Laugardagur 31.12.2022 - 07:34 - Rita ummæli

Nullum crimen sine lege

Eitt merkasta og mikilvægasta lögmál réttarríkisins er Nullum crimen sine lege, enga sök án laga. Það merkir, að ekki megi sakfella menn fyrir háttsemi, sem ekki var ólögleg og refsiverð, þegar hún fór fram. En eins og ég bendi á í nýrri bók minni um landsdómsmálið braut rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu 2008 þetta lögmál, þegar hún í skýrslu sinni vorið 2010 sakaði þrjá ráðherra og fjóra embættismenn um vanrækslu. Eins og hún tók sjálf fram, átti hún við vanrækslu í skilningi laganna um nefndina sjálfa, sem sett höfðu verið eftir bankahrunið. Nefndin beitti með öðrum orðum lögum afturvirkt, og sætir furðu, hversu lítill gaumur hefur verið gefinn að þessu.

Ástæðan til þess, að rannsóknarnefndin beitti lögum afturvirkt, var hins vegar augljós. Hún átti að róa almenning með því að finna sökudólga. En þrátt fyrir sextán mánaða starfstíma, rífleg fjárráð, fjölda starfsfólks og ótakmarkaðan aðgang að skjölum og vitnisburðum fann rannsóknarnefndin ekki eitt einasta dæmi um augljóst lögbrot ráðamanna í bankahruninu. Þess vegna vísaði nefndin í lögin um sjálfa sig, þegar hún sakaði ráðamenn um vanrækslu, því að í athugasemdum við frumvarpið um þau sagði, að með vanrækslu væri ekki aðeins átt við hefðbundinn skilning hugtaksins í íslenskum lögum, heldur líka við það, ef upplýsingar væru metnar rangt eða vanrækt væri að afla nauðsynlegra upplýsinga.

Athugasemdir í lagafrumvörpum geta þó ekki vikið til hliðar settum lögum og föstum venjum. Óeðlilegt var að víkka út vanræksluhugtakið og nota það afturvirkt til að saka fólk um vanrækslu, af því að það hefði ekki metið fyrirliggjandi upplýsingar rétt og ekki aflað frekari upplýsinga. En auðvitað þótti mikilvægara að róa almenning en fylgja lögmálum réttarríkisins.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. desember 2022.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir