Í ágúst 2005 skipulagði ég í Reykjavík ráðstefnu Mont Pelerin Society, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna. Ráðstefnugestir hrifust margir af íslenska Þjóðveldinu, þegar þjóðin átti sér engan konung annan en lögin. Einn gestanna, Michel Kelly-Gagnon í Hagfræðistofnuninni í Montréal, hvatti tvo vini sína, fjármálaráðgjafana Gabriel Stein og John Nugée í Lundúnum, til að skrifa skáldsögu um Þjóðveldið. Nú er hún komin út, Sailing Free: The saga of Kári the Icelander (Frjáls á siglingu: Sagan um Íslendinginn Kára). Fæst hún á Amazon og Kindle og er hin læsilegasta.
Sagan gerist árin 1055–1067. Ragnar er bóndi og farmaður á Snæströnd, sem liggur á norðanverðu Snæfellsnesi. Móðir hans hafði verið hernumin frá Írlandi, en sjálfur hefur hann óbeit á þrælahaldi. Vinnufólk hans er allt frjálst. Synir hans og Hallgerðar konu hans eru Guðmundur og Kári. Ragnar á kaupskip, knörr, og hann sendir Kára í verslunarferðir suður á bóginn, til Kirkjuvogs á Orkneyjum og Jórvíkur á Englandi, og selur hann vaðmál og tennur og húðir rostunga, en kaupir timbur, járn og vefnaðarvöru. Kári ratar í ýmis ævintýri, þar á meðal innrás Haraldar harðráða í England 1066, og hann kemst alla leið suður til Lissabon, þar sem hann situr einn vetur. Heima fyrir gengur Guðmundi erfiðlega að gera upp á milli eiginkonu sinnar Ásu og Jórunnar, dóttur Gunnars goða, en hún er í senn fögur og harðbrjósta.
Að Ragnari bónda látnum eiga þeir Kári og Guðmundur í deilum við Gunnar goða, en ekki er nóg með, að hann sé yfirgangssamur við granna sína, heldur gerir hann á Alþingi 1067 bandalag við klerka um að leggja til sérstök gjöld handa kirkjunni í Róm og vill jafnframt, að Ísland sæki skjól til einhvers sterkara ríkis. Kári stendur þá upp og flytur snjalla ræðu. Bendir hann á, að þeir konungar, sem hann hafi kynnst á ferðum sínum erlendis, séu ærið misjafnir. Sumir þeirra leggi þung gjöld á þegnana og etji þeim út í mannskæðan hernað. Því sé Íslendingum hollast að halda sig við sín gömlu, góðu lög. Að þessu sinni létu goðarnir sannfærast.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. apríl 2022.)
Rita ummæli