Laugardagur 07.01.2023 - 16:55 - Rita ummæli

Ne bis in idem

Eitt merkasta og mikilvægasta lögmál réttarríkisins er Ne bis in idem, sem merkir bókstaflega: ekki aftur hið sama. Það felur í sér, að borgarar í réttarríki geti treyst því, að sama málið sé ekki rekið aftur gegn þeim, eftir að það hefur verið leitt til lykta. Þeir þurfi ekki að eiga yfir höfði sér þrotlausar málshöfðanir út af því sama. Því hefur ekki verið veitt athygli, að þetta lögmál var brotið í málarekstrinum gegn Geir H. Haarde, eins og ég bendi á í bók minni um landsdómsmálið.

Rannsóknarnefnd Alþingis tók til athugunar, hvort Geir hefði í aðdraganda bankahrunsins brotið það ákvæði stjórnarskrárinnar, að halda skyldi fundi um mikilvæg stjórnarmálefni, með því hvoru tveggja að boða ekki sjálfur til slíks fundar og veita ekki bankamálaráðherranum nægar upplýsingar til þess, að sá gæti neytt réttar síns til að óska slíks fundar. Komu þessar athugasemdir fram í bréfi nefndarinnar til Geirs í febrúar 2010, þar sem honum var gefinn kostur á að svara. Geir gerði það skilmerkilega og benti á, að um margt hefði verið rætt á ráðherrafundum, þar á meðal efnahagsvandann árið 2008, án þess að um það hefði verið bókað, að varasamt hefði verið að setja á dagskrá ráðherrafundar hinn sérstaka vanda bankanna og að oddviti samstarfsflokksins hefði átt að veita bankamálaráðherranum upplýsingar. Rannsóknarnefndin hvarf þá frá því að gera þetta að sérstöku ásökunarefni á hendur Geir.

Aðalráðgjafi þingmannanefndar um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndarinnar, Jónatan Þórmundsson, bætti hins vegar þessu ásökunarefni við aftur. Þótt vissulega hefði rannsóknarnefndin hvorki ákæruvald né dómsvald, voru rannsóknarheimildir hennar svo rúmar og afleiðingar fyrir menn af niðurstöðum hennar svo miklar, að líkja mátti henni við dómstól (enda fengu rannsóknarnefndarmennirnir með lögum sömu friðhelgi og dómarar). Því má segja, að með því að vilja ákæra Geir fyrir að hafa brotið stjórnarskrána hafi þingmannanefndin brotið lögmálið Ne bis in idem.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. janúar 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir