Laugardagur 21.5.2022 - 10:13 - Rita ummæli

Lærdómar á lífsleið

Við sátum á útiveitingastað í Belgrad (Hvítagarði) í Serbíu, þegar húmaði að, og röbbuðum saman um lífið og tilveruna. Bandarískur kaupsýslumaður, vinur minn, hafði tekið tvítugan son sinn með sér í ferðalag um Balkanlöndin. Hann spurði, hvort ég gæti gefið syninum einhver ráð um framtíðina. Ég fór að hugsa um, hvað ég hefði lært af reynslunni, minni eigin og annarra.

Eitt er, að raða má verðmætum lífsins svo, að fyrst komi heilsan, síðan fjölskylduhagir (ást og vinátta) og þá peningar. Séu menn við góða andlega heilsu, þá verða fjölskylduhagir þeirra líklega ákjósanlegir. Sé menn við góða líkamlega heilsu, þá geta þeir unnið sig út úr fjárhagslegum erfiðleikum.

Annað er, að í vali um nám og störf eiga menn að fara eftir áhugamálum sínum frekar en fjárvon. Áhugasamt fólk og ötult bjargar sér ætíð. Ég myndi líka hafa lært fleiri tungumál, væri ég yngri og ætti þess kost.

Hið þriðja er, að foreldrar geta aðeins gert þrennt fyrir börn sín: alið þau upp með því aðallega að veita gott fordæmi, styðja þau og hvetja til að mennta sig og hjálpa þeim með útborgun í fyrstu íbúð. Með þessu koma þau fótum undir börnin, en það er síðan barnanna sjálfra að ganga.

Iðulega sagði ég síðan nemendum mínum í stjórnmálafræði, að menn ættu að forðast að fjandskapast við þrjú öfl eða veldi í heiminum, því að þau sigruðu jafnan í átökum, þótt orðspor þeirra væri misjafnt: Bandaríkjamenn, Gyðingarnir og páfinn í Róm.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. maí 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.5.2022 - 10:12 - Rita ummæli

Sarajevo, maí 2022

Þegar ég hélt fyrirlestur í Sarajevo í Bosníu-Hersegóvínu 12. maí 2022, varð mér eins og líklega flestum öðrum, sem til borgarinnar koma, hugsað til hins örlaríka júnídags árið 1914, en þá skaut þar serbneskur þjóðernissinni, Gavrilo Princip, ríkisarfa Habsborgarveldisins Franz Ferdinand og konu hans Sophie til bana. Þetta var upphafið að fyrri heimsstyrjöld.

Habsborgarveldið var tvískipt, í ungverska konungdæmið og austurríska keisaradæmið, en hvorum hluta fylgdu ýmis smærri lönd. Notuðu hinar sundurleitu þjóðir þess sömu mynt, mynduðu einn markað og lutu einum þjóðhöfðingja, svo að það var eins konar forveri Evrópusambandsins. Það, sem felldi Habsborgarveldið, var hið sama og kynni að fella Evrópusambandið, að veita einstökum svæðum ekki nægilega sjálfstjórn eins og gert var í Sviss með kantónum. Höfðu stjórnendur Habsborgarveldisins þó verið að fikra sig áfram að slíkri dreifstýringu.

Serbneskir þjóðernissinnar undu illa þessari þróun, því að hún gat haft í för með sér, að Slóvenar, Króatar og Bosníumenn sættu sig við að vera þegnar Habsborgaranna í stað þess að ganga inn í draumríki þeirra, sameinað ríki allra Suður-Slava. Franz Ferdinand var einn helsti stuðningsmaður frekari dreifstýringar, svo að serbneskir þjóðernissinnar vildu hann feigan, og nutu þeir fulltingis leynilögreglu Serbíu.

Fyrri heimsstyrjöld var alls ekki óhjákvæmileg og ekki heldur fall Habsborgarveldisins. Það var fásinna af Bretum að hefja þátttöku í stríðinu, en hefðu þeir setið hjá, þá hefðu Þjóðverjar, Austurríkismenn og Ungverjar í sameiningu sigrað Serba, Rússa og Frakka á nokkrum mánuðum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. maí 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.5.2022 - 10:12 - Rita ummæli

Draumur Gunnars að rætast?

Horfur eru nú á, að Svíþjóð og Finnland hverfi frá hlutleysi og gerist aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Það hefði fyrir nokkrum árum þótt saga til næsta bæjar. Kalmarsambandið, sem var ríkjasamband þriggja konungsríkja, Danmerkur, Svíþjóðar ásamt Finnlandi og Noregs ásamt Íslandi, stóð aðeins í röska öld, frá 1397 til 1523. Eftir það skiptust Norðurlönd milli konunga Danmerkur og Svíþjóðar allt til 1814, þegar Danir urðu að láta Noreg af hendi við Svía í sárabætur fyrir Finnland, sem Rússar höfðu tekið af Svíum.

Á nítjándu öld spratt skandínavisminn upp: Danir, Svíar og Norðmenn væru frændþjóðir og ættu að mynda ríkjabandalag, jafnvel ríki. Skandínavisminn beið hins vegar hnekki, þegar Svíar vildu ekki liðsinna Dönum í átökum þeirra við Þjóðverja. Skilnaður Noregs og Svíþjóðar 1905 þótti líka ósigur skandínavismans. Í fyrri heimsstyrjöld voru skandinavísku ríkin öll hlutlaus, en Ísland var þá í raun og veru undir stjórn Breta. Finnar notuðu tækifærið 1917 til að segja skilið við Rússa, og Ísland varð fullvalda ríki í sambandi við Danakonung 1918. Enginn hlustaði á Gunnar Gunnarsson, sem mælti í greinasafni 1927, Det nordiske rige, fyrir ríkjabandalagi Norðurlanda.

Í seinni heimsstyrjöld komu ólíkar aðstæður hinna norrænu þjóða vel í ljós. Svíar gátu verið hlutlausir. Norðmenn og Danir sættu hernámi Þjóðverja. Finnar urðu fyrir árás Rússa og urðu að afhenda þeim mikið land. Íslendingar sættu hernámi Breta. Árið 1948 náðu skandinavísku ríkin þrjú ekki samkomulagi um varnarbandalag. Áherslur þeirra voru of ólíkar. Norðmenn, Danir og Íslendingar komust undir verndarvæng Bandaríkjanna, Svíar treystu á sjálfa sig, og Finnar héldu sjálfstæði gegn því að styggja ekki Rússa. Nú hafa aðstæður gerbreyst. Er draumur Gunnars Gunnarssonar um „det nordiske rige“ að rætast? Erum við á leið til Kalmar?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. maí 2022.)  

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 30.4.2022 - 10:10 - Rita ummæli

Syndir mæðranna

Í Fróðleiksmola 1. ágúst 2020 nefndi ég dæmi um þá afsiðun, sem stríð hafa í för með sér. Í lok síðari heimsstyrjaldar flýðu um 250 þúsund Þjóðverjar undan Rauða hernum rússneska yfir Eystrasalt til Danmerkur. Þar voru þeir umsvifalaust lokaðir inni í fangabúðum. Danska læknafélagið sendi frá sér tilkynningu um, að læknar myndu ekki hlynna að flóttafólkinu á neinn hátt. Um þrettán þúsund flóttamenn önduðust, þar af sjö þúsund börn undir fimm ára aldri. Flest börnin hefðu lifað, hefðu þau fengið aðhlynningu.

Í grúski mínu rakst ég nýlega á annað dæmi, en frá Noregi. Í stríðslok voru börn norskra stúlkna og þýskra hermanna orðin um tíu þúsund. Þótt stúlkurnar hefðu ekki brotið nein lög, var farið illa með þær eftir uppgjöf Þjóðverja, hárið rakað af þeim sumum og gerð að þeim hróp á götum og torgum. Nefnd, sem skipuð var til að gera tillögur um meðferð barnanna, fékk geðlækni einn til að meta þau, Ørnulf Ødegard. Hann gaf út allsherjarvottorð um þau. Sagði hann mæður þeirra almennt vera treggáfaðar og geðvilltar, og líklega væru barnsfeðurnir það líka, úr því að þeir hefðu valið sér þær til fylgilags. Taka yrði börnin af mæðrunum og ala upp á hælum. Sem betur fer var ráðum Ødegards ekki fylgt. En margar mæðurnar voru reknar með börn sín til Þýskalands. Sum börnin voru send í ættleiðingu til Svíþjóðar án vitundar eða samþykkis mæðra sinna. Þau, sem eftir voru, ólust mörg upp á barnaheimilum og sættu flest aðkasti. Er þetta mál blettur á sögu Noregs.

