Mánudagur 26.12.2022 - 17:46 - Rita ummæli

Það sem lesendur Stundarinnar þurfa að vita um LANDSDÓMSMÁLIÐ

Flestir lesendur Stundarinnar eru eflaust vinstri sinnaðir alveg eins og þeir, sem skrifa að staðaldri í blaðið. Ég yrði ekki hissa, þótt einhverjir þeirra hnipruðu sig jafnvel saman í bergmálsklefum og forðuðust að kynna sér neitt það, sem vakið gæti hjá þeim efa um réttmæti eigin skoðana. En ég trúi ekki öðru en að í lesendahópnum sé líka fjöldi manns með sterka réttlætiskennd og virðingu fyrir röksemdum, og fyrir þann hóp skrifa ég þessa grein.

Geir átti að sýkna af öllum ákæruliðum

Í landsdómi sýknuðu allir fimmtán dómararnir Geir H. Haarde sem kunnugt af þremur ákæruliðum meiri hluta Alþingis (33 þingmanna gegn 30), en meiri hluti landsdóms (9 dómarar gegn 6) sakfelldi Geir fyrir einn ákærulið, en áður hafði tveimur ákæruliðum verið vísað frá. Í bók minni um landsdómsmálið held ég því fram, að sakfellingin fyrir þennan eina ákærulið hafi verið röng lögfræðilega. Rökin eru tiltölulega einföld. Geir átti að hafa brotið ákvæði stjórnarskrárinnar um, að halda skyldi ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni, því að hann hefði ekki sett vanda bankanna á dagskrá ráðherrafunda. Þetta stjórnarskrárákvæði var sett árið 1920 af sérstökum ástæðum. Ísland var konungsríki, en þjóðhöfðinginn búsettur í Kaupmannahöfn. Ráðherra fór að jafnaði tvisvar á ári til Kaupmannahafnar til að bera málefni upp í ríkisráði, ekki aðeins sín eigin, heldur einnig annarra ráðherra. Þess vegna varð að tryggja, að þeir hefðu áður samþykkt það, sem hann ætlaði að bera upp. Ekkert sambærilegt ákvæði er í dönsku stjórnarskránni.

Eftir lýðveldisstofnun var í beinu framhaldi litið svo, að orðasambandið „mikilvæg stjórnarmálefni“ merkti málefni, sem atbeina forseta þyrfti til, svo sem framlagningu stjórnarfrumvarpa, skipanir í embætti, milliríkjasamninga og samþykkt lagafrumvörp. Það hefði raunar verið afar hæpið að setja vanda bankanna árið 2008 á dagskrá ráðherrafunda, þótt vissulega væru þeir oft ræddir á fundum, sérstaklega í tengslum við heimild ríkissjóðs til að taka stórt lán, sem samþykkt var í maí 2008. Sumar hættur eru þess eðlis, að þær aukast við umtal, og hættan á bankaáhlaupi er tvímælalaust þess eðlis. Hefði Geir sett vanda bankanna á dagskrá ráðherrafunda, hefði það getað valdið bankaáhlaupi og fellt bankana. Aðalatriðið lögfræðilega er þó, að meiri hluti landsdóms kaus að leggja nýja og víða merkingu í þetta ákvæði stjórnarskrárinnar. Hann lét Geir ekki njóta vafans og braut með því eitt lögmál réttarríkisins: In dubio, pars mitior est sequenda. Um vafamál skal velja mildari kostinn. Á þetta benti minni hluti landsdóms í vel ígrunduðu áliti sínu, en að því stóðu tveir hæstaréttardómarar, Garðar Gíslason og Benedikt Bogason.

Aldrei átti að ákæra Geir

Hitt er annað mál, að aldrei átti að ákæra Geir. Í bók minni bendi ég, að ásakanir rannsóknarnefndar Alþingis á hendur honum og tveimur öðrum ráðherrum fyrir vanrækslu voru um vanrækslu í skilningi laganna um nefndina sjálfa, sem sett voru í árslok 2008. Lögunum var með öðrum orðum beitt afturvirkt. Nefndin notaði miklu víðara vanræksluhugtak en venjulegt gat talist. Til dæmis var það (samkvæmt athugasemdum við frumvarpið) nú skyndilega vanræksla, ef menn höfðu ekki metið upplýsingar rétt eða ekki borið sig eftir upplýsingum, sem nauðsynlegar hefðu verið. Með afturvirkni laga var brotið eitt lögmál réttarríkisins: Nullum crimen sine lege, enga sök án laga.

Í bókinni bendi ég einnig á, að þingmannanefndin, sem átti að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndarinnar, bætti við þremur sakargiftum, sem ekki voru í skýrslunni, þótt hún segðist einmitt styðjast við skýrsluna sem málavaxtalýsingu: 1) Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir var bætt við í hóp sakborninga; 2) allir ráðherrarnir fjórir voru sakaðir um stjórnarskrárbrot, af því að vandi bankanna hefði ekki verið ræddur á ráðherrafundi; 3) og Árni M. Mathiesen var sakaður um vanrækslu í Icesave-málinu. Var þetta gert að ráði Jónatans Þórmundssonar prófessors. En rannsóknarnefndin hafði tekið öll þessi þrjú atriði til rannsóknar og ákveðið eftir andsvör hlutaðeigandi aðila að gera þau ekki að ásökunarefnum. Þótt rannsóknarnefndin væri vissulega hvorki saksóknari né dómstóll, hafði hún svo víðtækar rannsóknarheimildir og niðurstöður hennar höfðu svo alvarlegar afleiðingar fyrir fólk, að jafna mátti henni við dómstól (enda hlutu nefndarmenn friðhelgi dómara frá málsóknum). Þess vegna má segja, að brotið hafi verið enn eitt lögmál réttarríkisins: Ne bis in idem, ekki aftur hið sama.

Ranglát málsmeðferð

Sumir þingmenn, sem skammast sín fyrir hlut sinn að landsdómsmálinu án þess þó að geta viðurkennt það, segja, að málið sýni það eitt, að landsdómur eigi ekki að vera til. Aðrir þingmenn segja, að þeir hefðu ekki greitt atkvæði með því að ákæra Geir, hefðu þeir vitað af þeirri niðurstöðu, að hann yrði einn ákærður. Hvort tveggja er fyrirsláttur. Lögin um landsdóm voru prýðilega nothæf, en þingmannanefndin vanrækti að gera það, sem hún hafði þó lagaheimild til, sem var að gera vandaða sakamálarannsókn, þar sem gætt væri allra réttinda sakborninga. Ákúrur rannsóknarnefndarinnar um vanrækslu jafngiltu ekki sönnuðum og jafnvel ekki líklegum sökum. Og þeir þingmenn, sem töldu ranglátt að ákæra Geir einan, hefðu getað greitt atkvæði gegn tillögunni um það svo breyttri, þegar hún var borin upp, eftir að fellt hafði verið að ákæra aðra ráðherra.

Jafnframt voru ýmsar misfellur í vali dómenda og meðferð málsins. Þau Markús Sigurbjörnsson og Björg Thorarensen virðast hafa ákveðið það sín í milli, hvort þeirra hjóna færi í landsdóm. Tveir menn settust í landsdóm í ársbyrjun 2011, Benedikt Bogason sem fulltrúi lagadeildar og Helgi I. Jónsson sem fulltrúi héraðsdóms. Báðir voru settir hæstaréttardómarar síðar það ár. Benedikt sat áfram í dómnum, en Helgi vék þaðan. Engu að síður höfðu verið samþykkt lög um að framlengja kjörtímabil þingkjörnu fulltrúanna til að mynda ekki rof í málsmeðferð. Auðvitað hefðu þau lög átt að ná líka til sjálfkjörnu fulltrúanna. Einn dómandi forfallaðist síðan vegna veikinda, og var þá einn af þremur hæstaréttardómurum, sem skipaðir voru 1. september 2011, settur í landsdóm, Eiríkur Tómasson. Hvers vegna tók hann sæti í landsdómi, en hvorugur hinna nýju dómaranna? Ef svarið var, að hann hefði talist eftir ákvörðun dómsmálaráðherra hafa verið skipaður fyrstur, þá var ákæruvaldið (sem ráðherrann var hluti af, enda hafði hann greitt atkvæði með ákæru) að hlutast til um, hverjir yrðu dómendur.

Vanhæfir dómarar

Eðlilegast hefði auðvitað verið, að sömu dómendur hefðu dæmt málið frá upphafi til enda og að Ingibjörg Benediktsdóttir hefði allan tímann verið forseti landsdóms. En að minnsta kosti einn dómari var tvímælalaust vanhæfur, Eiríkur Tómasson, og liggja til þess margar ástæður. Ein var, að hann hafði í febrúar 2009 skrifað grein á visir.is, þar sem hann hélt því fram, að einn orsakaþáttur bankahrunsins hefði verið ægivald ráðherra, sem misnotað hefði verið í aðdraganda hrunsins. Sú grein hvarf af netinu, og tókst mér að grafa hana upp með erfiðismunum. Enginn vissi um hana, þegar Eiríkur settist í dóminn. Önnur ástæða var, að Eiríkur hafði sem framkvæmdastjóri STEFs geymt stórfé í peningamarkaðssjóðum, en ekki í bönkum, svo að félagið tapaði miklu á því, þegar innstæður fengu forgang með neyðarlögunum, sem Geir H. Haarde bar fram. Jafnframt hafði Eiríkur sjálfur átt hlutabréf fyrir verulegar fjárhæðir í Glitni og Landsbankanum, sem hann tapaði. Í fjórða lagi hafði Eiríkur sótt um embætti hæstaréttardómara árið 2004, sem Geir veitti sem settur dómsmálaráðherra. Hafði Eiríkur tekið því mjög illa, að hann fékk ekki embættið, og sagt Geir grafa með þessari ráðstöfun undan réttarríkinu, sem er auðvitað alvarleg ásökun.

Margt fleira kemur fram í bók minni, en ég skora á lesendur Stundarinnar að kynna sér þessi rök opnum huga og velta því fyrir sér, hvort þeir komist ekki að sömu niðurstöðu og ég: að brotið hafi verið á saklausum manni. Jafnt hægri menn og vinstri eiga að njóta verndar réttarríkisins.

(Grein í Stundinni 21. desember 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir