Laugardagur 21.05.2022 - 10:13 - Rita ummæli

Lærdómar á lífsleið

Við sátum á útiveitingastað í Belgrad (Hvítagarði) í Serbíu, þegar húmaði að, og röbbuðum saman um lífið og tilveruna. Bandarískur kaupsýslumaður, vinur minn, hafði tekið tvítugan son sinn með sér í ferðalag um Balkanlöndin. Hann spurði, hvort ég gæti gefið syninum einhver ráð um framtíðina. Ég fór að hugsa um, hvað ég hefði lært af reynslunni, minni eigin og annarra.

Eitt er, að raða má verðmætum lífsins svo, að fyrst komi heilsan, síðan fjölskylduhagir (ást og vinátta) og þá peningar. Séu menn við góða andlega heilsu, þá verða fjölskylduhagir þeirra líklega ákjósanlegir. Sé menn við góða líkamlega heilsu, þá geta þeir unnið sig út úr fjárhagslegum erfiðleikum.

Annað er, að í vali um nám og störf eiga menn að fara eftir áhugamálum sínum frekar en fjárvon. Áhugasamt fólk og ötult bjargar sér ætíð. Ég myndi líka hafa lært fleiri tungumál, væri ég yngri og ætti þess kost.

Hið þriðja er, að foreldrar geta aðeins gert þrennt fyrir börn sín: alið þau upp með því aðallega að veita gott fordæmi, styðja þau og hvetja til að mennta sig og hjálpa þeim með útborgun í fyrstu íbúð. Með þessu koma þau fótum undir börnin, en það er síðan barnanna sjálfra að ganga.

Iðulega sagði ég síðan nemendum mínum í stjórnmálafræði, að menn ættu að forðast að fjandskapast við þrjú öfl eða veldi í heiminum, því að þau sigruðu jafnan í átökum, þótt orðspor þeirra væri misjafnt: Bandaríkjamenn, Gyðingarnir og páfinn í Róm.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. maí 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir