Laugardagur 01.10.2022 - 10:31 - Rita ummæli

Split, september 2022

Það var fróðlegt á dögunum að gista tvær gamlar verslunarborgir í Evrópu, Tallinn í Eistlandi og Split í Króatíu. Báðar liggja þær vel við siglingum, önnur um Eystrasalt og hin um Adríahaf, og báðar voru þær öldum saman undir stjórn útlendinga, Tallinn þýskrar riddarareglu og Split feneyskra kaupmanna. Íslendingar eiga aðeins einn nágranna, Ægi konung, og má segja, að hann ógni okkur ekki lengur, því að árið 2008 var fyrsta árið í Íslandssögunni, þegar enginn íslenskir sjómaður drukknaði. En Eistlendingar og Króatar hafa ekki verið eins heppnir með nágranna. Rússar úr austri og Þjóðverjar úr vestri hafa löngum setið yfir hlut Eistlendinga, og Króatía var um skeið á valdi Feneyinga, síðan soldánsins í Miklagarði (Istanbúl), þá Habsborgarættarinnar og fylgdi Ungverjalandi, en loks Serba.

Í Split standa rústirnar af veglegri höll Díókletíanusar keisara, sem ríkti í Rómaveldi 284–305 e. Kr. Þótt hann friðaði ríki sitt með hörku, átti hann sinn þátt í að grafa undan þessu mikla miðjarðarhafsveldi, því að hann lagði á nýja skatta, nefskatt og landskatt, og setti á verðlagshöft, sem náðu auðvitað ekki tilgangi sínum. Jafnframt batt hann bændur við átthaga sína og takmarkaði kost manna á að færa sig milli atvinnugreina. Hann hleypti líka af stað síðustu og mestu ofsóknunum, sem kristnir menn sættu í Rómaveldi.

Í Split fræddi ég nemendur í stjórnmálaskóla, sem tvær hugveitur héldu, hins vegar á því, að þeir Snorri Sturluson og heilagur Tómas af Akvínas hefðu báðir talið, að konungar yrðu að lúta sömu lögum og þegnar þeirra og að afhrópa mætti þá, ef þeir virtu ekki arfhelg réttindi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. október 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir