Laugardagur 21.10.2023 - 07:15 - Rita ummæli

Eru Palestínumenn þjóð?

Heimspekingar hafa mjög velt fyrir sér merkingu orðsins „þjóð“. Minn gamli lærifaðir Karl R. Popper hafnaði þjóðernisstefnu með öllu, taldi hana ættbálkahugsun endurborna. Hann kvað ekkert dæmi til um raunverulega þjóð, nema ef vera skyldi Íslendinga, en þeir sæju þó ekki sjálfir um varnir sínar. Sir Isaiah Berlin hélt því fram, að þjóðarvitund yrði oftast til í sjálfsvörn, þegar einn hópur teldi annan lítillækka sig eða kúga. Ernest Gellner rakti þjóðarhugtakið til nútímans, þéttbýlismyndunar og iðnvæðingar, þar sem einstaklingar þyrftu að skilgreina sig. Benedict Anderson taldi þetta ímyndað hugtak, sem hefði verið skapað, eftir prentvélin kom til sögu. Anthony D. Smith reyndi að sætta þá kenningu, að þjóðin væri nútímafyrirbæri, og hina, að hún ætti sér sögulegar rætur.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar, að franski sagnfræðingurinn Ernest Renan hafi á nítjándu öld skilgreint best, hvað sé þjóð. Það sé hópur, sem af einhverjum ástæðum telji sig eiga heima saman, aðallega, en ekki alltaf, vegna að hann eigi sér eigin sögu og menningu og deili tungu. Eitthvað hafi fært þennan hóp saman um langan aldur, myndað samvitund hans, þjóðarvitundina. Ég er því ósammála þeim, sem telja þjóðerni nútímalegan tilbúning. Sighvatur skáld orti þegar árið 1018 um íslensk augu, sem hefðu vísað sér um brattan stíg. Samkvæmt þessu eru Íslendingar þjóð. Hið sama er að segja um Gyðinga, sem hafa árþúsundum saman vitað af sér sem þjóð, raunar sem útvalda þjóð, og deila trú og tungu. Það er hins vegar vafamál, hvort Palestínumenn séu þjóð. Þeir voru Arabar, sem búsettir voru öldum saman í Tyrkjaveldi og árin 1920–1948 á umboðssvæði Breta við Miðjarðarhaf. Þeir vissu ekki af sér í aldanna rás sem þjóð, þótt ef til vill hafi það breyst síðustu áratugi. Þeir eru sennilega ímyndað hugtak í skilningi Andersons.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. október 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir