Mánudagur 19.12.2022 - 13:10 - Rita ummæli

Þorsteinn Vilhjálmsson um landsdómsmálið

Nokkrar umræður urðu á Facebook-vegg Stefáns Pálssonar, eftir að ég hafði kynnt bók mína um landsdómsmálið í Silfrinu 4. desember. Einn þeirra, sem tók til máls, var Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur (og faðir Vilhjálms Þorsteinssonar fjárfestis og aðaleiganda Kjarnans):

Aðalmistökin í Landsdómsmálinu fólust í atkvæðagreiðslu Alþingis um hverja skyldi ákæra. Að mínu mati hefði líka átt að kæra Árna M. og Björgvin, ekki af því að þeir væru endilega sekir, haldur af því að þannig hefði hlutverk Landsdóms dýpkað og skýrst og úrskurðurinn sömuleiðs. Ég held því miður að það hafi verið þingflokkur xS sem klúðraði þessu en það varð ekki refsilaust heldur galt flokkurinn það dýru verði þegar hann þurrkaðist næstum út í næstu kosningum. Svo finnst mér HHG ekkert erindi eiga inn í málið; afstaða hans er 100% fyrirsjáanleg og sætir engum tíðindum. Hann lítur á málið eingöngu sem venjulegt dómsmál sem það er ekki eins og sést á skipan dómsins og upphafsorðum laganna um Landsóm, og einnig af þeirri niðurstöðu að engin viðurlög fylgdu dómnum. Hannes er ekki lögfræðingur sjálfur og því efnislega vanhæfur skv. eigin skilgreiningu á málinu. Hann telur sig hafa efni á að tala um vanhæfni annarra en er auðvitað vanhæfur sjálfur, bæði efnislega og formlega. Honum finnst skipta máli að ekki hafi verið kært í öðrum tilteknum málum. Vissulega hefði mátt kæra DO og HÁ fyrir valdníðslu í Íraksmálinu, en það skiptir engu í þessu máli..

Ég svaraði Þorsteini:

Þetta er auðvitað ekkert svar við ábendingu minni um, að einn dómari (Eiríkur Tómasson) að minnsta kosti var vanhæfur til að sitja í landsdómi: 1) hann hafði lýst eindreginni afstöðu til sakarefnisins í grein, sem að vísu hvarf af netinu; 2) hann hafði geymt fé STEFs í peningamarkaðssjóði, svo að 30% þess tapaðist vegna neyðarlaganna, sem Geir setti; 3) hann hafði átt hlutabréf í Landsbankanum og Glitni, sem töpuðust vegna neyðarlaganna, sem Geir setti; 4) hann hafði ráðist harkalega á Geir fyrir að hafa ekki veitt sér embætti hæstaréttardómara árið 2004. Ég er alveg reiðubúinn að hlusta á efnislegar athugasemdir við þessar ábendingar mínar. Eru þetta ekki eðlilegar vanhæfisástæður?

Þorsteinn svaraði að bragði:

Lífið er ekki skylmingar og ég hef þegar sagt það sem ég hef að segja um þetta.

Ég svaraði:

Þetta segir þú aðeins, af því að þú getur ekki svarað þessu efnislega. Lífið er ekki einræða þín. Lífið er ekki síst rannsókn og rökræða.

Þorsteinn var auðvitað einn þeirra marxista, sem mörkuðu stefnu Alþýðubandalagsins um og eftir 1970. Hann fór á „æskulýðsmót“ í Austur-Berlín 1973 sem formaður sendinefndar, og eftir heimsóknina birti sendinefndin mikið hól um mótið. Í ljós kom síðar, að allar „frjálsar“ umræður á mótinu voru vandlega sviðsettar af Stasi. Líklega óskar Þorsteinn Vilhjálmsson sér helst, að hann hefði sömu tækifæri til að þagga niður í mér og Stasi hafði forðum í Austur-Berlín.

Það er síðan furðulegt að sjá það, sem Þorsteinn segir um, að ákæra hefði átt fleiri ráðherra en Geir, þótt þeir væru ekki nauðsynlega sekir, því að það hefði „dýpkað“ og „skýrt“ málið. Það var einmitt brýnt fyrir þingmönnum, að aðeins ætti að ákæra, væri talið, að meiri líkur væri á sakfellingu en sýknu. Í vestrænum réttarríkjum eru sakamál ekki einhver sviðsetning til að „dýpka“ og „skýra“ mál, þótt vissulega væru haldin sýndarréttarhöld í ríkjum marxista. Hér kemur Þorsteinn eins og oft áður upp um uppruna hugmynda sinna. Hann fetar ekki aðeins í fótspor föður síns, Vilhjálms Þorsteinssonar, sem tók 1961 við stórfé frá Kremlverjum til að skipuleggja verkföll á Íslandi (eins og lýst er í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998), heldur þeirra Torquemada, Vyshínskíjs og annarra alræmdra rannsóknardómara. 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir