Miðvikudagur 06.03.2024 - 06:22 - Rita ummæli

Fríverslunarsinninn Snorri

Hér hef ég bent á þá stefnu Snorra Sturlusonar, að Íslendingar ættu að vera vinir annarra þjóða, en ekki þegnar, og kemur hún gleggst fram í ræðu Einars Þveræings, sem Snorri samdi auðvitað sjálfur. Ég hef líka varpað fram þeirri tilgátu, að sagan af Haraldi blátönn og landvættunum fjórum hafi verið dæmisaga, sem hinn gætni íslenski hirðmaður hafi sagt í því skyni að telja Hákon Noregskonung og Skúla jarl óbeint af því að senda her til Íslands.

Eflaust hafa einhverjir vakið athygli á þessu á undan mér. En enginn hefur, held ég, tekið eftir því, að Snorri var einn fyrsti norræni fríverslunarsinninn. Í 80. kafla Ólafs sögu Haraldssonar í Heimskringlu segir frá samkomu í Uppsölum, þar sem sænskir bændur kvörtuðu undan því við Ólaf Svíakonung, að hann færi með ófriði gegn nafna sínum í Noregi. Rögnvaldur jarl hafði orð fyrir þeim. „Taldi hann upp hvert vandræði Vestur-Gautum var að því að missa þeirra hluta allra af Noregi er þeim var árbót í en í annan stað að sitja fyrir áhlaupum þeirra og hernaði ef Noregskonungur safnaði her saman og herjaði á þá.“ Hér er kominn kjarninn í rökunum fyrir fríverslun, sem Adam Smith setti síðar fram í Auðlegð þjóðanna: að menn hagnist á því að versla, ekki síst yfir landamæri, selja það, sem þeir eiga og aðrir ekki, og kaupa það, sem aðrir eiga og þeir ekki. Ella missa þeir þeirra hluta, sem þeim er „árbót í“, eins og Snorri orðaði það.

Snorri var fríverslunarsinni eins og Jón Sigurðsson, sem skrifaði í Nýjum félagsritum árið 1843: „Þegar nú verslanin er frjáls, þá leitar hver þjóð með það, sem hún hefir aflögu, þangað sem hún getur fengið það, sem hún girnist.“ Það er bein lína frá Snorra til Jóns.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. mars 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir