Á fyrra helmingi ársins 2019 flutti ég átta fyrirlestra opinberlega, sex þeirra erlendis. Hinn fyrsti þeirra var á ráðstefnu í Gdansk í Póllandi 22. mars um „bláa hagkerfið“, en Anna Fotyga, þingmaður á Evrópuþinginu og fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands, boðaði til ráðstefnunnar. Ég lýsti þar stuttlega kvótakerfinu íslenska, sem ég hef skrifað um tvær bækur á ensku, Overfishing: The Icelandic Solution, sem Institute of Economic Affairs gaf út í Lundúnum 2000, og The Icelandic fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út í Reykjavík 2015. Eru bæði ritin aðgengileg ókeypis á Netinu.
Eftir því sem árin hafa liðið, hef ég áttað mig betur á tveimur aðalatriðum kvótakerfisins, og reyndi ég að koma þeim til skila í þessum fyrirlestri. Annað er, hvaða munur er á ókeypis úthlutun seljanlegra aflaheimilda í upphafi eins og þeirri, sem framkvæmd var á Íslandi í áföngum 1979–1990, og opinberum leigumarkaði með aflaheimildir, eins og sumir hagfræðingar börðust fyrir á sínum tíma. Munurinn er, að fyrri aðferðin er hagfræðilega réttari, því að hún er Pareto-hagkvæm, sem kallað er. Breyting er Pareto-hagkvæm, ef enginn tapar og allir eða að minnsta kosti sumir græða á henni. Við ókeypis úthlutun græddi ríkið á hagkvæmari fiskveiðum. Þeir, sem héldu í aflaheimildir sínar og keyptu nýjar, græddu. Þeir, sem seldu aflaheimildir og hættu veiðum, græddu líka. En hefði fiskimiðunum verið lokað og aflaheimildir verið leigðar hæstbjóðendum, þá hefði ríkið að vísu grætt leigutekjurnar. Þeir, sem hefðu haft fjárhagslegt bolmagn til að leigja aflaheimildir, hefðu hvorki grætt né tapað, því að þeir hefðu notað það fé í að leigja aflaheimildir, sem þeir sóuðu áður í offjárfestingar. En þeir, sem hefðu ekki haft bolmagn til að leigja aflaheimildir, hefðu tapað, því að allar þeirra fjárfestingar hefðu í einni svipan orðið verðlausar.
Hitt aðalatriðið er, að enginn verðmætur réttur var tekinn af öðrum, þegar fiskimiðunum var lokað. Eini rétturinn, sem aðrir en kvótahafar voru þá sviptir, var rétturinn til að gera út á núlli, en fiskihagfræðin kennir okkur, að sú verður niðurstaðan, ef fiskimiðin eru opin öllum, því að þá aukast fiskveiðar að því marki, að kostnaður verður jafnmikill ávinningi. Þessi réttur er því eðli málsins samkvæmt verðlaus.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. júlí 2019.)

Árlega halda frjálslyndir menn og íhaldssamir í Bandaríkjunum, andstæðingar vinstri stefnu, eins konar uppskeruhátíð, bera saman bækur sínar og sýna kvikmyndir, í Las Vegas undir heitinu „Freedomfest“, frelsisveisla. Er hún mjög fjölmenn og fjölbreytni mikil í vali fyrirlesara og umræðuefna. Mér var boðið að halda þar fyrirlestur 17. júlí 2019 um „grænan kapítalisma“, en um hann skrifaði ég bókarlanga
Eitt meginhlutverk vísindanna er að gera greinarmun á sýnd og reynd, skynveruleika og raunveruleika. Það er að endurskoða og leiðrétta þá mynd af veruleikanum, sem við fáum fyrir tilstilli skynfæranna. Jörðin sýnist til dæmis flöt, en er í raun hnöttótt. Annað dæmi er munurinn á nafnvöxtum og raunvöxtum: Ef maður tekur lán á 5% vöxtum í 3% verðbólgu, þá eru raunvextir 2%, þótt nafnvextir séu 5%.
Þótt furðulegt sé, átti Josíf Stalín marga vini í Norðurálfunni um miðja tuttugustu öld. Hér á landi voru þeir raunar fleiri en víðast annars staðar. Flokkur þeirra, sem hafði kastað kommúnistanafninu og kenndi sig við sósíalisma, fékk nær fimmtung atkvæða í þingkosningum 1946 og 1949. Naut hann rausnarlegra, en leynilegra framlaga frá Moskvu, sem auðveldaði honum að reka voldug útgáfufyrirtæki og kosta verkföll í stjórnmálaskyni. Andstæðingarnir sættu ofsóknum og útskúfun, ef og þegar til þeirra náðist, ekki síst rithöfundar. Eins og Þór Whitehead prófessor lýsir í smáatriðum í bókinni Sovét-Íslandi, óskalandinu, beittu kommúnistar ekki aðeins ofbeldi í vinnudeilum, heldur reyndu líka með öllum ráðum að koma í veg fyrir Keflavíkursamninginn 1946. Þeir létu svívirðingar ekki duga, heldur veittust að ráðamönnum á götum úti og fóru að heimilum þeirra.
Á dögunum rakst ég á skopteikningu, þar sem þjónn gengur með epli á bakka að borði, og sitja þar ýmsar kunnar söguhetjur. Fyrst skal telja þau Adam, Evu og höggorminn. Þegar höggormurinn hafði vélað Adam og Evu til að eta af skilningstrénu, kallaði Drottinn til Adams: „Hvar ertu?“ Adam varð svo hræddur, að ávöxturinn stóð í honum og Adamseplið myndaðist. Önnur saga er um þrætueplið, sem falla átti í skaut fegurstu gyðjunni grísku, og Paris af Tróju veitti Afrodítu, eftir að honum hafði verið lofuð Helena hin fagra frá Spörtu. Samkvæmt norrænni goðafræði áttu epli Iðunnar að veita goðunum eilífa æsku, þótt ekki væri ásynjan raunar sýnd á skopteikningunni, kveikju þessa mola.
Grossman lauk við Líf og örlög 1960, fjórum árum áður en hann féll frá, ekki orðinn sextugur. Sögusviðið er að nokkru leyti Stalínsgarður 1943, þar sem alræðisríkin tvö, Þýskaland Hitlers og Rússland Stalíns, börðust upp á líf og dauða. Höfundur lætur þá skoðun oftar en einu sinni í ljós, að nasismi og kommúnismi séu greinar af sama meiði. Hann veltir mjög fyrir sér því furðulega fyrirbæri tuttugustu aldar, að menn fremja hryllilega glæpi í nafni háleitra hugsjóna. Ein söguhetjan, rússneski stríðsfanginn Pavljúkov, átti sér hins vegar hversdagslegan draum:
Hið nýja átrúnaðargoð jafnaðarmanna, franski hagfræðingurinn Thomas Piketty, telur fjármagn hlaðast upp í höndum örfárra manna, svo að leggja verði á alþjóðlega ofurskatta, 80% hátekjuskatt og 5% stóreignaskatt. Máli sínu til stuðnings þylur hann í bókinni Fjármagni á 21. öld tölur um þróun eigna- og tekjudreifingar í mörgum vestrænum löndum, þar á meðal Frakklandi, Bretlandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð. Að baki þeim liggja að hans sögn margra ára rannsóknir.
Þegar sú saga er hins vegar lesin, sést, að hún er ekki um það, að auðurinn festist í höndum einstakra manna, heldur einmitt um hitt, hversu fallvaltur hann sé. Goriot var auðugur kaupmaður, sem elskaði dætur sínar tvær út af lífinu og hafði afhent þeim nær allt sitt fé. Hann er dæmi um mann, sem lætur ástríður ráða, ekki fégirnd. Dætur hans, sem giftust aðalsmönnum, eru báðar í fjárhagsvandræðum, því að friðlar þeirra eru þurftafrekir, en eiginmennirnir naumir á fé. Grípur önnur þeirra til þess óyndisúrræðis að hnupla ættardýrgripum eiginmannsins og selja.
Nýlegar athugasemdir