Laugardagur 28.10.2023 - 06:26 - Rita ummæli

Jafnaðarmerkið á ekki við

Nú er komið í ljós, að það var ekki Ísraelsher, sem réðst á Al-Ahli sjúkrahúsið í Gaza 17. október 2023, heldur hafði ein af eldflaugunum, sem hryðjuverkasamtökin Jihad skutu á Ísrael, bilað, fallið niður á bílastæði við hlið sjúkrahússins og sprungið. Talið er, að um 50 manns hafi látist, en ekki 500, eins og Palestínumenn sögðu fyrst. Furðu sætir, að fjölmiðlar skyldu hlaupa til og birta athugasemdalaust fullyrðingar hryðjuverkasamtaka. Hefðu þeir gert það, þegar nasistar Hitlers og kommúnistar Stalíns áttu í hlut? Eða Norður-Kórea á okkar dögum, sem enginn trúir?
Fráleitt er að setja jafnaðarmerki á milli Ísraels og hryðjuverkasamtaka. Ísrael er eina lýðræðisríkið í Miðausturlöndum. Ísraelsmenn hafa unnið kraftaverk við að græða upp eyðimerkir og smíða hugbúnað. Þeir eru vissulega harðir í horn að taka, en það hefur bitur reynsla kennt þeim. Lítil frétt á dögunum sagði allt, sem segja þurfti. Hryðjuverkasamtökin Hamas hótuðu að taka gísla af lífi, ef Ísraelsher hætti að vara við árásum, svo að óbreyttir borgarar gætu forðað sér.
Það er þyngra böl en tárum taki, þegar saklaus börn falla í átökum. En Ísraelsher verður ekki kennt um mannfallið í Gaza, heldur Hamas, sem nota börn sem lifandi skildi. Hér á við lögmálið um tvennar afleiðingar, sem heilagur Tómas af Akvínas setti fram í Summa Theologica (II. bók, II. hluta, sp. 64, gr. 7). Í sjálfsvörn hyggjast menn aðeins bjarga eigin lífi, en aðgerðir þeirra skaða hugsanlega aðra, þótt sú hafi ekki verið ætlunin. En er aðalatriðið ekki að búa saklausum börnum heim, þar sem ekki sé barist, heldur skipst á vöru og þjónustu öllum í hag? Þar sem menn hætti við að skjóta á náungann, af því að þeir sjá í honum væntanlegan viðskiptavin? Það vilja hryðjuverkasamtök eins og Jihad og Hamas alls ekki.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. október 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir