Einveldinu danska lauk snögglega vorið 1848, og boðaði konungur til stjórnlagaþings þá um haustið í Kaupmannahöfn. Til þess kvaddi hann fimm Íslendinga, Brynjólf Pétursson skrifstofustjóra, Jón Guðmundsson ritstjóra, Jón Johnsen bæjarfógeta, Jón Sigurðsson sagnfræðing og Konráð Gíslason málfræðing. Þeir reyndu eins og þeir gátu að halda Íslandi utan við allar ákvarðanir, sem teknar yrðu á þinginu um framtíð Danaveldis, en það náði þá ekki aðeins yfir Danmörku og eyjar í Norður-Atlantshafi og Karíbahafi, heldur líka hertogadæmin Slésvík og Holtsetaland.
Íslendingarnir vissu, að danskir áhrifamenn vildu innlima Slésvík, sem var hálfdönsk, en sleppa hinu alþýska Holtsetalandi. Heimastjórn fyrir Ísland kom vart til greina, ef innlima átti Slésvík. Raunar var N. F. S. Grundtvig eini málsmetandi Daninn, sem fylgdi skynsamlegri stefnu í Slésvíkurmálinu. Hún var að skipta Slésvík og innlima aðeins hinn dönskumælandi hluta hennar að fengnu samþykki íbúanna. Varð sú raunin 1920.
Hitt skiptir þó meira máli í ljósi sögunnar, að danska stjórnarskráin, sem stjórnlagaþingið samþykkti og konungur skrifaði undir 5. júní 1849, var mjög frjálsleg. Í krafti atvinnufrelsis urðu stórstígar framfarir í Danmörku næstu áratugina. Ég sé í þingtíðindum, að þrír Íslendinganna greiddu atkvæði með stjórnarskránni, Brynjólfur, Jón ritstjóri og Jón bæjarfógeti, en þeir Jón forseti og Konráð voru fjarverandi. Það var þó væntanlega ekki vegna þess, að þeir væru ósamþykkir henni, heldur vildu þeir hafa sem minnst afskipti af innanríkismálum Dana. Íslenska stjórnarskráin frá 1874 var sniðin eftir hinni dönsku og hefur eins og hún reynst hið besta.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. júlí 2022.)
Rita ummæli