Ødegard var raunar líka annar af tveimur geðlæknum, sem vottuðu, að norska skáldið Knut Hamsun væri geðbilaður, en hann hafði verið eindreginn stuðningsmaður nasista. Var Hamsun lokaður inni á hæli, en með bók, sem hann samdi um reynslu sína, Grónar götur, afsannaði hann rækilega sjúkdómsgreiningu læknanna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. apríl 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.4.2022 - 10:11 - Rita ummæli

Í Snorrastofu

Hinn 19. apríl var mér boðið að flytja erindi um stjórnspeki Snorra Sturlusonar í Snorrastofu í Reykholti. Þar notaði ég tækifærið til að svara rækilegar en áður tveimur mótbárum, sem hreyft var við fyrirlestri mínum um sama efni í miðaldastofu í Reykjavík 2. desember á síðasta ári.

Hin fyrri var, að Snorri hefði ekki samið Egils sögu. En margvísleg rök hníga að því. Í fyrsta lagi var það ekki nema á færi höfðingja eða biskupsstólanna eða klaustra að framleiða bækur. Slátra þurfti kálfum í skinnin (111 kálfum í Flateyjarbók), tína sortulyng í blekið og klæða og fæða skrifara veturlangt. Fáir höfundar koma því til greina, Snorri einn þeirra. Í öðru lagi er tíminn réttur: Egils saga var rituð, á meðan Snorri var uppi. Í þriðja lagi er staðurinn réttur: Höfundur þekkti vel til í Borgarfirði og á Rangárvöllum. Í fjórða lagi er stíllinn svipaður á Heimskringlu annars vegar og Egils sögu hins vegar. Í fimmta lagi hefur nýlegur og skipulegur samanburður orðnotkunar leitt í ljós náinn skyldleika textanna í Heimskringlu og Egils sögu.

Seinni mótbáran var, að í Heimskringlu kynni vissulega að gæta hugmynda um skorður, sem forn lög og fastar venjur settu konungum, en í lífi sínu hefði Snorri síður en svo sýnt, að hann hefði verið andstæðingur konunga. Við þessari mótbáru átti ég þrenn svör. Í fyrsta lagi var Snorri ekki andstæðingur konunga, en hann taldi, að Íslendingar ættu að vera vinir þeirra og ekki þegnar, eins og kemur fram í ræðu Einars Þveræings. Í öðru lagi ættum við að skoða, hvað Snorri gerði til að koma landinu undir konung, en ekki, hvað Sturla Þórðarson gaf í skyn, að hann hefði sagt í Noregi, og sannleikurinn er sá, að hann gerði ekkert til að koma landinu undir konung. Í þriðja lagi egndi Snorri svo konung, að hann lét að lokum drepa hann! Þótt Snorri væri ekki andstæðingur konunga, voru konungar andstæðingar Snorra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. apríl 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.4.2022 - 10:09 - Rita ummæli

Ný skáldsaga um þjóðveldið

Í ágúst 2005 skipulagði ég í Reykjavík ráðstefnu Mont Pelerin Society, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna. Ráðstefnugestir hrifust margir af íslenska Þjóðveldinu, þegar þjóðin átti sér engan konung annan en lögin. Einn gestanna, Michel Kelly-Gagnon í Hagfræðistofnuninni í Montréal, hvatti tvo vini sína, fjármálaráðgjafana Gabriel Stein og John Nugée í Lundúnum, til að skrifa skáldsögu um Þjóðveldið. Nú er hún komin út, Sailing Free: The saga of Kári the Icelander (Frjáls á siglingu: Sagan um Íslendinginn Kára). Fæst hún á Amazon og Kindle og er hin læsilegasta.

Sagan gerist árin 1055–1067. Ragnar er bóndi og farmaður á Snæströnd, sem liggur á norðanverðu Snæfellsnesi. Móðir hans hafði verið hernumin frá Írlandi, en sjálfur hefur hann óbeit á þrælahaldi. Vinnufólk hans er allt frjálst. Synir hans og Hallgerðar konu hans eru Guðmundur og Kári. Ragnar á kaupskip, knörr, og hann sendir Kára í verslunarferðir suður á bóginn, til Kirkjuvogs á Orkneyjum og Jórvíkur á Englandi, og selur hann vaðmál og tennur og húðir rostunga, en kaupir timbur, járn og vefnaðarvöru. Kári ratar í ýmis ævintýri, þar á meðal innrás Haraldar harðráða í England 1066, og hann kemst alla leið suður til Lissabon, þar sem hann situr einn vetur. Heima fyrir gengur Guðmundi erfiðlega að gera upp á milli eiginkonu sinnar Ásu og Jórunnar, dóttur Gunnars goða, en hún er í senn fögur og harðbrjósta.

Að Ragnari bónda látnum eiga þeir Kári og Guðmundur í deilum við Gunnar goða, en ekki er nóg með, að hann sé yfirgangssamur við granna sína, heldur gerir hann á Alþingi 1067 bandalag við klerka um að leggja til sérstök gjöld handa kirkjunni í Róm og vill jafnframt, að Ísland sæki skjól til einhvers sterkara ríkis. Kári stendur þá upp og flytur snjalla ræðu. Bendir hann á, að þeir konungar, sem hann hafi kynnst á ferðum sínum erlendis, séu ærið misjafnir. Sumir þeirra leggi þung gjöld á þegnana og etji þeim út í mannskæðan hernað. Því sé Íslendingum hollast að halda sig við sín gömlu, góðu lög. Að þessu sinni létu goðarnir sannfærast.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. apríl 2022.)  

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.4.2022 - 10:07 - Rita ummæli

Snorri á Engjum í Snælandi

Á íslensku heitir Las Vegas engi og Nevada Snæland, þótt lítið sé um engi nálægt Las Vegas og snjór aðeins á hæstu fjallstindum í Nevada. Á hinni árlegu ráðstefnu Samtaka um framtaksfræðslu, Association of Private Enterprise Education, á Engjum í Snælandi kynnti ég hinn 5. apríl nýlega bók mína um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn, en á netinu er ókeypis aðgangur að henni.

Fyrsti kaflinn er um Snorra Sturluson, enda kom hann orðum að tveimur merkilegum hugmyndum í Heimskringlu: að konungar væru bundnir af sömu lögum og þegnar þeirra og að afhrópa mætti þá, ryfu þeir hinn óskráða sáttmála milli sín og þeirra. Ég benti á, að annar hugsuður þrettándu aldar, heilagur Tómas af Akvínas, komst að sömu niðurstöðu, þótt sá munur væri á, að hann miðaði við náttúrurétt, en Snorri við venjurétt. Í Egils sögu lýsti Snorri síðan fyrsta raunverulega einstaklingnum, Agli Skallagrímssyni, eins og Sigurður Nordal vakti athygli á.

Hinir sígildu hugsuðir frjálshyggjunnar voru John Locke, David Hume og Adam Smith. Locke benti á, að menn gætu myndað einkaeignarrétt án þess að skerða hag annarra, því að miklu meira yrði þá framleitt. Hume taldi réttlætishugtakið vera andsvar við tveimur staðreyndum um mannlegt samlíf, knöppum gæðum og takmörkuðum náungakærleik. Smith leiddi rök að því, að eins gróði þyrfti ekki að vera annars tap og að mannlegt samlíf gæti verið skipulegt án þess að vera skipulagt.

Frjálshyggjan breyttist hins vegar í frjálslynda íhaldsstefnu í andstöðu við frönsku byltinguna 1789, en hún misheppnaðist ólíkt bresku byltingunni 1688 og hinni bandarísku 1776. Ástæðan var, eins og Edmund Burke skrifaði, að byltingarmennirnir frönsku voru ekki að verja og víkka út fengið frelsi, heldur að reyna að endurskapa allt skipulagið, en það endar ætíð með ósköpum. Þeir Benjamin Constant og Alexis de Tocqueville fluttu svipaðan boðskap af miklu andríki.

Á Engjum, í Las Vegas, lét ég þá skoðun loks í ljós, að einn merkasti hugsuður frjálslyndrar íhaldsstefnu væri Friedrich von Hayek, en hann þarf ekki að kynna fyrir Íslendingum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. apríl 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.4.2022 - 10:02 - Rita ummæli

„Yndisleg húngursneyð“

Úkraínumenn hafa verið óheppnari með nágranna en Íslendingar. Einn hræðilegasti atburður tuttugustu aldar í Evrópu var hungursneyðin í Úkraínu árin 1932–1933. Talið er, að fjórar milljónir manna hafi þá soltið í hel. Orsök hennar var, að Kremlverjar vildu koma á samyrkju, en bændur streittust á móti. Kremlverjar brugðust við með því að gera mestalla uppskeru þeirra upptæka. Þeir reyndu síðan að koma í veg fyrir allan fréttaflutning af hungursneyðinni.

Tveir breskir blaðamenn í Moskvu, Malcolm Muggeridge og Gareth Jones, leituðust þó við að fræða heimsbyggðina á því, sem væri að gerast. Hersveitir Stalíns „höfðu breytt blómlegri byggð og frjósamasta landi í sorglega auðn“, hafði Morgunblaðið eftir Muggeridge 19. júlí 1933. Vísir birti 2. ágúst lýsingu Jones á hungursneyðinni. Nýlega var gerð kvikmyndin Mr. Jones, þar sem lýst var baráttu hans fyrir að fá að segja sannleikann, en fréttaritari New York Times í Moskvu, Walter Duranty, tók fullan þátt í því með Kremlverjum að kveða niður frásagnir af þessum ósköpum.

Íslenskir stalínistar létu ekki sitt eftir liggja. Í október 1934 andmælti Halldór Kiljan Laxness skrifum Morgunblaðsins í tímaritinu Sovétvininum: „Ég ferðaðist um Ukraine þvert og endilángt í „hungursneyðinni“ 1932. Það var yndisleg húngursneyð. Hvar sem maður kom, var alt í uppgángi.“ Vitnaði hann óspart í Duranty.

Þótt ótrúlegt megi virðast, eiga þeir Stalín, Laxness og Duranty enn sína liðsmenn. Í kennslubókinni Nýjum tímum eftir Gunnar Karlsson og Sigurð Ragnarsson, sem kom út árið 2006, var ekki minnst einu orði á hungursneyðina, heldur aðeins sagt, að Stalín hefði komið á samyrkju „í óþökk mikils hluta bænda“.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. apríl 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.3.2022 - 10:01 - Rita ummæli

Sjálfsákvörðunarréttur þjóða

Þegar Úkraínumenn lýstu yfir sjálfstæði árið 1991, voru þeir að feta í fótspor margra annarra Evrópuþjóða. Norðmenn höfðu sagt skilið við Svía árið 2005, af því að þeir voru og vildu vera Norðmenn, ekki Svíar. Finnar höfðu sagt skilið við Rússa árið 1917, af því að þeir voru og vildu vera Finnar, ekki Rússar. Íslendingar höfðu stofnað eigið ríki árið 1918, af því að þeir voru og vildu vera Íslendingar, ekki Danir. En hvað er þjóð? Algengasta svarið er, að það sé hópur, sem tali sömu tungu. En það er ekki rétt. Bretar og Bandaríkjamenn tala sömu tungu, en eru tvær þjóðir. Svisslendingar eru ein þjóð, en þar eru töluð fjögur mál.

Önnur skilgreining er eðlilegri. Þjóð er heild manna, sem vegna samkenndar og fyrir rás viðburða vill stofna saman og halda uppi eigin ríki. Það er viljinn til að vera þjóð, sem ræður úrslitum. Franski rithöfundurinn Ernest Renan orðaði þessa hugmynd vel á nítjándu öld, þegar hann sagði, að þjóðerni væri dagleg allsherjaratkvæðagreiðsla. Hann var talsmaður þjóðlegrar frjálshyggju, en hún bætir úr þeim galla á hinni annars ágætu hugmynd um frjálsan, alþjóðlegan markað, þar sem menn skiptast á vöru og þjónustu öllum í hag, að þar er ekki gert ráð fyrir neinni sögu, neinni samkennd, neinu sjálfi. Menn þurfa ekki aðeins að hafa. Þeir þurfa líka að vera.

Menn eru ekki aðeins neytendur, heldur líka synir eða dætur, eiginmenn eða eiginkonur, feður eða mæður. Jafnframt eiga þeir dýrmætt sálufélag við samlanda sína, við Íslendingar við þær þrjátíu og fimm kynslóðir, sem byggt hafa þetta land á undan okkur, Úkraínumenn við ótal forfeður sína og formæður. Baráttan í Úkraínu þessa dagana er um sjálfsákvörðunarrétt þjóða.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. mars 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.3.2022 - 10:00 - Rita ummæli

Tvö kvæði

Árið 1936, þegar nasisminn gekk ljósum logum um Norðurálfuna, orti norska skáldið Arnulf Øverland áhrifamikið kvæði, „Þú mátt ekki sofa!“ sem Magnús Ásgeirsson sneri á íslensku. Þar segir:

Þú mátt ekki hírast í helgum steini
með hlutlausri aumkun í þögn og leyni!

Vesturlandamenn verða að sögn skáldsins að standa sameinaðir í stað þess að falla sundraðir:

En hver, sem ei lífinu hættir í flokki,
má hætta því einn — á böðuls stokki.

Kvæði Øverlands hafði bersýnilega mikil áhrif á Tómas Guðmundsson, sem orti kvæðið „Heimsókn“ árið 1942, í miðju stríði:

Og vei þeim, sem ei virðir skáldskap þann,
sem veruleikinn yrkir kringum hann.

Niðurstaða Tómasar er afdráttarlaus:

Því meðan til er böl, sem bætt þú gast,
og barist var, á meðan hjá þú sast,
er ólán heimsins einnig þér að kenna.

Þessa dagana verður mér iðulega hugsað til kvæða þeirra Øverlands og Tómasar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. mars 2022.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir