Þegar líður að forsetakjöri, má rifja upp sögu, sem minn góði vinur Matthías Johannessen, sem nú er nýlátinn, sagði stundum. Árið 1967 var vitað, að Ásgeir Ásgeirsson forseti myndi ekki gefa kost á sér til kjörs árið 1968, en tengdasonur hans, Gunnar Thoroddsen sendiherra, hafði að sögn hug á embættinu. Um haustið var rætt um hugsanlega frambjóðendur aðra, og var nafn Halldórs Laxness iðulega nefnt. Hann var talinn fremsti fulltrúi íslenskrar menningar, og hefði hann farið fram, hefðu ráðamenn átt erfitt með að styðja hann ekki. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra bað Matthías því að kanna viðhorf Laxness. Matthías fór upp á Gljúfrastein og bryddaði upp á þessu við skáldið, sem varð undrandi (eða gerði sér upp undrun), en vísaði framboði kurteislega frá sér.
Síðar um haustið kom út greinasafn eftir Laxness, Íslendingaspjall, þar sem hann vandaði Guðmundi Í. Guðmundssyni utanríkisráðherra ekki kveðjur, en Guðmundur hafði verið sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu: „Í þessu lögsagnarumdæmi mínu höfðum við syÌslumann sem sjálfsagt hefur í upphafi verið ekki ógeðslegur maður, þó marklaus með öllu, en skapari hans hafði klúðrað á hann tréhendi svo alt sem hann kom nærri varð að axarskafti.“ Laxness nefndi ekki ástæðuna til fjandskapar síns: Hann hafði orðið uppvís að því að stinga undan skatti verulegum tekjum frá útlöndum árið 1946 og Guðmundur sýslumaður orðið að innheimta skattaskuldina. Eftir útkomu bókarinnar sagði Bjarni með breiðu brosi við Matthías: „Það var eins gott, Matthías minn, að Laxness vildi þetta ekki. Hugsaðu þér ástandið, ef forsetinn hefði skrifað aðrar eins skammir um utanríkisráðherrann.“
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. apríl 2024.)
Nýlegar athugasemdir