Í fyrirlestrarferð til Búkarest í nóvemberbyrjun 2022 rifjaðist margt upp fyrir mér um samskipti Íslendinga og Rúmena. Stundum var hér á landi vitnað í ummæli rúmenska rithöfundarins Panaits Istratis um rússnesku byltinguna: „Þeir segja, að ekki sé hægt að baka eggjaköku nema brjóta egg. Ég sé brotnu eggin. En hvar er eggjakakan?“
Eftir seinni heimsstyrjöld hrifsuðu kommúnistar völd í Rúmeníu og komu á sömu ógnarstjórn og annars staðar. Íslenskir kommúnistar voru tíðir gestir í Rúmeníu næstu áratugi, þar á meðal á fjölmennu æskulýðsmóti í Búkarest 1953. Morgunblaðið hafði tvo „njósnara“ í þeirri ferð, og stungu lýsingar þeirra í stúf við lofgjörðir annarra þátttakenda.
Rúmenía tók ekki þátt í innrásinni í Tékkóslóvakíu árið 1968, svo að Alþýðubandalagið hélt áfram samskiptum við rúmenska kommúnista. Svavar Gestsson lét í ljós þá von eftir boðsferð til Rúmeníu árið 1970, að hinn gamli smali úr Karpatafjöllum, Ceausescu, gæti sameinað hina alþjóðlegu kommúnistahreyfingu. Guðrún Helgadóttir hitti Ceausescu að máli ári síðar og sagði, að hann væri „sjarmör“ og óvenjugæfulegur af þjóðarleiðtoga að vera.
Þau Svavar og Guðrún tóku ekkert mark á lýsingum Bárðar Halldórssonar málfræðings í Morgunblaðinu á eymd og kúgun í landinu, en hann hafði verið þar við nám. Því síður tóku þau mark á lýsingum lútersks prests, Richards Wurmbrands, á ofsóknum á hendur kristnum mönnum í Rúmeníu í bókinni Neðanjarðarkirkjunni, sem kom út árið 1971.
Í Búkarest fór ég á Byltingartorgið í miðborginni, en þar gerði mannfjöldi hróp að Ceausescu 21. desember 1989, og var það upphafið að endalokum hans. Enn líða Rúmenar fyrir 45 ára ógnarstjórn kommúnista.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. nóvember 2022.)
Nýlegar athugasemdir