Laugardagur 10.09.2022 - 10:29 - Rita ummæli

Óskhyggjan tapaði

Í þjóðaratkvæðagreiðslu í Síle 4. september 2022 höfnuðu kjósendur með 62% atkvæða frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, sem sérstakt stjórnlagaþing hafði samið. Þótti kjósendum frumvarpið allt of langt og allt of róttækt. Meðal annars voru þar talin upp ótal réttindi einstaklinga og hópa, án þess að gerð væri grein fyrir skyldunum, sem lagðar væru á borgarana á móti, ekki síst á skattgreiðendur. Forsetinn, Gabriel Boric, hafði sagt drýgindalega: „Ef Síle var vagga nýfrjálshyggjunnar, þá verður landið líka gröf hennar.“ Það gerðist ekki. Þess í stað tapaði óskhyggjan.

Stjórnarskrárfrumvarpið í Síle var líkast fundargerð á málfundi vinstri manna, en þeir eru sem kunnugt er iðnir við að semja óskalista. Minnti það á hið furðulega ferli á Íslandi, þegar þjóðin var hálflömuð eftir bankahrunið 2008 og vinstri menn hugðust nota tækifærið til að bylta stjórnskipun landsins. Kosið var á stjórnlagaþing allt framhleypnasta fólk landsins, tíðir gestir í spjallþáttum og þá með ráð undir rifi hverju. Kjörsókn var þó dræm, aðeins 36,8%. Framkvæmd kosninganna var svo gölluð, að Hæstiréttur neyddist til að ógilda þær. Þá ákvað vinstri stjórnin að tilnefna sama fólkið í svokallað stjórnlagaráð. Í þjóðaratkvæðagreiðslu um drög ráðsins haustið 2012 kusu 48,4% kjósenda, og vildu tveir þriðju taka mið af drögunum. Það merkir, að aðeins þriðjungur atkvæðisbærra manna vildi gera það.

Til samanburðar má nefna, að í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána vorið 1944 kusu 98,6% kjósenda, og vildu 98,5% staðfesta stjórnarskrárfrumvarpið, sem þá var lagt fyrir. Stjórnarskráin íslenska var fyrst sett á þúsund ára afmæli byggðar í landinu 1874 og er náskyld stjórnarskrá Noregs frá 1814 og Danmerkur frá 1849. Hefur hún í aðalatriðum reynst vel. Hún var endurskoðuð rækilega árið 1995, og varð sátt á þingi um þá endurskoðun. Var þá aðallega hert á mannréttindaákvæðum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. september 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir