Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins 1959–2000, var ekki aðeins blaðamaður, heldur líka skáld, en átti erfitt uppdráttar framan af vegna ítaka kommúnista í íslensku menningarlífi, en þeim voru honum fjandsamlegir vegna eindregins stuðnings Morgunblaðsins við vestrænt varnarsamtarf. Þegar fyrsta ljóðabók Matthíasar, Borgin hló, kom út 1958, sögðu gárungar á vinstri væng, að höfundur hefði farið nærri um viðtökurnar og bættu við: „Og hún á eftir að hlæja lengi.“ Matthías lét sér hvergi bregða og gaf næstu mánuði út ritin Njála í íslenskum skáldskap (lokaritgerð sína í Háskólanum) og umtalaða viðtalsbók við Þórberg Þórðarson, Í kompaníi við allífið. Gekk þá Tómas Guðmundsson einn daginn inn í Bókaverslun Ísafoldar og spurði afgeiðslustúlkuna með hægð: „Hefur nokkur bók eftir Matthías Johannessen komið út í dag?“
Matthías leit eins og fleiri menntamenn mjög upp til Halldór Laxness, eftir að hann hafði hlotið alþjóðlega viðurkenningu. Þegar hann var blaðamaður á Morgunblaðinu haustið 1956, langaði hann að taka viðtal við Halldór. Bjarni Benediktsson, þá ritstjóri Morgunblaðsins, samþykkti það, en sagði brosandi við Matthías: „Berðu þig vel, Matthías minn, og farðu ekki skríðandi.“
Mörg fleyg orð er að finna í ritum Matthíasar, og hef ég oft leitað í þá smiðju. Þegar Jorge Luis Borges kom til Íslands, sýndi Matthías honum Alþingishúsið við Austurvöll. Varð Borges að orði: „Þetta er þá þinghúsið ykkar, þetta er þá allt og sumt. Þið getið andað hérna fyrir stjórnvöldum.“ Júlíus skóari, reykvískur smákapítalisti, sagði Matthíasi: „Sjálfstæði er það að sækja það eitt til annarra, sem maður getur borgað fullu verði.“ Ragnar Jónsson í Smára fullyrti: „Ef við gætum virkjað öfundina hér á landi, þyrftum við ekki aðra orku!“ Loftur Bjarnason útgerðarmaður (faðir Kristjáns hvalveiðimanns) mælti í nokkru mildari dúr: „Ég hef getað sofið, þó að öðrum hafi gengið vel.“
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. mars 2024.)
Rita ummæli