Flestir fréttamenn reyna áreiðanlega að gera sitt besta. Svo var eflaust um Hallgerði K. E. Jónsdóttur, sem hringdi í mig á dögunum frá fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar til að spyrja mig um nýlegt forsetakjör í Brasilíu, þar sem vinstri maðurinn Lula sigraði hægri manninn Bolsonaro naumlega. Hún nefndi, að Bolsonaro þætti skeytingarlaus um Amasónskóginn. Ég svaraði því til, að útlendingar yrðu að greiða Brasilíumönnum sérstaklega fyrir það, ef þeir vildu koma í veg fyrir nýtingu skógarins. Væntanlega fæli slík nýting líka aðallega í sér, að nytjajurtir kæmu í stað villigróðurs, plöntur á móti plöntum.
Hallgerður sá ástæðu til að leiðrétta mig, því að hún hnýtti aftan við ummæli mín: „Taka ber fram að Amazonskógurinn er stærsti villta svæðið í heimi og jafnframt það svæði sem hefur mesta lífríkisfjölbreytni. Þá er meira en 10 prósent alls súrefnis í andrúmsloftinu framleitt í skóginum. Þá ber að geta að ræktað land hefur minni líffræðilegan fjölbreytileika en stórborgir og því ekki rétt að gróður yrði ekki minnkaður. Auk þess hafa helstu mótmælendur nýtingar Amazonskógarins verið frumbyggjar hans, sem telja um milljón manna.“
Þetta er því miður allt rangt, þótt á því sé tuggið í bergmálsklefum fjölmiðlanna, svo að Hallgerði sé nokkur vorkunn. Lífríkisfjölbreytni þarf ekki að minnka við það, að skógur sé nýttur. Atlantshafsskógurinn í Brasilíu er aðeins 15% af því, sem hann var, þegar Evrópumenn komu fyrst til landsins, en lífríkisfjölbreytni hans er svipuð. Og Amasón-skógurinn framleiðir ekkert súrefni, þegar hann er í jafnvægi, því að jafnmikið súrefni eyðist þá við rotnun og dauða jurta og verður til við sóltillífun.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. nóvember 2022.)
Rita ummæli