Laugardagur 15.10.2022 - 10:32 - Rita ummæli

Óskarsvirki

Á aðalfundi Mont Pelerin samtakanna í Osló í október 2022 var hlé gert á fundum síðdegis 7. október og siglt frá borginni suður til hins sögufræga Óskarsvirkis, sem stendur á hólma í Oslóarfirði, þar sem hann er einna þrengstur. Virkið var fullgert árið 1853 og hét eftir konungi Svíþjóðar og Noregs á þeirri tíð. Það var búið öflugum fallbyssum, en fáir vissu, að frá því mátti einnig skjóta tundurskeytum neðanjarðar. Í apríl 1940 var það undir stjórn Birger Eriksen, Birgis Eiríkssonar, ofursta. Um ellefuleytið að kvöldi 8. apríl fékk hann að vita, að ókunn herskip, að líkindum þýsk, nálguðust Osló.

Þegar skipin voru í sjónmáli klukkan fjögur um nóttina, fylgdist Birgir með frá efsta útsýnispalli virkisins. Hann ákvað upp á sitt eindæmi að skjóta á skipin úr fallbyssum ofanjarðar, en einnig að senda tundurskeyti að þeim neðanjarðar. Þurfti hann að miða skotmörkin út eftir minni. Fallbyssuskotin og tundurskeytin hæfðu hið stóra þýska beitiskip Blücher, en um borð var fjölmennt herlið, sem átti að hernema höfuðborg Noregs, ásamt lúðrasveit, sem leika skyldi í fullum skrúða við konungshöllina þá um daginn. Um allt skipið kviknuðu eldar, og sökk það þremur tímum síðar. Í morgunsárið hófu þýskar orrustuflugvélar ákafar loftárásir á Óskarsvirki. Birgir skipaði liði sínu að gefast upp 10. apríl, en þá höfðu þýskar flugsveitir tekið Osló.

Vörnin við Óskarsvirki seinkaði töku Oslóar um sólarhring, svo að konungur og ríkisstjórn komust undan og tóku með sér gullforða Noregs. Einnig gafst þá ráðrúm til að skipa kaupskipaflota Noregs að halda til hafna Bandamanna, og hlýddu langflestir skipstjórar kallinu. Þjóðverjum tókst því ekki með leiftursókn að leggja undir sig Noreg, eins og gerst hafði í Danmörku. Flakið af Blücher liggur enn á hafsbotni í Oslóarfirði.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. október 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir