hvar sem maður kom, var alt í uppgángi.“ Vitnaði hann óspart í Duranty.

Þótt ótrúlegt megi virðast, eiga þeir Stalín, Laxness og Duranty enn sína liðsmenn. Í kennslubókinni Nýjum tímum eftir Gunnar Karlsson og Sigurð Ragnarsson, sem kom út árið 2006, var ekki minnst einu orði á hungursneyðina, heldur aðeins sagt, að Stalín hefði komið á samyrkju „í óþökk mikils hluta bænda“.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. apríl 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir