Miðvikudagur 06.03.2024 - 06:10 - Rita ummæli

Hvað olli synjuninni?

Í greinargerð, sem ég tók saman fyrir fjármálaráðuneytið um bankahrunið 2008, reyndi ég að skýra, hvers vegna Íslendingum var þá alls staðar synjað um lausafjárfyrirgreiðslu nema í norrænu seðlabönkunum þremur. Jafnframt gengu bresk stjórnvöld hart fram gegn Íslendingum. Miklu hefði breytt, hefði seðlabankinn íslenski getað tilkynnt, að hann hefði gert gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska og evrópska seðlabankann, til dæmis upp á tíu milljarða Bandaríkjadala. Spákaupmenn hefðu þá varla haldið áfram að veðja á fall bankanna og lækkun krónunnar.

Skýringar mínar voru margvíslegar. Bandaríkjamenn höfðu misst áhugann á Íslandi, eftir að landið hætti að vera hernaðarlega mikilvægt í þeirra augum. Bresku stjórnmálamennirnir Gordon Brown og Alasdair Darling vildu sýna skoskum kjósendum sínum, að sjálfstæði í peningamálum væri varasamt. Evrópskir seðlabankamenn töldu íslensku bankana fjárfrekar boðflennur á evrópskum mörkuðum og ógna innstæðutryggingakerfi Evrópulanda. Raunar hefur síðan komið í ljós, að sumir þeir bankar, sem bjargað var með lausafjárfyrirgreiðslu í fjármálakreppunni 2008, voru verr staddir fjárhagslega en íslensku bankarnir og með ýmislegt á samviskunni (peningaþvætti og vaxtasvik), til dæmis RBS í Skotlandi, UBS í Svisslandi og Danske Bank.

Í grúski mínu rakst ég nýlega á enn eina hugsanlega skýringu á fjandskap evrópskra seðlabankamanna í garð Íslendinga. Á fundi Evrópuþingsins 13. janúar 2009 var þess minnst, að tíu ár voru frá upptöku evrunnar. David Corbett, leiðtogi breskra jafnaðarmanna á þinginu, sagði við það tækifæri: „Evran hefur verið stöðug eins og klettur, og má hafa til marks um það misjafnt hlutskipti Íslands og Írlands.“ Vildi evrópski seðlabankinn ef til vill sýna, hvað það gæti kostað að standa utan evrusvæðisins?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. desember 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir