Laugardagur 28.11.2020 - 06:52 - Rita ummæli

Til varnar Halldóri Laxness

Vandséð er, hvaða greiði Halldóri Laxness er gerður með því að efna til umræðna um skattframtöl hans og gjaldeyrisskil á fimmta áratug síðustu aldar, en upp komst árið 1947, að hann hefði brotið þágildandi reglur á Íslandi og hvorki talið hér fram tekjur sínar í Bandaríkjunum né skilað gjaldeyri, sem hann hafði aflað sér þar vestra. Hafði talsvert selst 1946 af Sjálfstæðu fólki, sem Alfred Knopf gaf þá út í enskri þýðingu, ekki síst vegna þess að hún var einn mánuðinn valbók í hinu fjölmenna Mánaðarritafélagi (Book-of-the-Month Club). Segi ég frá þessum málum í þriðja bindi verks míns um Laxness, sem kom út 2005.

Ranglátar reglur

Allt frá kreppuárunum voru hér í gildi strangar reglur um það, að menn yrðu að telja allar erlendar tekjur sínar fram og skila til ríkisins öllum þeim gjaldeyri, sem þeir öfluðu erlendis. Naut þó Samband íslenskra samvinnufélaga þeirra fríðinda að mega ráðstafa erlendum gjaldeyristekjum sínum til að greiða erlendar skuldir. Aðrir gátu iðulega ekki greitt slíkar skuldir fyrr en seint og illa, því að þeir fengu ekki nægar gjaldeyrisyfirfærslur. Svo sem vænta mátti, tregðuðust því flestir þeir, sem höfðu erlendar tekjur, til dæmis útflytjendur saltfisks, við að færa þær til Íslands. Málgagn íslenskra sósíalista, Þjóðviljinn, skrifaði ófáar greinar um það hneyksli. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar, að þessar reglur hafi verið ranglátar og þess vegna ekki við öðru að búast en menn brytu þær, þótt deila megi um, hvort það hafi verið siðferðilega réttmætt („borgaraleg óhlýðni“).

Þegar yfirskattanefnd í Gullbringu- og Kjósarsýslu skoðaði framtal Laxness fyrir 1946, komst hún að því, að hann hafði þar ekki talið fram erlendar tekjur sínar, eins og honum var þó skylt, en allir vissu af því, að Sjálfstætt fólk hafði selst vel í Bandaríkjunum. Hækkaði yfirskattanefnd því framtal hans verulega. Laxness skaut ákvörðun hennar til ríkisskattanefndar, en hún hækkaði framtal hans enn frekar, enda lagði hann ekki fram nein gögn um kostnað á móti tekjum sínum í Bandaríkjunum. Í rannsókn málsins kom í ljós, að Laxness hafði greitt skatt í Bandaríkjunum af tekjum sínum þar, en ekki til viðbótar skatt á Íslandi, eins og tilskilið var, og tókst sátt um, að hann greiddi verulega fjárhæð í skatt hingað, meira en yfirskattanefnd í Gullbringu- og Kjósarsýslu hafði ákveðið honum, en minna en ríkisskattanefnd vildi.

Gjaldeyrisskil Laxness voru síðan sérstakt mál. Hann hafði ekki skipt í íslenskar krónur gjaldeyri, sem hann hafði fengið frá útlöndum, eins og honum var líka skylt, heldur geymt og notað til eigin þarfa. Dómsmálaráðuneytið bauð Laxness sátt um nokkra sekt fyrir þetta brot, en Laxness tók ekki því boði, og var þess vegna höfðað mál gegn honum, sem lauk með hæstaréttardómi árið 1955. Var hluti sakarinnar fyrndur, en Laxness var gert að greiða sekt í ríkissjóð. Þessi tvö mál komu til kasta tveggja opinberra aðila auk skattanefnda og dómstóla, sýslumannsembættisins í Gullbringu- og Kjósarsýslu og dómsmálaráðuneytisins. Sýslumaðurinn var Guðmundur Í. Guðmundsson, þingmaður Alþýðuflokksins, en dómsmálaráðherra Bjarni Benediktsson úr Sjálfstæðisflokknum. Voru þeir aðeins að framfylgja settum reglum eftir bestu samvisku, og raunar var Bjarni andvígur gjaldeyrishöftunum og beitti sér fyrir því, að þau voru afnumin í tveimur áföngum, 1950 og 1960.

Trimble og Bjarna skjátlaðist um Laxness

Brot Laxness á hinum ranglátu reglum, sem voru í gildi á Íslandi, eru að mínum dómi skiljanleg. Af hverju átti hann að þurfa að skila öllum gjaldeyristekjum sínum til ríkisins og fá fyrir krónur á óhagstæðu gengi í stað þess að ráðstafa sjálfur tekjunum erlendis? Nú gera vinstri menn eins og Ólína Þ. Kjerúlf og Halldór Guðmundsson hins vegar veður út af því, að samkvæmt skýrslum bandarískra sendimannna á Íslandi veltu þeir því fyrir sér, hvort ekki mætti nota brot Laxness honum til minnkunar. Skáldið var þá eindreginn stalínisti og hafði borið íslenska stjórnmálamenn landráðasökum í Atómstöðinni, sem kom út snemma árs 1948. Sendi William C. Trimble, sendifulltrúi Bandaríkjanna, skeyti til utanríkisráðuneytis lands síns í febrúar 1948: „Athugið, að orðstír Laxness myndi skaðast verulega, ef við komum því til skila, að hann sé að reyna að komast undan tekjuskatti. Þar af leiðandi er mælt með frekari rannsókn á þeim höfundarlaunum, sem hann hefur væntanlega fengið fyrir Sjálfstætt fólk.“ Hér skjátlaðist Trimble. Almenningur á þeirri tíð taldi brot á þessum reglum ekkert tiltökumál. Orðspor Laxness skaðaðist lítt, þótt upp um hann kæmist. 

Hitt finnst mér ámælisvert, ef menn leggja annan mælikvarða á Laxness, af því að hann var snjall rithöfundur, en á aðra þá, sem öfluðu gjaldeyristekna, svo sem saltfiskútflytjendur. Allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum, líka Laxness. Tekjur hans erlendis voru eins og tekjur saltfiskútflytjenda vel fengið fé. Þetta var sjálfsaflafé, og hann átti eins og þeir að njóta þess sjálfur, en ekki horfa á ríkið gera það upptækt með rangri gengisskráningu og skilaskyldu. Öðru máli gegnir um illa fengið fé. Halldór Guðmundsson hefur yfirumsjón með þeim miklu eignum, sem eftir eru í búi bókafélagsins Máls og menningar, en upplýst hefur verið, að það félag hlaut stórkostlega fjármuni í styrki frá alræðisstjórninni í Moskvu á sjötta og sjöunda áratug og gat þess vegna reist stórhýsi við Laugaveg. Hefur þeirra fjármuna eflaust verið aflað með skógarhöggi og námugrefti í þrælabúðum norðan heimsskautsbaugs. Færi vel á, að þessum fjármunum væri skilað til Rússlands, til dæmis í myndarlegt framlag frá Máli og menningu til stofnunarinnar Minningar (Memorial) í Moskvu, sem hefur þann tilgang að halda á lofti minningunni um fórnarlömb kommúnismans, en á undir högg að sækja undir stjórn Pútíns.

Bjarna Benediktssyni skjátlaðist ekki síður en Trimble. Í bandarískum skýrslum kemur fram, að hann velti fyrir sér, hvort Laxness fjármagnaði af erlendum tekjum sínum hina öflugu starfsemi íslenskra sósíalista. Bjarni hefur bersýnilega lítt verið kunnugur Laxness. Fátt hefði verið fjær skáldinu en að ráðstafa erlendum tekjum sínum í hugsjónastarf. Laxness klæddist vönduðustu fötum, sem völ var á, ók um á glæsikerru, bjó í skrauthýsi á íslenskum mælikvarða, lét gera sér fyrstu einkasundlaug á Íslandi og dvaldist langdvölum erlendis við munað, til dæmis á d’Angleterre í Kaupmannahöfn. Þetta var að mínum dómum skiljanlegt og jafnvel lofsvert. Auðvitað var sjálfsaflafé Laxness miklu betur varið í að búa honum þægilegar aðstæður til að skrifa af samúð og skilningi um fátæklingana á Íslandi en í blaðaútgáfu og fundahöld á vegum rifrildismanna. Í viðskiptum var Laxness sannur kapítalisti.

Órökstuddar getgátur

Þau Kjerúlf og Halldór vitna til gagna úr bandarískum skjalasöfnum, sem eiga að sýna samantekin ráð gegn Laxness. Að vísu verður að meta skýrslur erlendra sendimanna um samtöl við íslenska ráðamenn af meiri varúð en þau gera, en ég tel þau tvímælalaust hafa rétt fyrir sér um, að samantekin ráð hafi verið um að rannsaka, hvort Laxness hefði gerst brotlegur við íslenskar reglur um skattframtöl og gjaldeyrisskil, og það reyndist rétt vera. En þau Kjerúlf og Halldór ganga lengra og láta að því liggja, að samantekin ráð hafi líka verið um að stöðva útgáfu bóka Laxness í Bandaríkjunum. Því er til að svara, að engin gögn hafa fundist um það. Um er að ræða órökstuddar getgátur, eins og Halldór viðurkennir raunar í grein sinni hér í blaðinu miðvikudaginn 25. nóvember. 

Er líklegt, að útgefandi Laxness, Alfred Knopf, hafi ákveðið að gefa ekki út fleiri bækur Laxness vegna þeirra fyrirspurna, sem umboðsfyrirtæki skáldsins, Curtis Brown, og Mánaðarritafélaginu bárust um tekjur hans og skattgreiðslur? Óvíst er, að Knopf hafi vitað af þeim. Og jafnvel þótt hann hefði vitað af þeim, tel ég líklegt, að hann hefði haldið áfram að gefa út bækur Laxness, hefði hann séð í því hagnaðarvon. Knopf var sami kapítalistinn og Laxness sjálfur. Og hefði hann sjálfur horfið frá því af stjórnmálaástæðum, þá hefðu aðrir væntanlega stokkið til eftir sömu forsendu, að þeir sæju í því hagnaðarvon. Árið 1988 kom út í Bandaríkjunum bók eftir einn menningarrýnanda New York Times, Herbert Mitgang, og var hún um eftirlit alríkislögreglunnar í kalda stríðinu með ýmsum rithöfundum og menntamönnum, sem hún taldi varhugaverða. Einn þeirra var Alfred Knopf. Af því tilefni ræddi New York Times 5. febrúar við son Knopfs, sem sagðist vera steinhissa á þessu. „Hann var hinn dæmigerði kapítalisti,“ sagði hann um föður sinn. „En hann gaf út allt, sem honum fannst eiga erindi á prent. Hann skeytti engu um stjórnmálaskoðanir.“

(Grein í Morgunblaðinu 27. nóvember 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.11.2020 - 08:17 - Rita ummæli

Nozick og íþróttakappinn

Fyrir viku minntist ég hér á bandaríska heimspekinginn Robert Nozick, sem átt hefði afmæli 16. nóvember. Ég kynntist honum nokkuð, og hann var stórkostlegur maður. Hann samdi snjalla dæmisögu um, hvernig hugmyndir jafnaðarmanna um tekjudreifingu rekast á frelsi. Setjum svo, að þeim hafi tekist í landi einu að koma á tekjudreifingu T1, sem þeir telji réttláta. Þá mæti körfuknattleikskappinn Wilt Chamberlain til leiks og semji um, að hver maður greiði 25 sent af aðgöngumiðanum til hans beint. Milljón manns tekur boði hans. Eftir leiktímabilið er hann orðinn 250 þúsund dölum ríkari, en áhorfendur hans hver 25 sentum fátækari. Til er orðin tekjudreifing T2, sem er ójafnari en T1. Hvar er ranglætið? Allir eru ánægðir, jafnt íþróttakappinn sjálfur og aðdáendur hans.

Ég hef notað svipað dæmi. Setjum svo, að jafnaðarmönnum hafi tekist að koma á Íslandi á tekjudreifingu T1, sem þeir telji réttláta. Þá heimsæki Milton Friedman landið, auglýsi fyrirlestur og taki fyrir hann 10.000 kr. á mann. Húsfyllir verður: 500 manns hlustuðu á Friedman. Nú er Friedman 5 milljónum krónum ríkari og áheyrendur hans hver 10.000 krónum fátækari. En þeim fannst fyrirlesturinn vel þess virði. Til er orðin ójafnari tekjudreifing T2. Hvar er óréttlætið? Þorsteinn Gylfason heimspekingur notaði enn annað skemmtilegt dæmi, af Garðari Hólm stórsöngvara, sem kemur til Ólands og heldur tónleika. Ég hef bent á, að Nozick hefur hugsanlega fengið hugmyndina að dæmisögunni úr bókinni God and Man at Yale eftir William Buckley, en þar spyr höfundur, hvað sé að því, að hafnaboltakappinn Joe DiMaggio (sem var um skeið kvæntur þokkagyðjunni Marilyn Monroe) verði ríkur á því, að fólk vilji sækja leiki hans.

Kjarni málsins er sá, að frelsi fólks til að ráðstafa fjármunum sínum raskar hugmyndum jafnaðarmanna um réttláta tekjudreifingu. Fólk ráðstafar þeim stundum til einstaklinga með óvenjulega hæfileika, sem auðga mannlífið og sjálfa sig um leið. Ótal jafnaðarmenn hafa spreytt sig á að hrekja þessa dæmisögu Nozicks, en ekki tekist.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. nóvember 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.11.2020 - 09:01 - Rita ummæli

Ánægjuvél Nozicks

Næsta mánudag á bandaríski heimspekingurinn Robert Nozick afmæli. Hann fæddist 16. nóvember 1938 og lést langt fyrir aldur fram 23. janúar 2002. Í væntanlegri bók á ensku um frjálslynda og íhaldssama stjórnmálahugsuði segi ég frá kynnum okkar, en við áttum merkilegar samræður um heima og geima. Bók Nozicks, Stjórnleysi, ríki og staðleysur (Anarchy, State and Utopia), vakti mikla athygli, þegar hún kom út 1974. Í fyrsta hlutanum svaraði hann stjórnleysingjum og sýndi fram á, að ríkið gæti sprottið upp án þess að skerða réttindi einstaklinganna. Í öðrum hlutanum svaraði hann jafnaðarmönnum og leiddi rök að því, að ekkert ríki umfram lágmarksríkið, sem fengist aðeins við að halda uppi lögum og rétti, væri siðferðilega réttlætanlegt. Í þriðja hlutanum benti hann á, að innan lágmarksríkisins gætu menn auðvitað stundað sósíalisma, stofnað sitt eigið draumríki, svo framarlega sem þeir neyddu aðra ekki inn í það.

Nozick telur, að hver maður sé tilgangur í sjálfum sér og hann megi ekki nota eingöngu sem tæki fyrir aðra. Hann andmælir þess vegna nytjastefnu, sem telur tilgang heildarinnar vera sem mesta ánægju sem flestra. Þetta getur kostað það, að einstaklingi sé fórnað fyrir heildina. En er ánægjan eftirsóknarverð í sjálfri sér? Nozick ímyndar sér vél, sem við gætum stigið inn í og valið þar um lífsreynslu að vild, til dæmis ánægjuna af að hafa samið stórkostlegt tónverk, drukkið höfug vín og eignast góða vini. Engar hliðarverkanir væru af dvölinni, og við gætum valið á tveggja ára fresti, hvort við vildum halda vistinni áfram. Myndum við stíga inn í þessa ánægjuvél? Nei, svarar Nozick, því að við viljum vera eitthvað og gera eitthvað sjálf, ekki lifa í manngerðum veruleika.

Ánægjuvél Nozicks er hugvitsamleg, en ég er dálítið hissa á, að enginn fræðimaður skuli hafa bent á, að þýski heimspekingurinn Friedrich Paulsen setti fram svipað dæmi, nema hvað hann hugsaði sér ódáinsdrykk, en ekki vél, í Siðferðislögmálum (System der Ethik), II. bók, II. kafla, 4. grein (Berlin 1889).

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. nóvember 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.11.2020 - 05:37 - Rita ummæli

Dreifstýrð Bandaríki

Fréttnæmast við úrslit kosninganna í Bandaríkjunum er ef til vill, hversu langt þau voru frá spádómum allra spekinganna, sem birst hafa á sjónvarpsskjám um allan heim og endurtekið tuggur hver frá öðrum. Þegar þetta er skrifað, virðast Lýðveldissinnar (Repúblikanar) hafa haldið velli í Öldungadeildinni og unnið nokkur sæti í Fulltrúadeildinni, og forsetaefni þeirra bíður nauman ósigur fyrir forsetaefni Lýðræðissinna (Demókrata). Minnihlutahópar hafa kosið Lýðveldissinna í meira mæli en oftast áður. Innan Lýðræðisflokksins heyrast nú raddir um, að fámenn klíka háværra vinstri manna megi ekki ráða þar ferð, en hún vill fella niður fjárveitingar til lögreglunnar og stórhækka skatta á hátekjumenn. Slíkir skattar lenda alltaf að lokum á miðstéttinni, því að hátekjumennirnir, sem eru einmitt einhverjir öflugustu stuðningsmenn Lýðræðisflokksins, kunna ótal ráð til að koma sér undan þeim. (Tveir ríkustu menn heims, Jeff Bezos og Carlos Slim, eiga mikið eða allt í Washington Post og New York Times, sem bæði styðja Lýðræðisflokkinn, og Twitter og Facebook veittu Lýðræðisflokknum grímulausan stuðning.)

Annað er líka umhugsunarefni, fávíslegar athugasemdir spekinganna á skjánum um bandarísk stjórnmál. Þeir virðast ekki vita, að Bandaríkin eru samband fimmtíu ríkja, og hvert ríki hefur sinn hátt á að kjósa til forseta og í öldungadeild og fulltrúadeild. Ríkin kjósa forsetann, en ekki sú merkingarlausa tala, sem fæst með því að leggja saman fjölda fólks með kosningarrétt í ríkjunum fimmtíu. Þess vegna var auðvitað líka viðbúið, að tafir yrðu sums staðar á talningu. Aðferðirnar eru ólíkar. Bandaríkin eru dreifstýrt land, ekki miðstýrt. Fullveldinu er þar skipt milli ríkjanna fimmtíu og alríkisins. Eins og Alexis de Tocqueville benti á í sínu sígilda verki um Bandaríkin, er dreifstýringin skýringin á því, hversu vel heppnað hið bandaríska stjórnskipulag er ólíkt hinu franska, sem lauk í byltingunni með ógnarstjórn og hernaðareinræði. Tocqueville nefndi ekki aðeins skiptingu valdsins milli einstakra ríkja og alríkisins, heldur líka sjálfstæði dómstóla og frumkvæði borgaranna í framfaramálum. Bandarískt stjórnskipulag er til þess gert að standast misjafna valdsmenn eins og skip eru smíðuð fyrir storminn, ekki lognið. Sé allt það rétt, sem andstæðingar núverandi forseta segja um hann, þá er það enn ein staðfestingin á greiningu Tocquevilles, að Bandaríkin skuli hafa komist bærilega af undir fjögurra ára stjórn hans.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. nóvember 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 31.10.2020 - 05:44 - Rita ummæli

Kjörbúðir og kjörklefar

Nú líður að lokum forsetakjörsins bandaríska, en allur heimurinn fylgist með því, enda eru Bandaríkin langöflugasta hagkerfi og herveldi heims. Án þess hefðu þeir Stalín og Hitler líklega skipt Norðurálfunni allri á milli sín upp úr 1940. Spekingar þeir, sem koma fram þessa dagana í fjölmiðlum, segja flestir líklegast, að Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, muni sigra. Þetta er rangt. Líklegast er, að Donald Trump, núverandi forseti, muni tapa. Þeir, sem kjósa Biden, eru langflestir að kjósa á móti Trump.

Þetta leiðir hugann að einum mun á því að kjósa úti í kjörbúð og inni í kjörklefa. Úti í kjörbúð kýs maður með krónunum sínum þá vöru, sem hann vill. Inni í kjörklefa kýs hann með höndunum þann frambjóðanda, sem hann vill stundum ekki, en telur illskárri en keppinauturinn. Biden vekur ekki traust. Hann er gleyminn og reikull í tali og leyfir fjölskyldu sinni að hagnast á nafni sínu. Hann ber með sér, að hann er orðinn 77 ára. En hann nær líklegast kjöri, því að hinn spræki keppinautur hans vekur víða stæka andúð, sem er ekki með öllu óskiljanleg.

Annar galli á kjörklefalýðræðinu ólíkt kjörbúðalýðræðinu er, að menn vita ekki alltaf, hvað þeir kjósa yfir sig. Úti í kjörbúð geta menn skoðað vöruna, lesið sér til um innihaldið og séð, hvað hún kostar. En inni í kjörklefanum geta menn sjaldnast séð fyrir, hvað muni gerast, sérstaklega í löndum með hlutfallskosningar og samsteypustjórnir, en líka í löndum með tveggja flokka kerfi eins og í Bandaríkjunum, þótt kostir séu þar skýrari.

Og jafnvel þótt bandarískir kjósendur ættu nú orðið að þekkja þá Joe Biden og Donald Trump, vita þeir ekki, hvað kjör þeirra muni kosta. Biden hyggst hækka skatta á hina tekjuhærri og takmarka vinnslu jarðefna. Þetta er hvort tveggja vel fallið til vinsælda, en gæti haft neikvæðar afleiðingar í atvinnulífinu.

Kjarni málsins er, að vilji einstaklinganna kemur miklu betur fram, þegar þeir kjósa daglega með krónunum úti í kjörbúð en þegar þeir kjósa með höndunum inni í kjörklefa á fjögurra ára fresti. Þess vegna ætti að flytja sem flestar ákvarðanir frá stjórnmálamönnum og skriffinnum til neytenda og skattgreiðenda.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. október 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.10.2020 - 06:51 - Rita ummæli

Stjórnarskrárhagfræði

Furðu sætir, að í öllum umræðunum um lýðveldisstjórnarskrána, sem samþykkt var með 98% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu 1944, hefur ekkert verið minnst á eina grein hagfræðinnar, stjórnarskrárhagfræði (constitutional economics), sem spratt upp úr rannsóknum James M. Buchanans og annarra hagfræðinga á almannavali í samanburði við einkaval. Er meira að segja haldið úti sérstöku tímariti um stjórnarskrárhagfræði. Buchanan fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1986 fyrir rannsóknir sínar á almannavali.

Einkaval er, þegar maður fer út í kjörbúð og kaupir sér osthleif. Almannaval er, þegar maður fer inn í kjörklefa og krossar við einhvern kost af nokkrum, til dæmis stjórnmálaflokk til að fara með löggjafarvaldið næstu fjögur árin. Sá augljósi munur er á einkavali og almannavali, að engin nauðung kemur við sögu í einkavali. Maðurinn kaupir sér ekki osthleif, nema hann vilji. Hann velur aðeins fyrir sjálfan sig. En í almannavali eru alltaf sumir að velja fyrir alla. Einhverjir verða undir í atkvæðagreiðslunni.

Stjórnarskrárhagfræðin leitar leiða til að lágmarka nauðung í stjórnmálum. Einfaldast væri auðvitað að krefjast einróma samþykkis við öllum stjórnlagabreytingum, en allir sjá, að það er ekki framkvæmanlegt (þótt Íslendingar hafi farið býsna nærri því í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1944). Buchanan og lærisveinar hans telja því, að binda þurfi í stjórnlög ýmis ákvæði til verndar minni hlutum.

Til viðbótar við hefðbundin mannréttindaákvæði þurfi að koma reglur, sem torveldi meiri hluta að samþykkja þungar álögur á minni hluta, til dæmis skatta, sem aðeins fáir bera, eða skuldasöfnun, sem varpað er á komandi kynslóðir, eða verðbólgu, sem er ekkert annað en dulbúinn skattur á notendur peninga. Takmarka þurfi skattlagningar- og seðlaprentunarvald ríkisins í beinu framhaldi af þeim hömlum, sem þegar eru reistar við afskiptum þess af skoðanamyndun og meðferð einkaeigna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. október 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.10.2020 - 07:55 - Rita ummæli

Veggjakrot eða valdhömlur?

Þegar á níunda áratug síðustu aldar var einu sinni sem oftar rætt af miklum móði á Alþingi um, hvað gera mætti fyrir þjóðina, hallaði Geir Gunnarsson, þingmaður Alþýðubandalagsins, sér að sessunaut sínum og sagði í lágum hljóðum: „Er ekki líka rétt að biðja um sérstaka veðurstofu, sem spáir aðeins góðu veðri?“ Þetta atvik rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég sá í miðborginni sóðalegt veggjakrot eftir ákafafólk, sem hafna vill lýðveldisstjórnarskránni frá 1944.

Lýðveldisstjórnarskráin var eins og lög gera ráð fyrir samin af Alþingi, en borin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu hinn 23. maí 1944. Kjörsókn var 98%, og greiddu 98,3% atkvæði með stjórnarskránni, en hún átti uppruna sinn í stjórnarskrá þeirri, sem Kristján IX. færði Íslendingum á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar 1874. Sú stjórnarskrá var ein hin frjálslegasta í Norðurálfunni, enda Norðurlönd þá sem nú að mörgu leyti til fyrirmyndar um stjórnarfar. Stendur réttarríkið óvíða traustari fótum. Til samanburðar má nefna, að kjörsókn var svo dræm 2012 um uppkast veggjakrotaranna að stjórnarskrá, að aðeins mælti um þriðjungur atkvæðisbærra kjósenda með því, að Alþingi hefði það til hliðsjónar, ef og þegar það endurskoðaði stjórnarskrána.

En til hvers eru stjórnarskrár? Þeir fræðimenn, sem dýpst hafa hugsað um það mál, svara: Það er til að skilgreina, hvaða mál þykja svo mikilvæg, að reglum um þau verði ekki breytt í venjulegum atkvæðagreiðslum. Dæmi er málfrelsið. Meiri hlutinn gæti komist í tímabundna geðshræringu og viljað svipta óvinsælan minnihlutahóp málfrelsi, en stjórnarskráin bannar það. Annað dæmi er friðhelgi eignarréttarins.

Stjórnarskrár eru fáorðar, gagnorðar og skýrar yfirlýsingar um, hvernig fara skuli með valdið, svo að hugsanleg misnotkun þess bitni sem minnst á einstaklingum. Eins og skip eru smíðuð til að standast vond veður, eru stjórnarskrá samdar til að standast misjafna valdhafa. Við höfum ekkert að gera við veðurstofu, sem spáir aðeins góðu veðri, og því síður höfum við not fyrir stjórnarskrá, sem er ekkert annað en óskalisti um, hvað ríkið eigi að gera fyrir borgarana, eins og veggjakrotararnir í miðborginni krefjast. Nær væri að hafa áhyggjur af því, hvað ríkið getur gert borgurunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. október 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 10.10.2020 - 12:13 - Rita ummæli

Minningar um Milton

Að mér sóttu á dögunum minningar um Milton Friedman, einn virtasta hagfræðing tuttugustu aldar. Ég hitti hann fyrst á fundi Mont Pelerin-samtakanna, alþjóðasamtaka frjálslyndra fræðimanna, í Stanford í Kaliforníu haustið 1980. Ég sagði honum þá, að ég hefði ósjaldan varið hann fyrir árásum íslenskra vinstri manna. „Þú átt ekki að verja mig,“ sagði Friedman með breiðu brosi. „Þú átt að verja hugsjónir okkar.“

Næst hitti ég Friedman á þingi Mont Pelerin-samtakanna í Berlín 1982. Hann sagði mér þá af ferð sinni til Kína skömmu eftir fundinn í Stanford. Hann hafði snætt hádegisverð með kínverskum ráðherra, sem kvaðst vera á leið til Bandaríkjanna. Hvaða ráðherra sæi þar um dreifingu hráefna? Friedman svaraði: „Þú skalt fara á hrávörumarkaðinn í Síkagó.“ Ráðherrann varð eitt spurningamerki í framan. Friedman reyndi að útskýra fyrir honum, að á frjálsum markaði sæi ríkið ekki um dreifingu hráefna. Þau dreifðust um hagkerfið í frjálsum viðskiptum. Friedman rifjaði líka upp ferð sína til Indlands 1962. Hann kom þar að, sem verkamenn voru að grafa skipaskurð með skóflum. Friedman spurði: „Af hverju notið þið ekki jarðýtur? Það væri miklu hagkvæmara.“ Leiðsögumaður hans svaraði: „Þú skilur þetta ekki. Þetta skapar atvinnu.“ Friedman var ekki lengi að bregðast við: „Nú, ég hélt, að þið væruð að grafa skipaskurð. En ef þið ætlið að skapa atvinnu, af hverju notið þið ekki matskeiðar?“

Friedman kom til Íslands á mínum vegum haustið 1984. Matthías Á. Mathiesen viðskiptaráðherra hélt honum boð í Ráðherrabústaðnum. Ég stóð við hlið Friedmans og kynnti hann fyrir gestum. Einn þeirra var seðlabankastjóri. Ég gat ekki stillt mig um að segja: „Jæja, prófessor Friedman. Hér er íslenskur seðlabankastjóri. Hann yrði nú atvinnulaus, ef kenningar yðar yrðu framkvæmdar.“ Friedman brosti kankvís og sagði: „Nei, hann yrði ekki atvinnulaus. Hann yrði aðeins að færa sig í arðbærara starf.“ Allir hlógu, líka seðlabankastjórinn. Eitt kvöldið héldu íslenskir kaupsýslumenn og iðnjöfrar Friedman veglega veislu. Einn þeirra spurði Friedman: „Hver er að yðar dómi mesta ógnin við kapítalismann?“ Friedman svaraði: „Horfið í spegil. Það eru kapítalistarnir, sem ógna kapítalismanum. Þeir vilja, að ríkið verji þá gegn samkeppni.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. október 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.10.2020 - 08:28 - Rita ummæli

Gyðingahatur og Íslendingaandúð

Þau Milton Friedman og Anna J. Schwartz gáfu árið 1963 út Peningamálasögu Bandaríkjanna, A Monetary History of the United States, þar sem þau lögðu fram nýja skýringu á heimskreppunni miklu 1929–1933. Hún var, að kreppan hefði orðið vegna mistaka í stjórn peningamála. Bandaríski seðlabankinn hefði breytt niðursveiflu í djúpa kreppu með því að leyfa peningamagni í umferð að skreppa saman um þriðjung. Hann hefði ekki gegnt þeirri skyldu sinni að veita bönkum í lausafjárþröng þrautavaralán.

Eitt versta glappaskotið hefði verið að bjarga ekki Bank of the United States í New York haustið 1930, en það hefði valdið áhlaupum á aðra banka og dýpkað niðursveifluna. Margir hefðu haldið vegna nafnsins, að bankinn væri á einhvern hátt opinber stofnun, en svo var ekki. Bankinn var í eigu gyðinga, og flestir viðskiptavinir voru gyðingar. Þau Friedman og Schwartz töldu líklegt, að gyðingahatur hefði ráðið einhverju um, að bankanum var ekki bjargað.

Hliðstæð ákvörðun var tekin í fjármálakreppunni 2008 um Ísland. Breska Verkamannaflokksstjórnin með þá Gordon Brown og Alistair Darling í broddi fylkingar ákvað að bjarga öllum bönkum í Bretlandi öðrum en þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, Heritable og KSF. Jafnframt lokaði stjórnin útbúi Landsbankans í Lundúnum. Þetta olli því, að íslenska bankakerfið hrundi allt, en ella var það alls ekki sjálfgefið.

Ég tel líklegt, að stjórnmálahagsmunir hafi ráðið einhverju um þessa ákvörðun. Brown og Darling voru báðir frá Skotlandi, og þjóðernissinnar sóttu þar mjög að Verkamannaflokknum. Þeir höfðu því ríka hagsmuni af því að sýna skoskum kjósendum, að sjálfstæði smáþjóðar gæti verið varasamt. Skoska bankakerfið var tólfföld landsframleiðsla Skotlands og hefði hrunið, hefði Englandsbanki ekki veitt skoskum bönkum þau þrautavaralán, sem hann neitaði Heritable og KSF um.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. október 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.9.2020 - 07:58 - Rita ummæli

Ljónið í Luzern

Í grúski mínu í ritum þeirra Karls Marx og Friðriks Engels tók ég eftir því, að þar er á einum stað minnst á íslenska myndhöggvarann Bertel Thorvaldsen. Það er í grein eftir Engels frá því í nóvember 1847 um svissneska borgarastríðið. Engels hafði ekkert gott að segja um Svisslendinga, sem væru frumstæð fjallaþjóð og legðu ætíð afturhaldsöflum lið. Væri þeim helst saman að jafna við Norðmenn, sem líka væru þröngsýn útkjálkaþjóð.

Enn fremur sagði Engels: „Menn skyldu ekki ætla, að þessir málaliðar væru taldir úrhrak þjóða sinna eða að þeim væri afneitað af löndum sínum. Hafa íbúar Luzern ekki fengið hinn rétttrúaða Íslending Thorvaldsen til að að höggva í klett við borgarhliðið stórt ljón? Það er sært spjóti, en verndar til hinstu stundar liljuprýddan skjöld Bourbon-ættarinnar með loppu sinni, og á þetta á vera til minningar um hina föllnu Svisslendinga 10. ágúst 1792 við Louvre! Á þennan veg heiðrar svissneska bandalagið hina fölu þjónustulund sona sinna. Það lifir á því að selja menn og heldur það hátíðlegt.“

Tvær villur eru að vísu í frásögn Engels. Thorvaldsen gerði ekki sjálfur hina frægu höggmynd í klett við Luzern, heldur var það Lukas Ahorn, sem hjó hana í bergið eftir uppdrætti Thorvaldsens. Og svissnesku hermennirnir féllu ekki í bardaga um Louvre-höll 1792, heldur þegar Parísarmúgurinn réðst á Tuileries-höll, þar sem franska konungsfjölskyldan hafðist þá við. Lágu um sex hundruð Svisslendingar í valnum, er yfir lauk. Í sveit franskra þjóðvarðliða, sem einnig vörðu konungshöllina, var Hervé de Tocqueville, faðir hins fræga rithöfundar Alexis, sem greindi Frönsku stjórnarbyltinguna af skarpskyggni, og var Hervé einn fárra, sem komust lífs af. Konungsfjölskyldan leitaði skjóls hjá Löggjafarsamkomunni, en það reyndist ekki traustara en svo, að konungur var hálshöggvinn í janúar 1793 og  drottning í oktober. Margir hafa lýst minnismerkinu í Luzern, þar á meðal bandaríski rithöfundurinn Mark Twain, enski sagnfræðingurinn Thomas Carlyle og heimspekingurinn Ágúst H. Bjarnason, sem var á ferð um Sviss árið 1902, en frásögn hans birtist í Sumarblaðinu 1917.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. september 2020.)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir