Laugardagur 22.10.2022 - 10:33 - Rita ummæli

Wroclaw, október 2022

Eftir að ég hafði setið þing Mont Pelerin samtakanna í Osló 4.–8. október 2022, hélt ég til Wroclaw í Póllandi, þar sem ég tók þátt í starfshópi Evrópuvettvangs um minningu og samvisku um, hvernig minnast mætti fórnarlamba alræðisstefnu nasista og kommúnista. Notalegur miðaldablær er yfir miðborginni, en ég tók eftir því, að mörg fallegustu húsin eru frá því, að henni var stjórnað frá Vín og hét Breslau. Prússar lögðu hana undir sig á átjándu öld. Eftir seinni heimsstyrjöld hröktust tíu milljónir þýskumælandi manna frá löndum Mið- og Austur-Evrópu til Þýskalands í stærstu fólksflutningum sögunnar.

Í Wroclaw sagði ég frá því, hvernig við höfum minnst fórnarlamba alræðisstefnunnar á Íslandi. Við höfum haldið nokkra fundi og ráðstefnur, þar sem merkir fræðimenn hafa talað, meðal annarra prófessorarnir Bent Jensen og Niels Erik Rosenfeldt frá Danmörku, Øystein Sørensen frá Noregi og Stéphane Courtois frá Frakklandi. Courtois var ritstjóri Svartbókar kommúnismans, sem ég sneri á íslensku árið 2009.

Jafnframt höfum við endurútgefið mörg rit, sem komið hafa út á íslensku um alræðisstefnuna, svo að þau verði aðgengileg ungu fólki: Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen, Úr álögum eftir Jan Valtin (Richard Krebs), Leyniræðan um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov (ásamt erfðaskrá Leníns), El campesino — bóndinn. Líf og dauði í Ráðstjórnarríkjunum eftir Valentín González, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras, Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Andres Küng, Þjónusta, þrælkun, flótti eftir Aatami Kuortti, Ráðstjórnarríkin: Goðsagnir og veruleiki eftir Arthur Koestler, Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko, Nytsamur sakleysingi eftir Otto Larsen, Til varnar vestrænni menningu eftir sex íslenska rithöfunda og Framtíð smáþjóðanna eftir Arnulf Øverland. Skrifa ég formála og skýringar við þessi rit. Þau eru öll aðgengileg endurgjaldslaust á netinu.

Böðlar alræðisins drápu jafnan tvisvar, fyrst með kylfunni, síðan þögninni. Við getum að minnsta kosti rofið þögnina.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. október 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir