Laugardagur 03.09.2022 - 10:27 - Rita ummæli

Ísland og Eystrasaltslönd

Í tilefni hins furðulega upphlaups Jóns Baldvins Hannibalssonar vegna þess, að hann er ekki alltaf einn á sviði, þegar Eystrasaltslönd eru nefnd, má rifja upp nokkur atriði. Árið 1923 flutti lettnesk kona, Liba Fridland, nokkra fyrirlestra hér á dönsku um rússnesku byltinguna, og deildi Alþýðublaðið á hana. Árið 1946 birti flóttamaður frá Litáen, Teodoras Bieliackinas, greinaflokk í Morgunblaðinu um undirokun Eystrasaltsþjóða, og réðist Þjóðviljinn harkalega á hann. Fyrsta útgáfurit Almenna bókafélagsins árið 1955 var Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir prófessor Ants Oras. Árið 1957 tóku forseti Íslands og utanríkisráðherra á móti dr. August Rei, forsætisráðherra útlagastjórnar Eistlands, en sendiherra Ráðstjórnarríkjanna bar fram mótmæli.

Árið 1973 þýddi ungur laganemi, Davíð Oddsson, bókina Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir sænsk-eistneska blaðamanninn Andres Küng, og gaf Almenna bókafélagið hana út. Í mars 1990 lagði Þorsteinn Pálsson alþingismaður til, að Ísland endurnýjaði viðurkenningu sína á Litáen, sem hafði lýst yfir sjálfstæði á ný eftir hernám Rússa. Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra vinstri stjórnarinnar, vildi fresta málinu, en Vytautas Landsbergis gat loks sannfært hann um það, að slík viðurkenning væri tímabær. Þegar Davíð Oddsson myndaði ríkisstjórn árið 1991, var Jón Baldvin áfram utanríkisráðherra, og voru þeir samstíga um að taka aftur upp stjórnmálasamband við Eystrasaltsríkin. Þurfti Davíð þó í kyrrþey að skýra út frumkvæði Íslands fyrir bandamönnum okkar, en Jón Baldvin gerir auðvitað ekkert í kyrrþey.

Árið 2016 endurútgaf Almenna bókafélagið Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum og Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds, og eru þær til jafnt prentaðar og ókeypis á Netinu og Örlaganótt sem hljóðbók. Var haldin samkoma í Háskólanum 26. ágúst á vegum ræðismanna Eystrasaltsríkjanna og Almenna bókafélagsins, þar sem Davíð Oddsson og Tunne Kelam, eistneskur sagnfræðingur og Evrópuþingmaður, töluðu. Öllum var boðið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. september 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir