Laugardagur 30.09.2023 - 04:54 - Rita ummæli

Dráp Kambans

Á dögunum birti Guðmundur Magnússon sagnfræðingur fróðlega grein í Morgunblaðinu um dráp íslenska skáldsins Guðmundar Kambans í Kaupmannahöfn vorið 1945. Er þar í fyrsta skipti upplýst um drápsmanninn. Hann var Egon Alfred Højland, sem hafði ungur gerst róttækur og barist með lýðveldishernum í spænska borgarastríðinu (sjá Aktuelt 18. júlí 1986). Síðan var Højland virkur í samtökum jafnaðarmanna, þar á meðal andspyrnuhópnum Hringnum, Ringen. Þegar þýski herinn í Danmörku gafst upp aðfaranótt 5. maí 1945, skálmuðu Højland og aðrir andspyrnuliðar um vopnaðir og handtóku þá, sem þeir töldu hafa aðstoðað nasista á hernámsárunum. Voru um 25 manns skotnir til bana þann dag. Kamban var drepinn, af því að hann neitaði að fara með andspyrnuliðunum. Højland var skiltamálari að atvinnu, og þegar Erhard Jakobsen klauf Jafnaðarmannaflokkinn árið 1973 og stofnaði eigin flokk, fylgdi Højland honum og sat á danska þinginu í tvö ár.

Á stríðsárunum drap andspyrnuhreyfingin um 400 manns, sem áttu að hafa verið flugumenn nasista (stikkers). Hefðu þeir sagt til andspyrnuliða og verið drepnir í sjálfsvörn (notað var feluorðið „likvideret“ eða eytt). Í ljós hefur hins vegar komið, að fæstir voru raunverulegir uppljóstrarar, heldur áttu einstakir andspyrnuliðar eitthvað sökótt við hina drepnu (sjá bækurnar Stikkerdrab eftir Steffan Elmkjær og Efter drabet eftir Peter Øvig Knudsen). Það var rangt, sem forystumenn andspyrnuhreyfingarinnar sögðu síðar, að það hefði aðeins verið að vandlega athuguðu máli, sem drápin hefðu verið ákveðin. Tilviljun réð iðulega. Eftir stríð sömdu forystumenn andspyrnuhreyfingarinnar við dönsk stjórnvöld um, að drápsmenn úr hreyfingunni yrðu ekki sóttir til saka, og rannsakaði andspyrnuhreyfingin sjálf sum mál, lögreglan önnur, en önnur voru aldrei rannsökuð. Í skjölum dönsku lögreglunnar kemur ekkert fram um, að Kamban hafi verið nasisti eða flugumaður þeirra. Hann var drepinn saklaus, myrtur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. september 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir