Laugardagur 28.05.2022 - 10:15 - Rita ummæli

Fimmtíu ára stúdentar

Við héldum upp á það á dögunum að vera orðin fimmtíu ára stúdentar frá Menntaskólanum í Reykjavík, fyrst árgangurinn 1972 á sérstakri samkomu, síðan nokkrir afmælisárgangar ásamt nýstúdentum. Eflaust henta fjölbrautirnar ýmsum, en okkur fannst bekkjarfyrirkomulagið gott. Þegar ég var í þriðja bekk, varð ég einn fárra hægri manna til að greiða Davíð Oddssyni atkvæði sem inspector scholae, forseta nemendafélagsins, en flestir vinstri menn skólans studdu hann þá frekar en mótframbjóðandann Þorvald Gylfason, og eiga þeir sumir eflaust enn erfitt með að fyrirgefa sér það. Ég studdi líka árið eftir Geir H. Haarde, sem tók við embættinu af Davíð.

Við hlutum afar trausta undirstöðu í Menntaskólanum, og flest var þar í föstum skorðum. Einn minnisstæðasti kennari minn var Jón S. Guðmundsson, sem brýndi fyrir okkur að skrifa vandaða íslensku og fór af miklum þrótti yfir Eddukvæði, kafla úr Heimskringlu og Egils sögu. Hann vitnaði oft í kennara sinn í háskóla, Sigurð Nordal, til dæmis um, að Laxdæla hefði átt að heita Guðrúnar saga Ósvífursdóttur, að líklega hefði Þorgeir Ljósvetningagoði ort Völuspá, þegar hann lá undir feldinum forðum, og að kalla mætti það góða íslensku, sem Jónas hefði skrifað og Konráð samþykkt. Tveir svipmiklir og ötulir kennarar mínir aðrir voru Ragnheiður Briem í þýsku og Ólöf Benediktsdóttir í ensku. Guðni Guðmundsson rektor kenndi mér aldrei, en hann stjórnaði skólanum röggsamlega. Hann var stundum hryssingslegur, en raungóður undir niðri.

Því miður eru þrír bekkjarbræður mínir í sjötta bekk látnir, dugnaðarforkurinn Gunnar Birgisson bæjarstjóri, Hlynur Antonsson, sem ógæfan elti, þótt hann væri hæfileikamaður, og Kjartan Magnússon stærðfræðiprófessor, víðlesinn öðlingur og góðvinur minn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. maí 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir