Laugardagur 08.07.2023 - 13:55 - Rita ummæli

Brúarstæði, apríl 2023

Hið forna heiti borgarinnar Bristol í Englandi var Brycgstow, sem merkir Brúarstæði. Hún kemur nokkuð við sögu Íslendinga á fimmtándu öld, þegar Englendingar, ekki síst frá Bristol, stunduðu fiskveiðar og verslun við Íslandsstrendur. Árið 1484 voru 48 Íslendingar skráðir í borginni, og nokkrir kaupmenn þar versluðu jöfnum höndum við Ísland og Portúgal. Þessi fjöruga verslun lagðist illu heilli niður við dönsku einokunina. Á ráðstefnu í Bristol 17. apríl var mér falið að segja nokkur orð um, hvernig við jarðarbúar gætum leitað hamingjunnar, friðsældar og hagsældar. Það er lítið um svör, þegar stórt er spurt. En ég benti á, að eðlilegra er að reyna að minnka óhamingjuna frekar en auka hamingjuna, ekki síst af því að við vitum betur, hvað óhamingja er: fátækt, ofbeldi, stríðsrekstur og sjúkdómar.

Vinstri menn vilja gera fátæktina léttbærari með því að hjálpa fátæklingum. Hægri menn vilja gera fátæktina sjaldgæfari með því að fækka fátæklingum, og það má gera með því að fjölga með auknu atvinnufrelsi tækifærum til að brjótast úr fátækt í bjargálnir.

Vinstri menn vilja minnka ofbeldi með því að hlusta á ofbeldisseggina, aðallega um misjafna æsku þeirra. Hægri menn vilja halda ofbeldisseggjum í skefjum með harðskeyttri lögreglu og ströngum refsingum.

Vinstri menn vilja banna stríðsrekstur með yfirlýsingum og sáttmálum. Hægri menn telja slík skjöl lítils virði, ef engir eru bakhjarlarnir. Orðagaldur breytir ekki úlfum í lömb. Óvopnaðir samningamenn fá litlu áorkað.

Vinstri menn vilja ráðast á sjúkdóma með því að reka stórar og dýrar heilbrigðisstofnanir. Hægri menn telja einsýnt, að besta heilsubótin felist í góðum lífskjörum. Hagvöxturinn bægði burt fornum fjendum Íslendinga, myrkrinu, kuldanum og rakanum, og nú brugga öflug einkafyrirtæki sífellt ný og betri lyf og smíða ný og betri tæki til að lækna margvísleg mein.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. apríl 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir