Laugardagur 2.3.2019 - 12:39 - Rita ummæli

Rawls og Piketty (3)

Tveir kunnustu hugsuðir nútíma jafnaðarstefnu eru bandaríski heimspekingurinn John Rawls og franski hagfræðingurinn Thomas Piketty. Rawls heldur því fram, að á stofnþingi stjórnmálanna muni skynsamir menn með eigin hag að leiðarljósi, en án vitneskju um eigin stöðu og möguleika síðar meir (svo sem um áskapaða hæfileika sína, stétt eða kyn), setja tvær réttlætisreglur, um jafnt og fullt frelsi allra borgaranna og um jöfnuð lífsgæða, nema því aðeins að tekjumunurinn stuðli að bættum kjörum hinna verst settu. Samkvæmt seinni reglunni eru tekjujöfnun sett efri mörk. Hún má ekki ganga svo langt, að kjör hinna verst settu versni, eins og kynni að gerast, væru skattar svo háir, að hátekjumenn hættu að skapa veruleg verðmæti.

En hvað er óréttlátt við ójafna tekjudreifingu, ef menn eru fjár síns ráðandi? Setjum svo, að á Íslandi hafi komist á tekjudreifing D1, sem þeir Rawls, Piketty og hinn íslenski lærisveinn þeirra Stefán Ólafsson telji réttláta. Nú komi gáfnaljósið og mælskusnillingurinn Milton Friedman til landsins, haldi fyrirlestur um atvinnufrelsi og selji inn á hann. 500 manns flykkist á fyrirlesturinn og greiði hver um sig 10.000 krónur í aðgangseyri. Nú hefur tekjudreifingin breyst í D2, sem er ójafnari en D1. Friedman er 5 milljónum krónum ríkari og 500 manns hver um sig 10.000 krónum fátækari. Hvar er ranglætið? Var einhver misrétti beittur? Ef til vill gramdist Stefáni, að fleiri sóttu fyrirlestur Friedmans en hans og voru reiðubúnir að greiða hærra verð fyrir, á sama hátt og Salieri gat ekki á heilum sér tekið vegna Mozarts í kvikmyndinni Amadeus. En fæstir hafa samúð með slíku sjónarmiði. Við þökkum flest fyrir snillinga í stað þess að kvarta undan, að þeir skyggi á undirmálsfólk.

Í þessari röksemd gegn kenningu Rawls notar bandaríski heimspekingurinn Robert Nozick dæmi af körfuknattleikskappanum Wilt Chamberlain, og löngu áður hafði landi hans, rithöfundurinn William Buckley, nefnt kylfuknattleiksmanninn Joe DiMaggio í þessu sambandi. Í endursögn sinni á röksemd Nozicks notar Þorsteinn Gylfason stórsöngvarann Garðar Hólm úr skáldsögu Laxness. En aðalatriðið er hið sama í öllum dæmunum: Á frjálsum markaði er tekjudreifing samkvæmt vali. Menn fá til sín í hlutfalli við það, hversu margir velja þá, og þeir láta frá sér í hlutfalli við það, hverja þeir velja sjálfir. Hátekjumaðurinn er valinn af mörgum, lágtekjumaðurinn af fáum.

Rawls og aðrir vinstrisinnar keppast við að skipta ímynduðum kökum í sneiðar inni í bergmálsklefum háskóla. En úti í mannlífinu verður ekki gengið að neinum kökum vísum, nema bakaríin séu í fullum gangi, og það verða þau ekki, nema bakararnir fái umbun verka sinna. Jói Fel hefur efnast á því að eignast marga viðskiptavini, og það gerist ekki af sjálfu sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. mars 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.2.2019 - 10:38 - Rita ummæli

Rawls og Piketty (2)

Tveir kunnustu hugsuðir nútíma jafnaðarstefnu eru bandaríski heimspekingurinn John Rawls og franski hagfræðingurinn Thomas Piketty. Rawls heldur því fram, að á stofnþingi stjórnmálanna muni skynsamir menn með eigin hag að leiðarljósi, en án vitneskju um eigin stöðu og möguleika síðar meir (svo sem um áskapaða hæfileika sína, stétt eða kyn), setja tvær réttlætisreglur, um jafnt og fullt frelsi allra borgaranna og um jöfnuð lífsgæða, nema því aðeins að tekjumunurinn stuðli að bættum kjörum hinna verst settu. Ég benti fyrir viku á, að með því að undanskilja atvinnufrelsi í fyrri reglunni laumi Rawls eigin sjónarmiðum inn í niðurstöðuna á stofnþinginu og að hin almenna kenning hans sé auk þess ekki um réttlæti, heldur um hyggindi, sem í hag komi. Hún sé varnarleikur gegn verstu kostum, gegn hugsanlegri kúgun og fátækt.

Rawls telur þá tekjudreifingu, sem sprettur upp úr frjálsum markaðsviðskiptum, óréttláta. Hátekjumenn njóti þar til dæmis oft áskapaðra hæfileika sinna. Dreifing slíkra gæða hafi ekki verið eftir verðleikum, heldur tilviljun. Sumir fæðist hraustari, sterkari eða gáfaðri en aðrir. Hetjutenórinn hafi ekki unnið til raddar sinnar, heldur þegið hana frá náttúrunni. Menn geti auk þess aðeins notið þessara hæfileika sinna með öðru fólki, og þess vegna megi þeir ekki hirða allan afrakstur af þeim, heldur verði að deila honum með hæfileikaminna fólki samkvæmt seinni réttlætisreglunni um jöfnuð lífsgæða.

Hér er ég í senn sammála og ósammála Rawls. Hann hefur rétt fyrir sér um, að menn hafa ekki unnið til hæfileika sinna, heldur hlotið þá í vöggugjöf. En eðlilegasta hugmyndin um frelsi er, að menn eigi sjálfa sig, en séu ekki eign annarra, þrælar. Af sjálfseign þeirra leiðir, að þeir eiga hæfileika sína og öðlast þá um leið tilkall til afrakstursins af þeim. Þótt þeir hafi ekki unnið til áskapaðra hæfileika sinna, hafa þeir unnið til afrakstursins af þeim. Erfitt er eða ókleift að gera greinarmun á þeim hluta virðisins, sem er gjöf náttúrunnar, og þeim hluta, sem er framlag einstaklingsins. Hvað er áskapað og hvað áunnið? Menn leggja misjafna rækt við hæfileika sína. Rétta ráðið til þess, að þeir þroski þá, er að leyfa öðrum að njóta þeirra með þeim gegn gjaldi, en þá hljótum við að hafna þeirri forsendu Rawls, að menn eigi ekki sjálfa sig að fullu. Auk þess fæ ég ekki séð, að aðrir hafi á einhvern hátt unnið til hæfileika þeirra, sem fæðast óvenjuhraustir, sterkir eða gáfaðir. Þeir taka ekki frá mannkyni, heldur bæta við.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. febrúar 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.2.2019 - 17:20 - Rita ummæli

Rawls og Piketty

Tveir kunnustu hugsuðir jafnaðarstefnu okkar daga eru bandaríski heimspekingurinn John Rawls, sem gaf út Kenningu um réttlæti (A Theory of Justice) árið 1971, og franski hagfræðingurinn Thomas Piketty, sem gaf út Fjármagn á tuttugustu og fyrstu öld (Capital in the Twenty-First Century) árið 2014. Ég lagði það á mig fyrir skömmu vegna verkefnis, sem ég hafði tekið að mér erlendis, að lesa aftur hin hnausþykku verk þeirra. Bók Rawls er 607 blaðsíður og Pikettys 793. Mér fannst í senn fróðlegt og skemmtilegt að endurnýja kynni mín af þessum verkum og tók eftir mörgu, sem farið hafði fram hjá mér áður. Mig langar í nokkrum fróðleiksmolum að deila ýmsum athugasemdum mínum með lesendum.

Rawls og Piketty gera báðir ráð fyrir frjálsum markaði, en hvorugur sættir sig við þá tekjudreifingu, sem sprettur upp úr frjálsum viðskiptum, vegna þess að hún verði ójöfn. Rawls setur fram hugvitsamlega kenningu. Hún er um, hvað skynsamir menn með eigin hag að leiðarljósi, en án vitneskju um eigin stöðu (til dæmis um áskapaða hæfileika sína, stétt eða kyn), muni semja um, eigi þeir að setja réttlátu ríki reglur. Rawls leiðir rök að því, að þeir muni semja um tvær frumreglur. Hin fyrri kveði á um jafnt og fullt frelsi allra borgaranna, en hin seinni á um jöfnuð lífsgæða, þar sem tekjumunur réttlætist af því einu, að tekjur hinna verst settu verði sem mestar. Með öðrum orðum sættir Rawls sig við ójafna tekjudreifingu upp að því marki, að hún verði hinum fátækustu líka í hag.

Fyrri reglan, um jafnt og fullt frelsi allra borgara, tekur til kosningarréttar, málfrelsis, fundafrelsis og trúfrelsis, en ekki til atvinnufrelsis. Rök Rawls fyrir því eru, að nú á dögum sé svo mikið til af efnislegum gæðum, að þau séu mönnum ekki eins mikilvæg og ýmis frelsisréttindi. Þetta má auðvitað gagnrýna, því að hér virðist Rawls vera að lauma eigin sjónarmiðum inn í niðurstöðuna, sem samningamennirnir um framtíðina eiga að komast að. Önnur andmæli blasa líka strax við. Kenning Rawls er í rauninni ekki um réttlæti, heldur um hyggindi, sem í hag koma. Hann telur, að mennirnir á stofnþingi stjórnmála muni frekar hugsa um að verja sig gegn versta kosti en vonast eftir hinum besta. Þess vegna muni þeir reyna að tryggja sem best hag hinna verst settu. Þeir viti ekki nema þeir lendi í þeim hópi sjálfir. Þetta er auðvitað ekki óskynsamleg hugsun, en hún snertir lítt réttlæti, eins og það hefur venjulega verið skilið á Vesturlöndum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. febrúar 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.2.2019 - 07:37 - Rita ummæli

Brjóstmyndin af Brynjólfi

Á dögunum var málverk í Seðlabankanum af nakinni konu tekið niður að ósk viðkvæms starfsmanns. Mynd í Menntaskólanum á Ísafirði af umdeildum fyrrverandi skólameistara var einnig fjarlægð nýlega að beiðni nemanda. Ég ætla ekki að fella hér dóm um réttmæti þessara ákvarðana, heldur aðeins minna á að brjóstmynd af Brynjólfi Bjarnasyni stendur fyrir framan hátíðarsal Háskóla Íslands.

Brynjólfur var fyrsti og eini formaður Kommúnistaflokks Íslands, sem var stofnaður í nóvember 1930 og hafði byltingu á stefnuskrá sinni, enda var rótin að klofningi kommúnista og jafnaðarmanna á öndverðri tuttugustu öld að kommúnistar voru ekki reiðubúnir að afneita ofbeldi til að ná þeim markmiðum sem hóparnir tveir deildu. Flokkurinn var í Alþjóðasambandi kommúnista, Komintern, en í stefnuskrá þess frá 1920 var kveðið á um að leynilega skyldu skipulagðir hópar sem hrifsað gætu völd ef tækifæri gæfist. Áttu íslenskir kommúnistar vopnabúr og stofnuðu bardagasveit, Varnarlið verkalýðsins, sem þrammaði ósjaldan um götur Reykjavíkur á fjórða áratug og sveiflaði kylfum. Sló iðulega í harða bardaga milli kommúnista og lögreglu á þessum árum, aðallega í vinnudeilum. Flokkurinn þáði fé á laun frá Moskvu og sendi þangað 23 Íslendinga í byltingarþjálfun og þrjá sjálfboðaliða til að berjast í borgarastríðinu á Spáni.

Brynjólfur og aðrir leiðtogar íslenskra kommúnista skiptu ekki um skoðun þótt þeir legðu flokk sinn niður haustið 1938 og stofnuðu ásamt ýmsum vinstrimönnum Sósíalistaflokkinn. Höfðu kommúnistar tögl og hagldir í hinum nýja flokki, eins og kom í ljós eftir árás Stalíns á Finnland í nóvemberlok 1939. Þá voru þeir ófáanlegir til að fordæma árásina og kallaði Brynjólfur mótmæli við henni „Finnagaldur“. Brynjólfur var fulltrúi Sósíalistaflokksins á þingi kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna 1952 og lauk ræðu sinni þar á orðunum: „Lifi kommúnistaflokkur Ráðstjórnarríkjanna, ágætur af verkum sínum, þar sem hið undirokaða mannkyn á allt sitt traust. Lifi hinn mikli foringi hans, Stalín.“ Eftir ferð til Kína haustið 1958 dáðist Brynjólfur sérstaklega að því að nú gætu allir satt hungur sitt þar eystra. Þá var að hefjast óskapleg hungursneyð í landinu.

Samkvæmt Svartbók kommúnismans, sem Háskólaútgáfan gaf út 2009, týndu um hundrað milljónir manns lífi af völdum kommúnismans á tuttugustu öld. Ef einhver rök eru til fyrir því að fjarlægja ekki brjóstmyndina af Brynjólfi þá þætti mér fróðlegt að heyra þau.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. febrúar 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.2.2019 - 11:44 - Rita ummæli

Ragnar Árnason

Miðvikudaginn 6. febrúar 2019 verður Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði, sjötugur. Hann er í röð fremstu fræðimanna Háskóla Íslands og ráðgjafi ríkisstjórna um heim allan á sérsviði sínu.

Af mörgu er að taka, en ég staldra einkum við tvö verk Ragnars. Annað er fræg ritgerð í Canadian Journal of Economics árið 1990, Minimum Information Management in Fisheries. Þar leiðir höfundur rök að því, að ýmsar þær aðferðir, sem stungið hafi verið upp á til að leysa samnýtingarvandann í fiskveiðum, krefjist meiri þekkingar en völ sé á. Hins vegar sé kerfi framseljanlegra aflakvóta tiltölulega einfalt í framkvæmd.

Hitt verkið er tvær rækilegar skýrslur, sem Ragnar átti aðalþáttinn í að semja fyrir Alþjóðabankann og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna árin 2009 og 2017, kenndar við Sunken Billions. Þar er bent á, að stórkostlegum verðmætum er kastað á sæ, af því að úthafsveiðar eru víðast stundaðar með of miklum tilkostnaði. Er mat Ragnars, að árleg sóun í sjávarútvegi heims sé á bilinu 51 til 105 milljarðar Bandaríkjadala.

Það er ekki síst ráðgjöf Ragnars að þakka, að í íslenskum sjávarútvegi hefur þróun komið í stað sóunar. En afmælisbarnið hefur skrifað um ýmis önnur efni, þar á meðal snjalla greiningu á jöfnunaráhrifum tekjuskatts, jafnvel þótt flatur sé. Ragnar er líka afburðafyrirlesari, skýr og rökvís. Á næstu dögum verður vinum hans og velunnurum boðið að rita nöfn sín á heillaóskalista í afmælisriti með helstu fræðigreinum hans, sem koma á út næsta vor, og þá heldur Félagsvísindasvið Háskóla Íslands einnig alþjóðlega ráðstefnu honum til heiðurs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. febrúar 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.1.2019 - 10:32 - 1 ummæli

Niður með fjöllin?

Ungur vinstrimaður flutti á dögunum jómfrúræðu á Alþingi. Hafði hann áhyggjur af því að í heiminum væru hinir ríku að verða sífellt ríkari og vitnaði í svokallaða fjalldalareglu bandaríska heimspekingsins Johns Rawls í túlkun Þorsteins Gylfasonar: „Fjöll mega ekki vera hærri né tignari en þarf til þess að dalirnir séu sem blómlegastir og byggilegastir.“ Regla Rawls var með öðrum orðum sú að það þjóðskipulag væri eftirsóknarverðast þar sem hinir verst settu væru sem best settir þegar til langs tíma væri litið.

Þessi ungi maður virðist ekki hafa skilið aðalatriðið í kenningu Rawls. Hann fjölyrti á Alþingi um hversu ofurríkir sumir væru orðnir, svo að taka þyrfti af þeim fé með ofursköttum. En Rawls hafði ekki áhyggjur af hinum ríku, heldur hinum fátæku. Rawls vildi þá og því aðeins jafna kjörin að hinir verst settu yrðu við það sem best settir. Hann spurði: Hvernig vegnaði þeim? Og sannleikurinn er sá að hinum fátæku hefur aldrei vegnað betur. Fátækt er almennt að snarminnka í heiminum. Hinir ríku eru að verða ríkari og hinir fátæku eru að verða ríkari. Dýrkeypt reynsla frá Venesúela sýnir einnig að hinir fátæku verða ekki ríkari við það að hinir ríku verði fátækari.

Þeir, sem hafa aðeins áhyggjur af hinum ríku, eru sekir um eina af höfuðsyndunum sjö, öfund. Það orð er komið af því að af-unna, geta ekki unnt öðrum einhvers. „Það er ekki nóg að mér gangi vel. Öðrum þarf að ganga illa,“ sagði W. Somerset Maugham. Eitt besta dæmið er úr Íslendingasögum. Hrafn Önundarson og Gunnlaugur Ormstunga kepptu um ástir Helgu hinnar fögru. Eftir harðan bardaga hjó Gunnlaugur fótinn af Hrafni, en sá aumur á honum og sótti honum vatn, eftir að Hrafn hafði heitið að gera honum ekki mein. Þegar Gunnlaugur kom með vatnið, lagði Hrafn til hans. „Illa sveikstu mig nú,“ sagði Gunnlaugur. „Satt er það,“ svaraði Hrafn, „en það gekk mér til þess, að ég ann þér ekki faðmlagsins Helgu hinnar fögru.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. janúar 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.1.2019 - 10:20 - 1 ummæli

Faðir velferðarríkisins

Lesa áfram »

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.1.2019 - 17:44 - Rita ummæli

Það bar hæst árið 2018

Heimarnir eru jafnmargir mönnunum, sagði þýska skáldið Heinrich Heine, og þegar ég horfi um öxl í árslok 2018, verður mér auðvitað starsýnt á það, sem gerðist í eigin heimi. Þar bar hæst, að ég skilaði í september skýrslu á ensku um bankahrunið 2008, en hana vann ég í samstarfi við nokkra aðra fræðimenn fyrir Félagsvísindastofnun að beiðni fjármálaráðuneytisins. Að baki henni lá mikil vinna, en ég stytti hana mjög að áeggjan Félagsvísindastofnunar. Skrifaði ég íslenskan útdrátt hennar í fjórum Morgunblaðsgreinum. Ég gaf út fjórar aðrar skýrslur á árinu, eina fyrir samtökin ACRE í Brüssel um alræðisstefnu í Evrópu og þrjár fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: Why Conservatives Should Support the Free Market; The Immorality of Spending Other People's Money; Challenges to Small States. Einnig birti ég ritgerðir á ensku í bókum og tímaritum. Allt er þetta eða verður brátt aðgengilegt á Netinu.

Ég flutti fyrirlestra um ýmis efni í Las Vegas, Brüssel, Kaupmannahöfn, Bakú, Tallinn, São Paulo, Ljubljana, Reykjavík og Kópavogi og ritstýrði þremur bókum, Til varnar vestrænni menningu eftir sex íslenska rithöfunda, Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmund G. Hagalín, Sigurð Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, Guðinn sem brást eftir ensk-ungverska rithöfundinn Arthur Koestler, Nóbelsverðlaunahafann André Gidé og fleiri og Framtíð smáþjóðanna eftir norska skáldið Arnulf Øverland.

Fyrir Íslendinga var þetta afmælisár: 100 ár voru frá fullveldinu og 10 ár frá bankahruninu, þegar fullveldinu var ógnað, ekki síst með Icesave-samningunum, sem íslenska þjóðin bar gæfu til að fella. Á alþjóðavettvangi ber hæst að mínum dómi, að Bandaríkin ætlast nú til þess af Evrópusambandinu, sem er jafnríkt þeim og jafnfjölmennt, að það axli sambærilegar byrðar til varnar vestrænu lýðræði og Bandaríkin hafa ein gert allt frá stríðslokum 1945. Ekki er fullreynt, hvort Evrópusambandið rís undir því, en hinir austrænu jötnar, Kína og Rússland, hrista mjög spjót þessi misserin.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. janúar 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.1.2019 - 17:42 - Rita ummæli

Löstur er ekki glæpur

Einn skemmtilegasti einstaklingshyggjumaður Bandaríkjanna á nítjándu öld var Lysander Spooner. Hann var ákafur baráttumaður gegn þrælahaldi og stofnaði bréfburðarfyrirtæki í samkeppni við bandaríska póstinn, þótt ekki tækist honum að raska einokun hans. Ein bók hefur komið út eftir Spooner á íslensku, Löstur er ekki glæpur. Þar leiðir höfundurinn rök að því, að ekki eigi að banna svonefnd fórnarlambalaus brot, þegar menn skaða aðeins sjálfa sig, ekki aðra. Dæmi um það gæti verið margvísleg ósiðleg og óskynsamleg hegðun eins og ofdrykkja og önnur fíkniefnaneysla, fjárhættuspil, hnefaleikar, vændi og klám. Hins vegar megi og eigi að banna brot, þar sem menn skaða aðra.

Thomas-Aquinas-Black-largeÍ grúski mínu á dögunum rakst ég á óvæntan bandamann Spooners. Hann er enginn annar en heilagur Tómas af Akvínas, dýrlingur og heimspekingur kaþólsku kirkjunnar. Hluti af miklu verki hans, Summa Theologica, hefur komið út á íslensku, Um lög. Þar segir heilagur Tómas (96. spurning, 2. grein): „Lög manna eru sett fjölda manna, sem að meiri hluta eru ekki fullkomlega dygðugir. Og þess vegna banna mannalög ekki alla þá lesti, sem dygðugir menn forðast, heldur einungis alvarlegri lesti, sem meiri hlutanum er fært að forðast, og einkum þá, sem eru öðrum til sársauka og sem eru þannig, að væru þeir ekki bannaðir, væri ekki unnt að viðhalda samfélagi manna; þannig banna mannalög morð, þjófnað og þess háttar.“ (Þýðing Þórðar Kristinssonar.)

Ég fæ ekki betur séð en dýrlingurinn hitti alveg í mark. Ríkið á fullt í fangi með að verja okkur gegn þeim, sem vilja skaða okkur, svo að það bæti ekki við því verkefni, sem því verður ætíð ofviða, að siða okkur til og koma í veg fyrir, að við sköðum okkur sjálf. Í því felst auðvitað ekki, að við leggjum blessun okkar yfir ósiðlega eða óskynsamlega hegðun, heldur hitt, að lítt framkvæmanlegt er að breyta henni til batnaðar með valdboði. Vænlegra er að reyna að gera það með fordæmi og þegar það dugir ekki til með fordæmingu og þó án viðurlaga.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. janúar 2019.)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 30.12.2018 - 06:48 - Rita ummæli

Rannsóknarskýrsla mín fyrir 2018

[Ég þarf að gera rannsóknarskýrslu fyrir Háskólann á hverju ári og fer hér í skýrslunni fyrir 2018 eftir flokkun hans:]

 

Alþjóðleg ritrýnd útgáfa og innlend ritrýnd útgáfa með alþjóðlega skírskotun:

Totalitarianism in Europe: Three Case Studies. Brüssel: ACRE [Alliance of Conservatives and Reformists in Europe] 2018.

 

Ritgerðir í ritrýndum erlendum fræðitímaritum:

Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson, Econ Journal Watch, 15. árg. 3. hefti, bls. 322–350.

 

Greinar í ritrýndum íslenskum tímaritum:

Erlendir áhrifaþættir bankahrunsins 2008. Þjóðmál, 14. árg. 4. hefti 2018, 70–73.

 

Greinar í ráðstefnuritum:

Two Germans in Iceland: The Jewess who Became an Icelander and the Nazi who Became a communist. Totalitarianism, deportation and emigration. Edited by Peter Rendek. Copyediting by Gillian Purves. Proceedings of the International Conference 2016: Viljandi, Estonia, June 28-30, 2016.

 

Erindi á alþjóðlegri ráðstefnu:

Lessons from the Icelandic Bank Collapse. Ráðstefna APEE, Association of Private Enterprise Education, Las Vegas 1.–5. apríl. 2018.

HHG.Brussels.ACRE.2018

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Green Capitalism. Erindi á umhverfisráðstefnu ACRE [Alliance of Conservatives and Reformists in Europe], Blue-Green Summit, í Brüssel 24. maí 2018.

IMG_0341

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

The Nordic Models. Fyrirlestur á ráðstefnu Atlas Network, European Liberty Forum, í Kaupmannahöfn 30. maí 2018.

Education for a Free Society. Erindi á ráðstefnu ACRE [Alliance of Conservatives and Reformists in Europe] í Bakú 9. júní 2018.

HHG.Tallinn.2018

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

A Spectre is Haunting Europe. Fyrirlestur á ráðstefnu Estonian Institute of Historical Memory 23. ágúst 2018.

The Nordic Countries: Prosperity Despite Redistribution. Erindi á alþjóðlegri ráðstefnu Students for Liberty, Brazil, São Paulo 13. október 2018.

Making them Heard: Voices of the Victims. Erindi á alþjóðlegri ráðstefnu, The Dark Side of the Moon: Dealing with the Totalitarian Past – Confrontations and Reflections, í Ljubljana 14. nóvember 2018.

 

Erindi á fræðilegu málþingi, málstofu eða fundi fyrir faghópa:

Frjálshyggjurnar eru jafnmargar frjálshyggjumönnunum. Erindi á leiðtoganámskeiði Samtaka frjálslyndra framhaldsskólanema og Students for Liberty í Kópavogi 13. janúar 2018.

Líftaug landsins. Erindi á ráðstefnu Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands um utanríkisviðskipti Íslendinga frá öndverðu 16. janúar 2018.

Alræði í Evrópu: Þrjár rannsóknir. Erindi á fundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála 26. apríl 2018.

HHG.Kópavogur.17.11.2018

 

 

 

 

Bankahrunið 2008. Erindi á morgunfundi Sjálfstæðisfélags Kópavogs 17. nóvember 2018.

 

Ritstjóri bókar:

Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Höfundar Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, Guðmundur G. Hagalín, Sigurður Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson. Formáli og skýringar eftir Hannes H. Gissurarson. Reykjavík: Almenna bókafélagið 2018.

 

Skýrslur:

HHG.Bjarni

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Foreign Factors in the 2008 Icelandic Bank Collapse. Skýrsla fyrir fjármálaráðuneytið. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands 2018.

Why Conservatives Should Support the Free Market. Brüssel: New Direction, 2018.

Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists. Brüssel: New Direction, 2018.

 

Fræðsluefni fyrir almenning. Blaðagreinar:

Því var bjargað sem bjargað varð: Davíð Oddsson og bankahrunið 2008. Morgunblaðið 17. janúar 2018.

Beiting hryðjuverkalaganna var Bretum til minnkunar. Morgunblaðið 26. september 2018.

Íslendingum var neitað um aðstoð, sem aðrir fengu. Morgunblaðið 27. september 2018.

Viðbrögð stjórnvalda við bankahruninu voru skynsamleg. Morgunblaðið 28. september 2018.

Framkoma sumra granna var siðferðilega ámælisverð. Morgunblaðið 29. september 2018.

Að fengnu fullveldi: Ísland eða Sovét-Ísland? Morgunblaðið 1. desember 2018.

 

Fræðsluefni fyrir almenning. Fróðleiksmolar:

Bókabrennur. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. janúar 2018.

Trump, Long og Jónas frá Hriflu. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. janúar 2018.

Líftaug landsins. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. janúar 2018.

Andmælti Davíð, en trúði honum samt. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. janúar 2018.

Spurning drottningar. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. febrúar 2018.

Hún líka. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. febrúar 2018.

Sartre og Gerlach á Íslandi. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. febrúar 2018.

Hann kaus frelsið. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. febrúar 2018.

Þrír hugsjónamenn gegn alræði. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. mars 2018.

Böðullinn drepur alltaf tvisvar. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. mars 2018.

Hádegisverður í Stellenbosch. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. mars 2018.

Heimsókn Øverlands. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. mars 2018.

Hvað segi ég í Las Vegas? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. mars 2018.

Málið okkar. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. apríl 2018.

Grafir án krossa. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. apríl 2018.

Þrjár örlagasögur. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. apríl 2018.

Skrafað um Laxness. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. apríl 2018.

Marx 200 ára. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. maí 2018.

Þokkafull risadýr. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. maí 2018.

Hvað segi ég í Brüssel? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. maí 2018.

Hvað segi ég í Kaupmannahöfn? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. maí 2018.

Skerfur Íslendinga. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. júní 2018.

Jordan Peterson. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. júní 2018.

Hvað sagði ég í Bakú? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. júní 2018.

Stolt þarf ekki að vera hroki. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. júní 2018.

Hvað er þjóð? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. júní 2018.

Knattspyrnuleikur eða dagheimili? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. júlí 2018.

Napóleonshatturinn og Hannes Hafstein. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. júlí 2018.

Söguskýringar prófessors.  Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. júlí 2018.

Þarf prófessorinn að kynnast sjálfum sér? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. júlí 2018.

Fyrir réttum tíu árum.  Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. ágúst 2018.

Engin vanræksla. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. ágúst 2018.

Hlátrasköllin voru vart þögnuð. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. ágúst 2018.

Hvað sagði ég í Tallinn?  Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. ágúst 2018.

Leynifundur hjá Hrunmangarafélaginu. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. september 2018.

Gylfi veit sínu viti. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. september 2018.

Þórbergur um nasistasöng. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. september 2018.

Villan í „leiðréttingu“ Soffíu Auðar.  Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. september 2008.

„Hollenska minnisblaðið.“  Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. september 2018.

Bankahrunið: Svartur svanur. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. október 2018.

„Ein stór sósíalistahjörð.“  Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. október 2018.

Hvað sagði ég á Stóru hundaeyju? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. október 2018.

Hvað sagði ég í Pálsborg postula? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. október 2018.

Í köldu stríði.  Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. nóvember 2018.

11. nóvember 1918. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. nóvember 2018.

Hvað sagði ég í Ljúbljana? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. nóvember 2018.

Prag 1948. Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. nóvember 2018.

Hvað hugsuðu þeir 1. desember 1918? Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. desember 2018.

Vegurinn og þokan.Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. desember 2018.

Þingmönnum útskúfað 1939.  Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. desember 2018.

Hrópleg þögn.  Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. desember 2018.

Heimur batnandi fer!  Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. desember 2018.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir