Laugardagur 08.07.2023 - 13:49 - Rita ummæli

Ný sýn á gamalt mál

Hér hef ég tvisvar vikið að því, þegar fulltrúi Svía í friðarsamningum við Dani í Kíl í janúar 1814, Wetterstedt barón, virtist hafa trúa því, sem danski fulltrúinn, Edmund Bourke, sagði honum, að Grænland, Ísland og Færeyjar hefðu aldrei tilheyrt Noregi. Þessar Atlantshafseyjar hefðu þess vegna verið undanskildar, þegar Danir létu Noreg af hendi við Svíþjóð. Fræðimenn hafa efast um þessa skýringu, því að hún sé með ólíkindum. Þeir hafa sumir talið (þó án nokkurra heimilda), að Bretar hafi ráðið úrslitum. Þeir hafi ekki viljað hafa öflugt ríki nálægt sér í Norður-Atlantshafi.

Nýlega rakst ég á bréf til danska utanríkisráðherrans frá sendiherra Dana í Stokkhólmi, Hans Krabbe-Carisius, 16. febrúar 1819. Þar var skýrt frá samtali sænska utanríkisráðherrans, Engeströms greifa, og breska sendiherrans, Strangfords lávarðar. Engeström sagði, að auðvitað hefðu þessar eyjar upphaflega tilheyrt Noregi, en Wetterstedt hefði látið blekkjast af Bourke. Þá mælti Strangford: „Það er svo! En á hverju reisið þér kröfu yðar um, að þessum eyjum verði skilað?“ Engeström svaraði: „Á mótmælum norska Stórþingsins við því, að þær skyldu hafa verið undanskildar.“

Þessi heimild sýnir, að Wetterstedt lét blekkjast. En var Bourke að blekkja hann? Ef til vill átti hann við það, að Ísland hefði að minnsta kosti aldrei tilheyrt Noregi, heldur hefðu Íslendingar gengið á hönd Hákoni Noregskonungi árið 1262, ekki Norðmönnum. Hinir réttu erfingjar þess konungs sætu í Kaupmannahöfn, ekki Stokkhólmi. Það kann síðan að vera rétt, að Bretar hafi ekki haft áhuga á að fá Svía inn á Norður-Atlantshaf. En aðalatriðið var, að Svíar sjálfir höfðu ekki áhuga á því, enda áttu þeir fullt í fangi með að tryggja hagsmuni sína við Eystrasalt. Saman fór fernt, hálfur sannleikur úr munni Bourkes, vanþekking Wetterstedts, áhugaleysi Breta og Svía um Ísland og vanmáttur Noregs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. apríl 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir