Laugardagur 08.07.2023 - 14:04 - Rita ummæli

Lissabon, apríl 2023

Á fjölmennri ráðstefnu evrópskra frjálshyggjustúdenta í Lissabon 22.–23. apríl var sérstök dagskrá helguð mér í tilefni sjötugsafmælis míns og starfsloka í Háskóla Íslands. Robert Tyler, sérfræðingur í hugveitunni New Direction í Brüssel, ræddi við mig. Ég sagði samkomunni, að þrjár bækur hefðu haft mest áhrif á mig ungan, The Gulag Archipelago eftir Aleksandr Solzhenítsyn, The Open Society and Its Enemies eftir Karl Popper og The Road to Serfdom eftir Friedrich von Hayek. Hefði Hayek komið til Íslands í apríl 1980 og Milton Friedman í ágúst 1984, og hefðu fyrirlestrar þeirra vakið mikla athygli. Hitti ég þá tvo oft eftir það, en einkennilegt er til þess að vita, að ekki eru nú margir á lífi, sem kynnst höfðu þessum andans jöfrum jafnvel og ég.

Mörgum ráðstefnugestum þótti merkilegt, að ég hefði haustið 1984 rekið ásamt nokkrum vinum ólöglega útvarpsstöð í því skyni að mótmæla ríkiseinokun á útvarpsrekstri. Eftir eltingarleik í röska viku fann lögreglan loks stöðina og lokaði, og hlaut ég eftir það minn fyrsta dóm og hinn eina, sem ég er stoltur af. En við náðum tilgangi okkar, því að í framhaldinu samþykkti Alþingi að afnema ríkiseinokunina.

Ég sagði líka frá hinum víðtæku umbótum, sem Davíð Oddsson og aðrir samherjar mínir beittu sér fyrir upp úr 1991, en kostir þeirra sáust best á því, hversu snöggir Íslendingar voru að rétta úr kútnum eftir bankahrunið 2008. Rifjaði ég upp, þegar ég fór með Davíð í Hvíta húsið 6. júlí 2004, en þar sungum við í Ávölustofu (Oval Office) afmælissönginn alkunna fyrir Bush Bandaríkjaforseta, því að hann varð 58 ára þennan dag, þótt ekki væri söngurinn jafnkliðmjúkur og þegar Marilyn Monroe söng forðum fyrir Kennedy forseta, eins og Colin Powell utanríkisráðherra, sem stóð þá við hlið mér, hafði orð á við mig.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. maí 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir