Laugardagur 30.04.2022 - 10:10 - Rita ummæli

Syndir mæðranna

Í Fróðleiksmola 1. ágúst 2020 nefndi ég dæmi um þá afsiðun, sem stríð hafa í för með sér. Í lok síðari heimsstyrjaldar flýðu um 250 þúsund Þjóðverjar undan Rauða hernum rússneska yfir Eystrasalt til Danmerkur. Þar voru þeir umsvifalaust lokaðir inni í fangabúðum. Danska læknafélagið sendi frá sér tilkynningu um, að læknar myndu ekki hlynna að flóttafólkinu á neinn hátt. Um þrettán þúsund flóttamenn önduðust, þar af sjö þúsund börn undir fimm ára aldri. Flest börnin hefðu lifað, hefðu þau fengið aðhlynningu.

Í grúski mínu rakst ég nýlega á annað dæmi, en frá Noregi. Í stríðslok voru börn norskra stúlkna og þýskra hermanna orðin um tíu þúsund. Þótt stúlkurnar hefðu ekki brotið nein lög, var farið illa með þær eftir uppgjöf Þjóðverja, hárið rakað af þeim sumum og gerð að þeim hróp á götum og torgum. Nefnd, sem skipuð var til að gera tillögur um meðferð barnanna, fékk geðlækni einn til að meta þau, Ørnulf Ødegard. Hann gaf út allsherjarvottorð um þau. Sagði hann mæður þeirra almennt vera treggáfaðar og geðvilltar, og líklega væru barnsfeðurnir það líka, úr því að þeir hefðu valið sér þær til fylgilags. Taka yrði börnin af mæðrunum og ala upp á hælum. Sem betur fer var ráðum Ødegards ekki fylgt. En margar mæðurnar voru reknar með börn sín til Þýskalands. Sum börnin voru send í ættleiðingu til Svíþjóðar án vitundar eða samþykkis mæðra sinna. Þau, sem eftir voru, ólust mörg upp á barnaheimilum og sættu flest aðkasti. Er þetta mál blettur á sögu Noregs.

Ødegard var raunar líka annar af tveimur geðlæknum, sem vottuðu, að norska skáldið Knut Hamsun væri geðbilaður, en hann hafði verið eindreginn stuðningsmaður nasista. Var Hamsun lokaður inni á hæli, en með bók, sem hann samdi um reynslu sína, Grónar götur, afsannaði hann rækilega sjúkdómsgreiningu læknanna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. apríl 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir