Mánudagur 19.12.2022 - 13:08 - Rita ummæli

Stefán Pálsson um landsdómsmálið

Stefán Pálsson sagnfræðingur birti um daginn færslu á Facebook um landsdómsmálið, og er þar eina efnislega athugasemdin, sem ég hef fengið við bók mína um það mál. Þar sagði meðal annars:

Ég kveikti á Silfrinu fyrir rælni í morgun. Þar var Hannes Hólmsteinn að segja frá nýrri bók sinni um Landsdómsmálið. Munið með mér að ég þarf endilega ekki að næla mér í hana. Reifun hans á málinu kom mér þó spánskt fyrir sjónir eftir að hafa fylgst nokkuð náið með störfum vinstri stjórnarinnar bak við tjöldin úr talsvert annarri átt en HHG. Hannes telur að þróun málsins og þá sérstaklega niðurstaða þingnefndarinanr og í kjölfarið kosningin í þinginu hafi verið afleiðingin af miklum póker Jóhönnu Sigurðardóttur sem hafi verið að reyna að friða ólík öfl og halda saman bæði eigin flokki og ríkisstjórninni. Samkvæmt þessu á t.d. Steingrímur Joð og hans fólk að hafa verið sérstaklega áfram um að Landsdómur skyldi fella dóma yfir Geir Haarde og mögulega fleirum. Þetta er gjörsamlega á skjön við upplifun mína frá þessum tíma.
Karl Th. Birgisson, sem er innanbúðarmaður í Samfylkingunni, skrifaði athugasemd:
Þetta er svolítið sérkennileg söguskoðun. Ég fylgdist grannt með þessum atburðum úr annarri átt. Landsdómsmálið var ekkert keppikefli Samfó, nema örfárra einstaklinga sem voru fæstir í þingflokknum.(Ekki gleyma að upphaflega voru tveir fyrrverandi ráðherrar S undir í málinu.) – Þvert á móti var þrýstingurinn hávær frá sumum þingmönnum Vg, einkum þeim sem smám saman urðu stjórnarandstæðingar.
Ég skrifaði athugasemd:
Það sýndi sig best, hversu mikið keppikefli ákæran gegn Geir var Steingrími og félögum, hvernig þeir brugðust við afturköllunartillögunni. Þegar Ásta Ragnheiður þingforseti ákvað að taka hana á dagskrá, hvæsti Steingrímur á hana, að hún hefði misst traust sitt, og Jóhanna reyndi að setja hana af sem þingforseta. Þá felldi Steingrímur grímuna um, að hann hefði greitt atkvæði með ákæru „með sorg í hjarta“.
Mörður Árnason, sem sat þá á þingi fyrir Samfylkinguna, skrifaði:
Það var ekkert makk hjá okkur. Þeir sem tengdust gömlu stjórninni sögðu nei á alla fjóra, við hin sögðum mismikið já. Það var reynt að fá þetta einhvernveginn rætt og „samræmt“ í þingflokknum en við neituðum. Á þessa atburðarás alla af mínum sjónarhóli í dagbók, sem þarf kannski einhverntímann að draga fram.
Eftir að aðrir höfðu látið í ljós þá skoðun, að ákæra hefði átt fleiri ráðherra en Geir H. Haarde, skrifaði Mörður:
Einsogt ég sagði — „þingflokkur xS“ klúðraði engu því þingflokkurinn tók enga sameiginlega afstöðu. Helmingurinn sagði nei, en hinir sögðu já á suma og nei á aðra. Við áttum, sagði Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari, að taka afstöðu sjálf, hvert um sig , eftir að hafa skoðað málið eins vel og hægt var, og taka afstöðu einsog saksóknari tekur — miðað við 1) sennilega „sekt“, 2) mögulegan árangur í málsókn. Ég held að við höfum gert það (þ.e. a.m.k. kosti við í já-hópnum). Sammála um Árna og BGS, en mér fannst engin leið að draga línu milli Björgvins viðskiptaráðherra og Ingibjargar Sólrúnar flokksformanns, og ætlaði að segja já á alla fjóra. — Hvað Hannesi svo kann að finnast um þetta eða þykist hafa fundið út um þetta er náttúrlega bara einsog hver annar brandari.
Guðmundur Andri Thorsson, sem situr nú á þingi fyrir Samfylkinguna, skrifaði athugasemd:
Ég hafði á tilfinningunni að málið væri ekki síst drifið áfram af Atla Gíslasyni.
Þessar umræður eru merkilegar að því leyti, að Samfylkingarmennirnir, sem tóku þátt í þeim, staðfesta það mat mitt í bókinni, að ákæran á hendur Geir H. Haarde hafi verið kappsmál Vinstri grænna. Raunar kom það mjög vel í ljós, eins og ég bendi á, þegar tillaga Bjarna Benediktssonar um afturköllun kom fram. Þá ætluðu Vinstri grænir af göflunum að ganga, eins og Ögmundur Jónasson lýsir í minningabók sinni.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir