Ólafi Arnarsyni (eða ef til vill Helga Magnússyni, vinnuveitanda hans) mislíkar sumt í bók minni um landsdómsmálið, þótt hann viðurkenni, að dómurinn yfir Geir H. Haarde hafi verið rangur. Sérstaklega gremst honum, að í fyrri hluta bókarinnar er rætt um orsakir bankahrunsins, en Ólafur hafði sjálfur skrifað bók á vegum auðjöfranna, Sofandi að feigðarósi, þar sem hann hafði kennt Davíð Oddssyni um bankahrunið (og væntanlega hina alþjóðlegu lausafjárkreppu líka). Ég svaraði greinarkorni hans á dögunum svo:
Mætti ég benda á, að Geir H. Haarde var aðallega gefið það að sök í landsdómsmálinu að hafa ekki tekið nægilegt mark á viðvörunum Davíðs Oddssonar fyrir bankahrun! Með öðrum orðum saksóttu hatursmenn Davíðs Geir fyrir að hafa ekki hlustað á Davíð. Þetta er eitt af mörgu gráthlægilegu við landsdómsmálið. Ólafur Arnarson fór svo offari gegn Davíð í bók þeirri, sem hann skrifaði á vegum auðjöfranna strax eftir bankahrun, að jafnvel hörðustu vinstri mönnum eins og Páli Baldvini Baldvinssyni og Guðmundi Andra Thorssyni þótti nóg um. En kjarni málsins er samt sá, að þeir Geir og Davíð tóku saman þær tvær ákvarðanir, sem farsælastar reyndust: að veita Glitni ekki umsvifalaust neyðarlán, sem hefði strax glatast, og að setja neyðarlögin, sem takmörkuðu mjög skuldbindingar ríkissjóðs. Í bók minni bendi ég enn fremur á það, að Geir gat lítið gert árið 2008, jafnvel þótt hann tæki viðvaranir Davíðs alvarlega, sem hann og gerði: Komið hefði til bankaáhlaups, hefði ríkisstjórnin sýnt þess minnstu merki, að hún væri hrædd um slíkt áhlaup. Bankarnir höfðu vaxið svo ört árin 2003–2005 (áður en Geir varð forsætisráðherra og Davíð seðlabankastjóri), að ríkissjóður og Seðlabanki gátu ekki veitt þeim næga lausafjárfyrirgreiðslu einir og óstuddir, kæmi til lausafjárkreppu í heiminum, eins og einmitt gerðist frá og með ágúst 2007. Eitt skýringarefnið er einmitt, af hverju Bandaríkjamenn neituðu að veita Seðlabankanum sömu fyrirgreiðslu og seðlabankar Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs fengu og af hverju ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins neitaði að veita breskum bönkum í eigu Íslendinga sömu fyrirgreiðslu og allir aðrir breskir bankar fengu. Því miður gekk rannsóknarnefnd Alþingis alveg fram hjá þessum spurningum. Hún kom ekki heldur auga á tvö mjög mikilvæg atriði. Í fyrsta lagi var óþarfi að beita hryðjuverkalögum á Íslendinga 8. október 2008, eins og gert var, því að þegar 3. október hafði Fjármálaeftirlitið gefið út tilskipun til Landsbankans, sem kom í veg fyrir allar óleyfilegar millifærslur fjármagns frá Bretlandi til Íslands. Í öðru lagi var um að ræða mismunun eftir þjóðerni, þegar breskum bönkum í eigu Íslendinga var neitað um sömu fyrirgreiðslu og allir aðrir breskir bankar fengu, en lög og reglur Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins banna slíka mismunun eftir þjóðerni. Ég held, að orsakir bankahrunsins hafi verið margar. Það hafi verið „svartur svanur“ eins og Nassim Taleb kallar það, óvæntur atburður, sem aðeins varð fyrirsjáanlegur í ljósi upplýsinga, er fengust við sjálfan atburðinn, þegar margt lagðist á eitt (svipað og brú getur brostið, ef nógu margir hermenn ganga háttbundið yfir hana: hún stenst einn hermann, tvo hermenn, tíu hermenn, en ekki hundrað hermenn).
Rita ummæli