Laugardagur 18.06.2022 - 10:17 - Rita ummæli

Sögur af tveimur merkismönnum

Á ráðstefnu Evrópska hugmyndabankans (European Resource Bank) í Stokkhólmi 7. júní 2022 kynnti ég nýlega bók mína í tveimur bindum um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn, allt frá sagnritaranum Snorra Sturlusyni til heimspekingsins Roberts Nozicks. Ég lét í ljós þá skoðun, að sennilega hefði Friedrich von Hayek sett fram fullkomnustu vörnina fyrir frjálslyndri ihaldsstefnu, en rifjaði um leið upp, þegar hann kom í heimsókn til okkar nokkurra stúdenta í Oxford vorið 1983, eftir að við höfðum stofnað þar The Hayek Society. Hann flutti stutta tölu í kvöldverði, sem við héldum honum, og kvaðst ánægður með, að ungt fólk hefði áhuga á kenningum sínum. Hann yrði hins vegar að taka af okkur loforð um að verða ekki „Hayekians“, því að marxistarnir hefðu verið miklu verri en Marx og keynesverjarnir miklu verri en Keynes.

Ég kvað gallann við hefðbundna íhaldsstefnu vera, að hún fæli ekki í sér nein svör um, hvað skyldi gera, heldur aðeins tregðu til að breyta. Í því sambandi rifjaði ég upp, þegar Milton Friedman kom í heimsókn til Íslands haustið 1984. Í hádegisverði honum til heiðurs kynnti ég hann fyrir gestum. Þegar einn seðlabankastjórinn birtist, sagði ég: „Jæja, prófessor Friedman. Hér er kominn maður, sem yrði atvinnulaus, yrðu kenningar yðar framkvæmdar!“ Friedman vildi sem kunnugt er leggja niður seðlabanka, en setja í þeirra stað fastar reglur um aukningu peningamagns í umferð. En Friedman svaraði að bragði: „Nei, nei. Hann yrði ekki atvinnulaus. Hann yrði aðeins að færa sig í arðbærara starf!“ Kosturinn við kapítalismann er einmitt, að hann knýr okkur öll til að laga okkur að síbreytilegum aðstæðum. Frjálslyndir íhaldsmenn vilja þróun fram á við, hvorki kyrrstöðu né byltingu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. júní 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir