Sunnudagur 25.12.2022 - 10:59 - Rita ummæli

Vanhæfi sökum fyrri árekstra

Þegar Geir H. Haarde var leiddur fyrir landsdóm 5. mars 2012, sakaður um refsiverða vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins, stóð hann andspænis tveimur hæstaréttardómurum, sem áttu eflaust erfitt með að vera óhlutdrægir í hans garð, eins og ég leiði rök að í nýrri bók um landsdómsmálið. Þeir Eiríkur Tómasson og Eggert Óskarsson höfðu árið 2004 sótt um embætti hæstaréttardómara, sem Geir H. Haarde veitti þá sem settur dómsmálaráðherra. Hann skipaði hvorugan þeirra í embættið, heldur Jón Steinar Gunnlaugsson, og var mikil heift í málinu. Eiríkur sagði til dæmis í viðtali við Fréttablaðið 30. september 2004, að með þessari embættisveitingu hefði Geir grafið undan réttinum. Nú væru tveir sjálfstæðismenn hæstaréttardómarar.

Eiríkur gat þess ekki, að á Íslandi hafa margir lögfræðingar verið skipaðir hæstaréttardómarar, þótt þeir hafi áður haft afskipti af stjórnmálum. Einn þeirra var Benedikt Sigurjónsson. „Hann var harður Framsóknarmaður, og ég hafði oft leitað ráða hjá honum um lögfræðileg efni,“ sagði Steingrímur Hermannsson, þegar hann minntist dómsmálaráðherratíðar sinnar. Um þetta hlaut Eiríki að vera kunnugt, því að hann var þá einmitt aðstoðarmaður Steingríms í dómsmálaráðuneytinu. Þeir Eiríkur og Eggert voru í þeim meiri hluta landsdóms, sem vildi sakfella Geir fyrir aukaatriði.

Þriðji dómandinn í landsdómi, Brynhildur Flóvenz, hafði kvartað undan því við danskt blað 1. febrúar 2009, að eftir bankahrunið yrði hún í fjölskylduboðum að reiða fram fisk, en ekki hreindýrasteik. Hún væri þó reiðubúin að fórna öllum steikum, „ef kreppan felur í sér uppgjör við klíkuveldið og fleiri konur í forystu“. Hér kenndi Brynhildur klíkuveldi og karlmennskuhugarfari um bankahrunið, en nærtækasti fulltrúi þessa hvors tveggja í huga hennar  var væntanlega Geir H. Haarde forsætisráðherra. Brynhildur var í þeim meiri hluta landsdóms, sem vildi sakfella Geir fyrir aukaatriði.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. desember 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir