Sunnudagur 25.12.2022 - 11:02 - Rita ummæli

Tjörvi Schiöth um landsdómsmálið

Þórarinn Hjartarson tók við mig hressilegt viðtal í hlaðvarpi sínu, og er helmingurinn aðgengilegur án endurgjalds, en hinn helmingurinn krefst áskriftar. Þar ber Þórarinn upp ýmis sjónarmið vinstri manna. Þegar hann vakti athygli á þessu á Facebook-vegg sínum, kom fram maður að nafni Tjörvi Schiöth og sagði:

Hver nennir að hlusta á HHG nema hörðustu hægrimenn og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins?

Ég svaraði:

Þetta á ekki að snúast um manninn, heldur um röksemdirnar, sem hann færir fram.

Tjörvi svaraði:

Það hafa allir heyrt þínar röksemdir margoft áður. Þú ert búinn að vera að halda þeim fram í hartnær 30 ár.

Þá svaraði ég:

Þessi bók er ekki um stjórnmálaskoðanir mínar, sem ég hef haldið fram í fimmtíu ár, ekki þrjátíu, heldur um landsdómsmálið, og þar bendi ég á ýmsar áður ókunnar staðreyndir og sjónarmið. Meðal annars held ég því fram, að lögmál réttarríkisins hafi verið brotin: In dubio, pars mitior est sequenda, um vafamál skal velja mildari kostinn (vafi hafi verið á túlkun stjórnarskrárákvæðis, sem Geir var talinn brjóta); Nullum crimen sine lege, enga sök án laga (lögum var beitt afturvirkt til að geta sakað Geir um vanrækslu); Ne bis in idem, ekki aftur hið sama (rannsóknarnefnd Alþingis hafði rannsakað sum ákæruatriðin og ákveðið að gera þau ekki að ásökunarefnum). Jafnframt leiði ég rök að því, að einn dómandinn í Hæstarétti hafi tvímælalaust verið vanhæfur af mörgum samverkandi ástæðum, en tveir aðrir líklega einnig vanhæfir. Þetta er ekkert, sem ég hef sagt í þrjátíu ár, ekki einu sinni í þrjú ár, heldur í fyrsta skipti í þessari bók.

Í Facebook-síðu sinni segist Tjörvi þessi stunda nám í hugmyndasögu í Háskóla Íslands. En hann virðist ekki hafa neinn áhuga á hugmyndum, heldur búa í einhverjum bergmálsklefa. Með því þrengir hann auðvitað eigin sjóndeildarhring. Um slíka menn orti Steinn Steinarr:

Þá brá ég við

og réði mann til mín

sem múraði upp í gluggann.

Það er greinilega múrað upp í alla glugga í bergmálsklefanum hjá Tjörva.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir