Laugardagur 08.07.2023 - 13:51 - Rita ummæli

Höfn, apríl 2023

Næststærsta borg Portúgals, sem Fjölnismenn kölluðu Hafnarland, er Porto, Höfn. Miðbærinn við sjóinn er fallegur og notalegur. Hér var ég beðinn að segja nokkur orð 15. apríl um æskilegustu þróun Evrópusambandsins. Ég kvað stofnun þess hafa verið af hinu góðu. Frakkar og Þjóðverjar smíðuðu plóga úr sverðum og eins auðvelt varð að fara yfir landamæri og fyrir 1914, þegar ekki þurfti vegabréf til að komast leiðar sinnar um Norðurálfuna, nema ferðinni væri heitið til afturhaldsríkjanna, Tyrkjaveldis soldánsins eða Rússaveldis keisarans. En síðustu áratugi hefði Evrópusambandið smám saman verið að breytast úr ríkjasambandi (confederation) í sambandsríki (federation). Aðildarríkin væru að færa sífellt meira vald í hendur umboðslausra skriffinna í blekiðjubákninu í Brüssel. Þessari þróun þyrfti að snúa við. Færa þyrfti fullveldið, yfirráð eigin mála, aftur frá Brüssel til einstakra ríkja.

Nú sagði helsti postuli Evrópusambandshugsjónarinnar, Luigi Einaudi, að Þjóðabandalagið hefði misheppnast, því að það hefði ekki haft neitt framkvæmdarvald og engan her. En Atlantshafsbandalagið gegnir með prýði því hlutverki að verja Evrópu. Ég benti hins vegar á fordæmi um eðlilegt samstarf ríkja. Norðurlönd hefðu viðurkennt rétt til aðskilnaðar, þegar Norðmenn sögðu skilið við Svía 1905, Finnar við Rússa 1917 og Íslendingar við Dani 1918. Landamæri hefðu verið færð til milli Danmerkur og Þýskalands eftir atkvæðagreiðslur í umdeildum landamærahéruðum 1920. Sérstökum hópum hefði verið tryggð sjálfstjórn, Álandseyingum í Finnlandi og Færeyingum í Danmörku. Og Norðurlandaráð hefði verið vettvangur samráðs og menningarsamvinnu, jafnframt því sem vegabréfa væri ekki lengur krafist milli norrænu ríkjanna og vinnumarkaður væri sameiginlegur, án þess þó að fullveldi einstakra ríkja hefði verið skert að ráði. Ekki mætti heldur gleyma því, að Norðurlönd voru í vel heppnuðu myntbandalagi frá 1873 til 1914.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. apríl 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir