Laugardagur 09.09.2023 - 09:51 - Rita ummæli

Norrænar lausnir

Fæstir vita, að Norðurlandabúar hafa leyst ýmis mál friðsamlega, sem vafist hafa fyrir öðrum:

1. Friðsamlegur aðskilnaður. Grundtvig gamli orti, að þjóðin væri þeir, sem vildu vera þjóð. En hvað gerist, þegar einhver hópur vill ekki deila ríki með öðrum? Norðurlönd eiga svarið. Norðmenn og Svíar skildust að 1905, Finnar og Rússar 1917 og Íslendingar og Danir 1918.

2. Atkvæðagreiðslur um landamærabreytingar. Þjóðverjar höfðu lagt undir sig Slésvík 1864. Í norðurhlutanum töluðu menn dönsku og litu á sig sem Dani. Eftir fyrri heimsstyrjöld fengu íbúar Slésvíkur að greiða atkvæði um það í kjördæmum, hvort kjördæmi þeirra ætti að vera í Danmörku eða Þýskalandi. Vildi nyrsta kjördæmið vera í Danmörku, en hin í Þýskalandi, og var farið eftir því.

3. Sjálfstjórnarsvæði. Sænskumælandi Finnar búa á Álandseyjum og vildu 1919 sameinast Svíþjóð. En þeir fengu víðtæka sjálfstjórn og eru nú ánægðir með sitt hlutskipti. Hið sama má segja um Færeyjar og Grænland.

4. Deilur lagðar í gerð. Þegar Svíar og Finnar deildu um Álandseyjar, var deilunni skotið til Þjóðabandalagsins, sem úrskurðaði 1921, að eyjarnar væru hluti Finnlands. Þegar Danir og Norðmenn deildu um Austur-Grænland, var deilunni skotið til Alþjóðadómstólsins í Haag, sem úrskurðaði 1933, að Danir hefðu þar forræði.

5. Sjálfbærni smáþjóða. Ef smáþjóðir nýta sér kosti hinnar alþjóðlegu verkaskiptingar og frjálsra viðskipta, þá geta þær verið sjálfbærar. Því stærri sem markaðurinn er, því minna geta ríkið verið.

6. Samstarf án fullveldisafsals. Norðurlandaráð hefur unnið að samræmingu löggjafar á Norðurlöndum og auknum samskiptum án fullveldisafsals og blekiðjubáknsins í Brüssel. Menn hafa lengi getað ferðast án vegabréfs um öll Norðurlönd.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. september 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir