Laugardagur 25.06.2022 - 10:17 - Rita ummæli

Snorri í Kaupmannahöfn 1848

Febrúarbyltingin í Frakklandi 1848 olli umróti í Danmörku, en þar var enn einveldi. Ráðgjafar konungs voru lítt við alþýðuskap, og á fjöldafundum í Kaupmannahöfn var þess krafist, að þeir vikju. Ræðuskörungurinn Orla Lehmann, leiðtogi þjóðfrelsismanna, samdi ávarp til konungs, sem tólf þúsund manna herskari skundaði með í konungshöllina 21. mars. Í niðurlagi ávarpsins sagði: „Vér biðjum og þrábænum Yðar hátign um að stofna ekki þjóðinni í þau óyndis úrræði, að hún verði að leita hjálpar hjá sjálfri sér.“ Hótunin leyndi sér ekki. Friðrik konungur varð þegar við kröfu fjöldans, og var kvatt saman stjórnlagaþing, sem samdi frjálslynda stjórnarskrá í svipuðum anda og hin norska frá 1814, og skrifaði konungur undir hana 5. júní 1849, sem er þjóðhátíðardagur Dana. Íslenska stjórnarskráin er sniðin eftir hinni dönsku.

Í þessari atburðarás endurómar frásögn Snorra í Heimskringlu af fundi sænskra bænda með Ólafi Eiríkssyni Svíakonungi árið 1018. Hafði Þórgnýr lögmaður orð fyrir þeim og sagði konungi, að hann ætti tvo kosti, að láta af ófriði við Norðmenn eða vera drepinn. Ólafur konungur sá sitt óvænna og varð við kröfu fjöldans. Skreytir veggmynd af fundinum einn sal sænska Ríkisdagsins.

Lehmann var aðdáandi íslenskra fornbókmennta og vel kunnugur verkum Snorra, en N. F. S. Grundtvig hafði snúið Heimskringlu á dönsku þrjátíu árum áður. Í þeirri bók er skýrum orðum komið að tveimur hugmyndum, að konungar lúti sömu lögum og þegnar þeirra og að afhrópa megi þá, gangi þeir í berhögg við lögin. Þessar tvær hugmyndir eru auðvitað uppistaðan í kröfu frjálshyggjumanna um takmarkað ríkisvald.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. júní 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir