Laugardagur 08.10.2022 - 10:32 - Rita ummæli

Osló, október 2022

Nú í ár héldu Mont Pelerin samtökin, alþjóðleg samtök frjálslyndra fræðimanna og annarra áhugamanna um frelsi, aðalfund sinn í fyrstu viku október í Osló. Þau voru stofnuð að frumkvæði ensk-austurríska hagfræðingsins Friedrichs von Hayeks, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, í Sviss vorið 1947, svo að þau eru nú 75 ára. Meðal stofnenda voru þrír aðrir hagfræðingar, sem áttu eftir að fá Nóbelsverðlaun, Milton Friedman, George J. Stigler og Maurice Allais, heimspekingarnir Karl R. Popper og Bertrand de Jouvenel og hagfræðingarnir Ludwig von Mises og Wilhelm Röpke. Samtökin hafa enga stefnu og reka enga starfsemi, heldur hafa það hlutverk eitt að vera reglulegur umræðuvettvangur þeirra, sem láta sig frelsið skipta. Ég sat í stjórn samtakanna 1998–2004 og skipulagði svæðisþing þeirra á Íslandi sumarið 2005.

Fundarmenn í Osló fengu allir að gjöf bók, sem bandaríski hagfræðingurinn Bruce Caldwell hefur tekið saman með útdráttum úr erindum á stofnþinginu 1947 og umræðum, sem ritari Hayeks, Dorothy Hahn, hafði jafnóðum samið, og er hún hin fróðlegasta. Frægasta atvikið á stofnþinginu var þó, þegar einhverjir fundarmenn töldu endurdreifingu tekna koma til greina, en þá reis Ludwig von Mises hneykslaður upp og gekk út með orðunum: „Þið eruð samansafn af sósíalistum!“ Þetta var sennilega sá hópur í Evrópu, sem fjarlægastur var sósíalisma, en Mises vildi halda árunni hreinni. Einn af stofnendum Mont Pelerin samtakanna var Norðmaður, hagfræðingurinn dr. Trygve Hoff, sem lengi var ritstjóri viðskiptatímaritsins Farmand, og var hans minnst á þessu þingi. Sannleikurinn er sá, eins og ég mun ræða í væntanlegri bók, að frjálshyggja eða frjálslynd íhaldsstefna stendur traustum sögulegum rótum á Norðurlöndum og henni er aðallega að þakka gott gengi þessara landa.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. október 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir