Laugardagur 16.04.2022 - 10:09 - Rita ummæli

Ný skáldsaga um þjóðveldið

Í ágúst 2005 skipulagði ég í Reykjavík ráðstefnu Mont Pelerin Society, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna. Ráðstefnugestir hrifust margir af íslenska Þjóðveldinu, þegar þjóðin átti sér engan konung annan en lögin. Einn gestanna, Michel Kelly-Gagnon í Hagfræðistofnuninni í Montréal, hvatti tvo vini sína, fjármálaráðgjafana Gabriel Stein og John Nugée í Lundúnum, til að skrifa skáldsögu um Þjóðveldið. Nú er hún komin út, Sailing Free: The saga of Kári the Icelander (Frjáls á siglingu: Sagan um Íslendinginn Kára). Fæst hún á Amazon og Kindle og er hin læsilegasta.

Sagan gerist árin 1055–1067. Ragnar er bóndi og farmaður á Snæströnd, sem liggur á norðanverðu Snæfellsnesi. Móðir hans hafði verið hernumin frá Írlandi, en sjálfur hefur hann óbeit á þrælahaldi. Vinnufólk hans er allt frjálst. Synir hans og Hallgerðar konu hans eru Guðmundur og Kári. Ragnar á kaupskip, knörr, og hann sendir Kára í verslunarferðir suður á bóginn, til Kirkjuvogs á Orkneyjum og Jórvíkur á Englandi, og selur hann vaðmál og tennur og húðir rostunga, en kaupir timbur, járn og vefnaðarvöru. Kári ratar í ýmis ævintýri, þar á meðal innrás Haraldar harðráða í England 1066, og hann kemst alla leið suður til Lissabon, þar sem hann situr einn vetur. Heima fyrir gengur Guðmundi erfiðlega að gera upp á milli eiginkonu sinnar Ásu og Jórunnar, dóttur Gunnars goða, en hún er í senn fögur og harðbrjósta.

Að Ragnari bónda látnum eiga þeir Kári og Guðmundur í deilum við Gunnar goða, en ekki er nóg með, að hann sé yfirgangssamur við granna sína, heldur gerir hann á Alþingi 1067 bandalag við klerka um að leggja til sérstök gjöld handa kirkjunni í Róm og vill jafnframt, að Ísland sæki skjól til einhvers sterkara ríkis. Kári stendur þá upp og flytur snjalla ræðu. Bendir hann á, að þeir konungar, sem hann hafi kynnst á ferðum sínum erlendis, séu ærið misjafnir. Sumir þeirra leggi þung gjöld á þegnana og etji þeim út í mannskæðan hernað. Því sé Íslendingum hollast að halda sig við sín gömlu, góðu lög. Að þessu sinni létu goðarnir sannfærast.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. apríl 2022.)  

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir