Laugardagur 07.10.2023 - 07:42 - Rita ummæli

Hitt drápið

Tveir Íslendingar voru drepnir í Kaupmannahöfn, eftir að þýska hernámsliðið í Danmörku gafst upp 5. maí 1945, rithöfundurinn Guðmundur Kamban, sem margt hefur verið skrifað um, og sautján ára drengur, Karl Jón Hallsson. Er sagt frá drápi Karls Jóns í Berlínarblús eftir Ásgeir Guðmundsson. Faðir hans, Gunnar Hallsson, útgerðarmaður í Esbjerg, og bróðir hans, Björn, voru báðir nasistar. Karl Jón hafði að vísu gengið í ungliðasamtök danska nasistaflokksins þrettán ára, en sagt sig úr þeim tveimur árum síðar. Vorið 1945 stundaði hann menntaskólanám í Kaupmannahöfn. Andspyrnuliðar gripu hann á götu 5. maí og fluttu í bráðabirgðafangelsi, þar sem hann var geymdur í röskan sólarhring. Síðdegis næsta dag var hann rekinn upp í pall á vörubíl, sem átti að flytja hann og fleiri í venjulegt fangelsi. Var fyrst ekið hægt um borgina, svo að fólki gæfist kostur á að hrópa að föngunum, hrækja á þá og grýta í þá öllu lauslegu. Karl Jón varð órólegur, og tók einn andspyrnuliðinn það til bragðs að skjóta hann. Drengurinn særðist og féll niður á pallinn. Þá var hann skotinn aftur og nú í höfuðið, svo að hann lést strax.

Síðar kom í ljós, að Karl Jón hafði verið tekinn í misgripum fyrir bróður sinn. Faðir hans og bróðir fengu báðir dóma fyrir samstarf og þjónustu við hernámsliðið. Dönsk stjórnvöld gerðu ekkert til að upplýsa drápið, en sjónarvottar sögðu síðar frá því, að Leifur Gunnlögsson verslunarmaður, sem var af íslenskum ættum, hefði hleypt af fyrra skotinu, en danskur vörubílstjóri, P. O. Nielsen, hinu seinna. Er þetta dráp enn eitt dæmi þess, hversu mikilvægt er að halda uppi lögum, hvað sem á dynur. Í nokkrar vikur í stríðslok var Danmörk stjórnlaus. Margir voru þá teknir af lífi án undangenginnar rannsóknar. Eflaust voru ýmsir þeirra sekir, en aðrir höfðu ekki framið nein refsiverð brot, þótt hegðun þeirra hefði ef til vill verið ámælisverð. Alkunnur hrottaskapur nasista afsakaði ekkert. Danmörk var ekki Nasista-Þýskaland.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. október 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir