Þriðjudagur 09.04.2024 - 07:27 - Rita ummæli

Blaðamaðurinn Matthías Johannessen

Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins 1959–2000, var ekki aðeins blaðamaður, heldur líka skáld, en átti erfitt uppdráttar framan af vegna ítaka kommúnista í íslensku menningarlífi, en þeim voru honum fjandsamlegir vegna eindregins stuðnings Morgunblaðsins við vestrænt varnarsamtarf. Þegar fyrsta ljóðabók Matthíasar, Borgin hló, kom út 1958, sögðu gárungar á vinstri væng, að höfundur hefði farið nærri um viðtökurnar og bættu við: „Og hún á eftir að hlæja lengi.“ Matthías lét sér hvergi bregða og gaf næstu mánuði út ritin Njála í íslenskum skáldskap (lokaritgerð sína í Háskólanum) og umtalaða viðtalsbók við Þórberg Þórðarson, Í kompaníi við allífið. Gekk þá Tómas Guðmundsson einn daginn inn í Bókaverslun Ísafoldar og spurði afgeiðslustúlkuna með hægð: „Hefur nokkur bók eftir Matthías Johannessen komið út í dag?“

Matthías leit eins og fleiri menntamenn mjög upp til Halldór Laxness, eftir að hann hafði hlotið alþjóðlega viðurkenningu. Þegar hann var blaðamaður á Morgunblaðinu haustið 1956, langaði hann að taka viðtal við Halldór. Bjarni Benediktsson, þá ritstjóri Morgunblaðsins, samþykkti það, en sagði brosandi við Matthías: „Berðu þig vel, Matthías minn, og farðu ekki skríðandi.“

Mörg fleyg orð er að finna í ritum Matthíasar, og hef ég oft leitað í þá smiðju. Þegar Jorge Luis Borges kom til Íslands, sýndi Matthías honum Alþingishúsið við Austurvöll. Varð Borges að orði: „Þetta er þá þinghúsið ykkar, þetta er þá allt og sumt. Þið getið andað hérna fyrir stjórnvöldum.“ Júlíus skóari, reykvískur smákapítalisti, sagði Matthíasi: „Sjálfstæði er það að sækja það eitt til annarra, sem maður getur borgað fullu verði.“ Ragnar Jónsson í Smára fullyrti: „Ef við gætum virkjað öfundina hér á landi, þyrftum við ekki aðra orku!“ Loftur Bjarnason útgerðarmaður (faðir Kristjáns hvalveiðimanns) mælti í nokkru mildari dúr: „Ég hef getað sofið, þó að öðrum hafi gengið vel.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. mars 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir