Laugardagur 14.10.2023 - 06:34 - Rita ummæli

Tilveruréttur Ísraels

Árin milli stríða skiptust ríki heims í þau, sem vildu losna við Gyðinga, og hin, sem neituðu að taka á móti þeim. Þetta sýndi Gyðingum fram á það í eitt skipti fyrir öll, að síonisminn ætti við rök að styðjast. Gyðingar yrðu að sjá um sig sjálfir, búa í eigin landi, en reiða sig ekki á aðra. Alltaf hafði verið eitthvað af Gyðingum í hinu forna heimalandi þeirra, Ísrael, en upp úr 1880 hófu Gyðingar að flykkjast þangað undan ofsóknum í Rússaveldi. Þá voru á landabréfum hvorki til Palestína né Ísrael, heldur voru þetta héruð í Tyrkjaveldi, og voru Gyðingar velkomnir þangað. Þeir keyptu sér sumir jarðir og hófu að rækta upp eyðimerkur, en aðrir settust að í borgum. Árið 1914 voru Gyðingar orðnir 14% íbúanna. Þegar Tyrkjaveldi var skipt upp eftir fyrri heimsstyrjöld, tóku Bretar í umboði Þjóðabandalagsins við stjórn nokkurra héraða þess, sem saman voru nefnd Palestína. Gyðingar héldu áfram að að flytjast til hins forna heimalands síns, en við sívaxandi andstöðu Araba. Voru Gyðingar í stríðsbyrjun 1939 orðnir þriðjungur landsmanna.

Árið 1947 ályktaði Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, ekki síst að ráði Thors Thors, sendiherra Íslands, að Palestínu skyldi skipt í tvennt, milli Gyðinga og Araba. Gyðingar samþykktu þetta, en Arabar höfnuðu. Þegar Gyðingar stofnuðu Ísraelsríki vorið 1948, réðust Arabaríkin öll á það, en biðu herfilegan ósigur, og stækkaði landið nokkuð umfram það, sem gert hafði verið ráð fyrir. Síðan hafa Arabaríkin ráðist hvað eftir annað á Ísrael, en jafnan beðið lægri hlut. Herforingjar þeirra eru of digrir og hermennirnir of horaðir. Enn hefur Ísrael stækkað. Arabaríkin hafa neitað að taka á móti þeim Aröbum, sem vildu flýja frá Ísrael, ólíkt Grikkjum, sem tóku á móti einni milljón frá Tyrklandi 1922, Finnum, sem tóku við 400 þúsund frá Rússlandi 1940, Þjóðverjum, sem tóku við tíu milljónum frá Póllandi og Tékkóslóvakíu 1945, og Frökkum, sem tóku á móti einni milljón frá Alsír 1962. Með þessu hafa Arabaríkin séð um, að flóttamannavandinn yrði áfram óleystur.

Að kröfu umheimsins hafa Ísraelsmenn leyft Aröbum í Gaza að stjórna sér sjálfum. Þeir kusu yfir sig hryðjuverkamenn, og frá Gaza hefur rignt yfir Ísraelsmenn flugskeytum, sem eiga að drepa fólk. Og nú nýlega var gerð svo villimannsleg árás frá Gaza á Ísrael, að helst er að jafna við helförina, sem nasistar skipulögðu. Hvað eiga Ísraelsmenn að gera? Sætta sig við þetta eins og þegar þeir voru reknir inn í gasklefana?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. október 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir