Laugardagur 17.09.2022 - 10:30 - Rita ummæli

Rökin fyrir konungdæmi

Nýlegt lát hins ágæta breska þjóðhöfðingja Elísabetar II. leiðir hugann að forvitnilegri spurningu: Er það tilviljun, að þau sjö lönd Evrópu, þar sem stjórnarfar er einna best, skuli öll vera konungdæmi? Þau eru Stóra Bretland, Holland, Belgía, Lúxemborg, Svíþjóð, Danmörk og Noregur. Eins og ég ræði í bók minni um Tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn, færir Edmund Burke rök fyrir konungdæmi sem einum þættinum af mörgum í að tryggja stöðugleika, samfelldni og gagnkvæmt aðhald. Hann nefnir líka kirkjuna, aðalinn og lýðstjórnina. Hver og ein af þessum stofnunum leggur sitt af mörkum til að halda uppi fjölbreyttu menningarlífi, segir Burke. Ef við trúum því, að Guð sé ekki til, þá verður allt leyfilegt. Kirkjan veitir okkur því siðferðilegt aðhald. Gott er einnig, að þeir, sem skara fram úr, fái titla og ekkert að því, að slíkir titlar séu arfgengir, þótt aðall eigi ekki að verða lokaður sérréttindahópur.

Kosturinn við konungdæmið er, að þá stendur þjóðhöfðinginn utan skarkalans á torginu og getur í senn orðið sameiningartákn þjóðarinnar, eins og Elísabetu drottningu tókst öðrum betur, og rödd hennar, þegar þess þarf með. Í venjulegu landi er til dæmis allt fullt af hversdagshetjum, sem eiga skilið viðurkenningu. Auðvitað er tilkomumeira að taka við heiðursmerki fyrir björgunarafrek í konungshöll en á skrifstofu við umferðargötu. Þá tengjast menn sögunni á þann hátt, að hátíðarbragur verður á. Eitt ráðið til að tryggja gagnkvæmt aðhald er að skipta ríkinu, mættinum og dýrðinni upp á milli stofnana. Þá geta stjórnmálamennirnir átt ríkið, markaðurinn máttinn og konungsættin dýrðina.

Hitt er annað mál, að tvær þjóðir í Norðurálfunni hljóta vegna sögulegrar arfleifðar sinnar að vera lýðveldi fremur en konungdæmi, Svisslendingar og Íslendingar. Apud illos non est rex, nisi tantum lex, Hjá þeim er enginn konungur, aðeins lög, sagði Adam frá Brimum um Íslendinga.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. september 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir