Mánudagur 29.1.2018 - 22:18 - FB ummæli ()

Þeir sem minna mega sín

Það er algengt í umræðunni að nota orðalagið „þeir sem minna mega sín“ og er þá stundum verið að vísa til fólks sem hefur minni fjárhagslega burði en aðrir. Ég átti samtal við konu nýlega þar sem við ræddum þetta. Hún kom með hlið á málinu sem mig langar að velta upp.

Hvers vegna gera sumir ráð fyrir því að fólk sem hefur minni fjárhagslega burði séu þeir sem „minna mega sín“? Að hvaða leyti mega þau sín minna? Það er staðreynd að þeir sem standa illa fjárhagslega hafa ekki möguleika á ákveðnu öryggi og lífsgæðum sem fjármunir skapa en getur verið að þeir einstaklingar megi sín meira en margir aðrir í ýmsum aðstæðum? Getur verið að þeir búi yfir auðæfum sem margir sem vita ekki aura sinna tal búa ekki yfir?

Einföldum við hlutina stundum of mikið þegar við gerum ráð fyrir því að fólk sem stendur illa fjárhagslega séu þau sem „minna mega sín“? Getur verið að þetta orðalag endurspegli þá hugsun okkar að fjármagn sé ávísun á velgengni og jákvæða eiginleika. En er það svo? Eftir hrunið bendir ýmislegt til þess að margir sem slógu hvað mest um sig þar voru í raun ekki menn sem meira máttu sín. Það voru ef til vill þeir sem minna máttu sín þegar öllu er á botninn hvolft.

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 3.12.2017 - 11:33 - FB ummæli ()

Ráð á aðventunni til að draga úr streitu

Í upphafi aðventu langar mig til þess að rifja upp nokkur góð atriði sem komu fram í stuttum pistli sem blaðakonan Sólveig Gísladóttir skrifaði árið 2013 í tengslum við viðtal sem hún tók við mig. Þar vorum við að velta fyrir okkur hvað skiptir mestu máli í aðdraganda jóla og um jól til að njóta þeirra sem best og ekki síst til þess að draga úr streitu.

Mynd af Kristbjörgu Þórisdóttur sálfræðingi

Kristbjörg Þórisdóttir sálfræðingur

Best er að byrja snemma að skipuleggja, stilla væntingum í hóf og gera ekki óhóflegar kröfur á sjálfan sig og aðra til að jólahátíðin verði sem best heppnuð. Gott er að rifja upp hverjar eru bestu jólaminningar þínar þegar þú veltir fyrir þér hvernig jól þú vilt halda fyrir þína fjölskyldu. Þegar fólk vex úr grasi áttar það sig stundum á því að það vill ekki halda áfram einhverjum venjum eða atriðum úr sinni æsku. „Þá væri einnig hægt að velta fyrir sér þessari spurningu: „Hvað myndi ég gera ef þetta væru síðustu jólin mín?“ Það sýnir okkur hvað er í forgangi.

Desember er yfirleitt annasamur mánuður hjá flestum, bæði í vinnu og einkalífi. Sumt sem við gerum í aðdraganda jóla og um jól getur aukið verulega á streituna og því mikilvægt að reyna að draga úr streitu svo mögulegt verði að njóta hátíðarinnar sem best. Hér að neðan eru nokkur gagnleg atriði.

 • Forðastu að gera þér óraunhæfar væntingar. Til dæmis varðandi matinn, eigin líðan, útlit, gjafir, hvernig aðrir og þú sjálfur átt að vera. Dragðu úr væntingunum og leyfðu jólunum að koma.
 • Vertu raunsær. Við höfum ekki tíma til að gera allt og ekki peninga til að framkvæma og kaupa allt sem okkur langar til.
 • Forðastu að gera smámuni að aðalatriðum jólanna. Ekki örvænta þótt þú þurfir að sleppa jólakortunum eitt árið eða ef gólfin voru ekki bónuð.
 • Byrjaðu snemma að undirbúa jólin. Jólaundirbúningur sem hefst á síðustu stundu veldur óhjákvæmilega streitu og uppnámi.
 • Skrifaðu lista yfir allt sem þú vilt gera fyrir jólin og byrjaðu strax á því að strika helminginn út. Flokkaðu úr það sem skiptir mestu máli.
 • Finndu hvað jólin eru fyrir þér, hvaða þýðingu þau hafa og hvaða minningar eru þér kærastar frá jólum.
 • Forðastu að láta auglýsingar segja þér hvað þurfi til að halda hin fullkomnu jól. Dýrir tónleikar eða risavaxnar gjafir geta vissulega glatt þá sem hafa ráð á því en gott er að muna að það er ekki kjarni hins sanna jólaanda.
 • Pör geta haft mismunandi hugmyndir um jólahald. Gerið málamiðlanir og blandið saman jólahefðum úr báðum áttum.
 • Jólin geta verið mörgum erfiður tími. Þeim sem líður illa líður oft enn verr á jólum. Jólin eru tími til að huga að náunganum og gefa af okkur til þeirra sem þurfa á okkur að halda.
 • Hugaðu vel að börnunum og búum til góðar minningar fyrir þau. Erfitt er fyrir jólaandann að birtast þegar andrúmsloftið er þrúgað af streitu og kvíða yfir væntingum sem ekki er hægt að uppfylla. Fyrir barn getur mikilvægasta minningin verið stund með fjölskyldunni þar sem glaðst er saman t.d. í göngutúr eða yfir spilum.
 • Notaðu tímann í desember til að líta yfir farinn veg og fram á veginn. Ákveddu hvaða reynslu og minningar þú vilt taka með þér inn í nýtt ár og hvernig þú vilt breyta til betri vegar.
 • Njóttu augnabliksins og mundu að það þarf lítið til að mynda jólastemningu. Kveiktu á kerti, bakaðu eina sort, hitaðu kakó og spilaðu huggulega tónlist.
 • Mundu að klisjan um að hugurinn skipti mestu máli þegar gefnar eru gjafir, stendur alltaf fyrir sínu.

Upphaflegu greinina má finna á þessum hlekk hér.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 30.11.2017 - 23:51 - FB ummæli ()

Kosningaloforð og stjórnarsáttmáli

Ég óska nýrri ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur velfarnaðar. Ég hef lengi séð Katrínu Jakobsdóttur fyrir mér sem forsætisráðherra og gleðst yfir að upplifa það raungerast. Ég bind vonir við að hér sé komin fram ríkisstjórn sem geti setið næstu árin og unnið markvisst að uppbyggingu sterkara samfélags sem skapar okkur öllum betri lífsgæði. Ég get ekki sagt að ég sé fullkomlega sátt við allt sem er í sáttmálanum eða allt ráðherraliðið en ég er mjög sátt við heildarniðurstöðuna. Mér hefði þótt fara vel á því að konur hefðu verið í meirihluta ráðherraliðsins þar sem þeim fækkaði verulega á þingi. Það hefði verið gott mótvægi því við viljum auðvitað að löggjafar- og framkvæmdavaldið endurspegli samsetningu þjóðarinnar. Ég er sérstaklega ánægð með nokkur atriði í sáttmálanum sem ég hef persónulega barist fyrir og má þar nefna til dæmis:

 • Geðheilbrigðisáætlun til 2020 verður hrint í framkvæmd og hún fjármögnuð.
 • Ríkisstjórnin hyggst setja fram aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota.
 • Öflug löggæsla er ein af forsendum þess að öryggi borgaranna sé tryggt. Drög að nýrri löggæsluáætlun fyrir Ísland liggja fyrir þar sem tekið er á öryggisstigi, þjónustustigi, mannaflaþörf og fjárveitingum. Ljúka þarf gerð þessarar áætlunar og vinna í samræmi við hana.
 • Styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir. Sérstaklega þarf að huga að stöðu barna sem búa við fátækt en þau eru einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins.
 • Lenging fæðingarorlofs og hækkun orlofsgreiðslna í fæðingarorlofi.
 • Frítekjumark atvinnutekna aldraðra verður hækkað í hundrað þúsund krónur um næstu áramót
 • Ljúka þarf lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) og breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur.
 • Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs.
 • …yfirfara reglur um hagsmunaskráningu bæði ráðherra og þingmanna með hliðsjón af ábendingum og alþjóðlegum viðmiðum.
 • Ráðist verður í langtímaátak gegn einnota plasti með sérstakri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og hreinsun plasts úr umhverfi lands og stranda.

Hér að neðan má sjá nokkur af mínum helstu baráttumálum sem ég kynnti fyrir kosningar:

 • Uppbygging geðheilbrigðiskerfisins með áherslu á aðgengi almennings að bestu mögulegu meðferð. Meðal annars þjóðarátak gegn sjálfsvígum.
 • Stórátak gegn ofbeldi og samþykkja heildstæða framkvæmdaáætlun gegn ofbeldi í samfélaginu.
 • Lenging fæðingarorlofs og stytting vinnuvikunnar.
 • Lögfesting NPA.
 • Betri stjórnarskrá.
 • Áhersla á forvarnir á öllum sviðum samfélagsins.
 • Efling lögreglunnar.
 • Draga úr notkun á plasti.

Ég er bara nokkuð sátt með að flest af því sem ég barðist fyrir er í einhverjum mæli í nýjum stjórnarsáttmála. Ég hefði viljað sjá kveðið fastar að orði varðandi ákveðin mál eins og t.d. afnám verðtryggingar en tel þó betra að lofa minna og efna meira og tel sums staðar sé farið of varlega eins og varðandi breytingar á heilbrigðiskerfinu þar sem sagt er að það eigi að: „skoða þá þætti sem eru ekki hluti af því, t.d. ferða- og uppihaldskostnað, tannlækningar og sálfræðiþjónustu“.

Ég get sagt út frá minni þekkingu að það þarf ekkert að skoða sálfræðiþjónustuna lengur því það er búið að gera það í áratugi, skrifa um það ótal greinar, halda um það óteljandi ræður og öll rök mæla með því að bjóða almenningi upp á bestu mögulegu meðferð við geðrænum vanda. Samkvæmt klínískum leiðbeiningum á að bjóða fólki sálfræðimeðferð áður en hugað er að lyfjameðferð. Almenningur hefur lengi kallað eftir þessu, þetta er hluti af uppbyggingu geðheilbrigðiskerfisins og nú er tími framkvæmda. Ég mun að sjálfsögðu berjast fyrir þessu áfram eins og ég hef gert síðastliðin 10 ár og get lofað því að ég hætti ekki fyrr en þetta mál siglir í höfn. Að mínu mati á það að gerast á þessu kjörtímabili.

Nú hafa mörg kosningaloforðin skilað sér inn í stjórnarsáttmála. Næsta skref er að aðgerðabinda öll þau verkefni sem hann inniheldur, útfæra þau og leggja þau fram sem verkefnalista. Reglulega ætti að gera stöðumat á þessum verkefnum, kynna fyrir kjósendum og sjá hvernig stjórnarsáttmálinn raungerist sem umbætur á íslensku samfélagi. Þannig stýrum við þjóðarskútunni á farsælan og árangursríkan hátt næstu fjögur árin í samstarfi um sterkara samfélag.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 25.11.2017 - 00:26 - FB ummæli ()

Byltingin er rétt að byrja

Í kvöld sótti ég gleðihitting kvenna úr öllum stjórnmálaflokkum sem haldinn var á vegum hópsins Í skugga valdsins. Þarna voru konur úr öllum flokkum, úr ólíkum stöðum innan stjórnmálanna og á ólíkum aldri. Yngsti þátttakandinn var nokkurra mánaða gömul. Byltingin er hafin. Hún er löngu hafin. Hún hefur smám saman verið að losna úr læðingi og nú er allt komið á fulla ferð.

Konur hér á landi hafa stigið fram í hverri byltingunni á fætur annarri, í Druslugöngunni, sagt sögur sínar á Beauty tips vefsíðunni, undir myllumerkjunum #höfumhátt #metoo #ískuggavaldsins og ýmsum öðrum. Byltingin er ekki bara hér á landi því hún á sér stað um allan heim.

Konur hafa sagt upp feðraveldinu. Við erum ekki til skrauts frekar en karlmenn en við getum verið fallegar rétt eins og karlmenn. Við höfnum kynferðislegri áreitni og við höfnum kynbundnu ofbeldi með öllu, bæði gagnvart konum og körlum. Konur rétt eins og karlar njóta þess að fá falleg hrós og finna fyrir hlýju. Það skiptir hins vegar máli hvort það sé viðeigandi. Sá sem ekki getur greint á milli kynferðislegrar áreitni og hróss eða hlýju ætti bara að sleppa því að reyna.

Komum fram við hvert annað af virðingu. Förum ekki yfir mörk hvers annars. Við vitum yfirleitt alveg hverja við viljum faðma og hverja ekki. Maðurinn minn má klípa mig í rassinn en aðrir mega það ekki. Það er ekki flóknara en það. Það eru mín mörk og ég hef fullt leyfi eins og hver önnur manneskja til þess að setja þau. Höfum líka í huga að þegar við förum yfir mörk annars fólks þá getur það kallað fram mikla vanlíðan t.d. fyrir konu sem orðið hefur fyrir kynferðisofbeldi. Umræðan ein og sér getur verið mikil áskorun fyrir þær sem þolað hafa ofbeldi.

Mikilvægt er að hafa í huga að líklega koma alvarlegustu atvikin ekki fram i þessum sögum. Sú menning sem við viljum uppræta er hins vegar jarðvegur fyrir þau. Af umræðunni sé ég að sumir karlar og meira að segja konur gera lítið úr sumum sögunum. Þetta sé nú ekki neitt, það megi bara ekkert lengur. Ein athugasemd sem ég sá í kvöld var: t.d. svona

„Ragnhild Hansen · Akureyri: EF AÐ þetta er nu öll kynferðislega áreitnin og að menn megi ekki segja orð við konu á lettu nótuunum þá sja nu allir „KLIKKUNINA“…..“

Fólk ætti að fara varlega í að dæma. Þessar sögur segja ekki alla söguna. Þeirra hlutverk er eingöngu að veita ákveðna innsýn.

Með því að berjast hjálpum við vonandi þeim sem geta það ekki þessa stundina. Með því að segja sögur okkar erum við að hefja byltingu og breyta samfélaginu. Við erum að uppræta samfélag þar sem karlar taka sér það vald að halda konum niðri með því að beita þær ofbeldi, áreita þær eða gera lítið úr þeim. Konur eru jafnvígar körlum og það á að endurspeglast í samfélaginu í heild sinni. Það á að endurspeglast í stjórnmálaflokkunum.

Byltingin er líka gerð til þess að opna augu þeirra sem hafa ekki gert sér grein fyrir áhrifum gjörða sinna. Sumt af því sem konur segja frá er ekki hegðun sem hefur neikvæða ætlun. Síðast en ekki síst er byltingin mikilvæg til að opna augu kvenna sjálfra því okkar viðbrögð skipta mestu þegar við verðum fyrir áreitni, kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Við eigum aldrei að taka ábyrgð á hegðun annarra og sitja uppi með skömmina. Við eigum að svara slíkri hegðun og skila skömminni samstundis.

Ég ætla að berjast áfram og taka þátt í þessari byltingu. Fyrir sjálfa mig, fyrir allar konur sem ég þekki og síðast en ekki síst fyrir yngsta þáttttakandann í kvöld sem mun kannski feta veg stjórnmálanna. Ég vil að hún upplifi ekki það sama og við höfum upplifað.

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 23.11.2017 - 00:05 - FB ummæli ()

Í skugga valdsins

“Það verður munur þegar þú kemst inn á þing, þá verður eitthvað fallegt að horfa á í ræðustól Alþingis”. Þetta sagði ungur karlmaður við mig. Er það hlutverk þingkvenna að vera fallegar í ræðustól fyrir karla að horfa á? Yrði þetta einhvern tíma sagt við karlkyns frambjóðanda?

Mæti í grænum kjól á viðburð í tengslum við nýafstaðnar kosningar. Eldri maður kemur að mér og segir: „Vertu sem mest í þessu græna pilsi í kosningabaráttunni“ með ákveðinn svip. Fór ekki í þennan kjól eftir það! Yrði einhvern tímann sagt við karlkyns frambjóðanda „vertu sem mest í þessum grænu buxum“?

Fór í vinnustaðaheimsókn með oddvita framboðsins (ég skipaði 2. sætið) á karlavinnustað. „Flott hjá þér að hafa eina svona fallega með þér“. Ég svaraði: „Ég er nú ekki í þessu til þess að vera til skrauts“. Yrði einhvern tímann sagt við konu sem væri oddviti um karl í öðru sæti: „Flott hjá þér að hafa einn svona fallegan með þér“?

Vinnustaðaheimsókn á karlavinnustað að dreifa bæklingum með mynd af oddvita framboðsins ásamt formanni og varaformanni flokksins. „Af hverju er ekki mynd af þér þarna? Þú ert miklu sætari heldur en…“. Yrði einhvern tímann sagt við karlkyns frambjóðanda: „Af hverju er ekki mynd af þér þarna? Þú ert miklu sætari heldur en Jói…“.

Ég fékk tölvupóst fyrir nokkrum árum frá áhrifamiklum þingmanni flokksins sem fór fram á afsögn mína úr því embætti sem ég skipaði innan flokksins vegna þess að hann taldi mig (ranglega) bera ábyrgð á frétt sem honum líkaði ekki. Hann bað mig svo afsökunar. Síðar kom í ljós að hann hefði tilkynnt formanni flokksins og framkvæmdastjóra að hann hefði farið fram á leiðréttingu á fréttinni, hellt sér yfir nánustu samstarfskonu mína og tilkynnt að ef þetta yrði ekki gert hefði hann veiðileyfi á mig og hygðist nota það. Myndi kona einhvern tímann fara fram á afsögn og gefa sér veiðileyfi á karlmann í sama flokki vegna einhvers sem hún teldi viðkomandi karl hafa gert án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því? Hvað ætli það þýði að hafa veiðileyfi á aðra manneskju?

Var á ferð með hóp í tengslum við stjórnmálin úti á landi þegar ákveðið var að fara á ball. Við vorum öll keyrð í rútu. Ég kom inn í rútuna og þar voru engin sæti laus. Þá grípur einn þingmaður flokksins (giftur) í mig og skellir mér í fangið á sér um leið og hann segir „hún er sætasta stelpan á ballinu“!

Ég hafði talað mikið fyrir baráttumálum fatlaðs fólks þegar ég var að hefja þátttöku mína í stjórnmálum þá 28 ára. Ég fékk vinabeiðni frá manni í hjólastól sem ég hugsaði að hefði sennilega áhuga á því að fylgjast með baráttumálum mínum á þessu sviði. Þangað til að hann sendi mér skilaboð eftir miðnætti á laugardagskvöldi og spyr mig m.a. hvort ég sé í sokkum! Ég sagði honum að ég myndi eyða honum út af vinalistanum.

Annar maður fór að senda mér ýmis skilaboð og ég taldi hann vilja hafa samskipti við mig vegna stjórnmálanna því ég vissi að tengingin væri þar og taldi að þess vegna hefði hann sent mér vinabeiðni. Þangað til að hann fór að reyna að bjóða mér út að borða. Ég afþakkaði og sagði honum að fyrir það fyrsta þá væri hann 18 árum eldri og í öðru lagi þá væri hann giftur.

Í nýafstaðanni kosningabaráttu fékk ég ýmsar skeytasendingar frá nokkrum karlmönnum meðal annars í gegnum samskiptamiðla. Þeir höfðu samband seint á kvöldin, voru að spyrja mig hvað ég væri að gera og að minnsta kosti einn reyndi nokkrum sinnum að hringja í gegnum facebook. Þessir aðilar voru ekki að senda inn neinar athugasemdir sem tengdust framboði mínu og af síðunni minni sést vel að ég er í sambandi.

Við vorum nokkur á vinnufundi úti á landi. Um kvöldið var eldaður góður matur og fengið sér í glas. Þegar leið á kvöldið og allir voru að tygja sig í háttinn kemur karlmaður úr hópnum að mér (giftur og talsvert eldri en ég) tekur utan um báðar kinnarnar á mér og reynir að stýra höfðinu á mér að munninum á sér um leið og hann segir „mig langar að kyssa þig“. Ég náði einhvern veginn að snúa honum frá á mjög kurteisilegan hátt (held hann hafi samt kysst mig á kinnina) .

Í nýafstöðnum kosningum hitti ég hóp þeirra sem höfðu unnið í baráttunni. Þar hélt ég stutta ræðu sem var á tilfinningalegum nótum þegar karlmaður í hópnum lætur eins og hann sé að fara að gráta undir ræðunni og tókst þannig að slá mig út af laginu. Þegar við komum svo á kosningavökuna elti hann mig um, tók nokkrum sinnum óumbeðið utan um mig og var með alls kyns skipanir um það hvar ég ætti að standa til þess að ég sæist í mynd og annað og sagði mér að ég ætti ekki að vera svona hlédræg! Í stað þess að confronta hann og segja honum að mér þætti þetta óþægilegt og ég hefði engan áhuga á nærveru hans þá reyndi ég að leiða hann hjá mér sem gekk mjög illa því hann hélt bara áfram. Ég beið svo bara eftir að maðurinn minn kæmist til mín því þegar hann var kominn þá lét þessi aðili mig vera.

Það er frekar magnað þegar kona leiðir hugann að þessum málum hvernig minningarnar koma fram ein af annarri og sögurnar verða sífellt fleiri og það er sláandi að átta sig á því hvernig ég hef ýtt þeim til hliðar eins og einhverju sem skiptir engu máli. Sumt af þessu skilgreini ég sem áreitni, annað kynferðislega áreitni og ákveðin atriði lýsa hreinum yfirgangi karlmanna. Inn á milli í mínum reynsluheimi eru atriði sem er túlkunaratriði hvað um er að vera. Kannski var það áreitni, kannski var það eitthvað sem var vel meint en kom illa út. Það veit ég ekkert um. Ég veit hinsvegar að í mörgum þessara tilvika fann ég fyrir skömm, varð hissa og fór úr jafnvægi. Það sem ég er mest hissa á þegar ég rifja þetta upp eru mín eigin viðbrögð. Hvers vegna í ósköpunum lét ég svona framkomu yfir mig ganga án þess að stöðva þá strax á staðnum? Ég held að í sumum þessara atvika hafi ég ekki viljað vera með vesen því þessi atvik eiga sér stað þar sem á að ríkja gleði og gaman í hópi fólks. Með því að skammast mín er ég að taka ábyrgð á hegðun þessara aðila sem ég hafði enga stjórn á. Skömmin er ekki mín og henni er ég að vissu leyti að skila með þessum skrifum til þeirra sem hana eiga. Í mínum huga skiptir ekki öllu máli að hrópa á torgi hver gerði hvað. Þeir vita það sem þetta eiga. Aðrir þurfa ekki að hafa áhyggjur af sinni hegðun og flestir karlmenn eru til fyrirmyndar. Mér finnst skipta máli að við konur deilum þessum sögum á hvaða hátt sem hentar hverri og einni því þær opinbera menningu sem við viljum breyta. Þessi menning heldur konum niðri, dregur úr möguleikum þeirra á því að standa til jafns við karlmenn í því hlutverki sem skiptir máli að þær sinni sem er að stjórna hér landinu og sveitastjórnum eða taka þátt að öðru leyti öllum til farsældar. Það gengur betur þegar konur eru til jafns við karla við völd og þess vegna skiptir þetta okkur öll máli.

Að lokum ætla ég að deila nokkrum myndum. Ég er varaþingkona og sumum finnst þessar myndir kannski ekki við hæfi fyrir konu í þeirri stöðu sem er að kynna sig. „Sjálfsagt finnst sumum engu skipta hvernig myndir fólk í stjórnmálum notar til að kynna sig. Dæmi hver fyrir sig.“ (Ragnar Önundarson, 2017).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 29.10.2017 - 10:24 - FB ummæli ()

Þakkir

Ég vil óska okkur framsóknarfólki til hamingju með afar góðan árangur. Við tvöfölduðum fylgið okkar á nokkrum dögum og náðum að tryggja það að þjóðin geti áfram notið krafta Lilju Daggar Alfreðsdóttur og Willums Þórs Þórssonar. Þeim ásamt öðrum nýkjörnum þingmönnum Framsóknar vil ég óska sérstaklega til hamingju. Við háðum heiðarlega og málefnalega baráttu og unnum mjög þétt saman sem ein sterk heild. Það er sennilega okkar mesti sigur að ná að halda ótrauð áfram þrátt fyrir verulegar áskoranir og uppskera eins og við sáðum til sem öflug liðsheild framsóknarfólks sem aðrir vilja fylgja, treysta og líður vel með. Lilja og Sigurður Ingi leiddu þessa góðu baráttu. Öllu því fólki sem unnu fyrir okkur og studdu vil ég þakka alveg innilega fyrir. Þessi sigur vannst vegna okkar allra! Enginn vinnur neitt einn, það er heildin sem gerir það.

Ég hefði gjarnan viljað ná kjöri sem þingkona því minn eldmóður í stjórnmálum hefur aldrei verið meiri og ég var tilbúin að ráðast strax í þau verkefni sem brenna á mér. Ég náði hins vegar kjöri sem varaþingkona og hlakka til að halda mína jómfrúarræðu. Ykkur sem studduð mig vil ég þakka alveg einlæglega fyrir að hafa trú á mér. Ykkur sem studduð mig en greidduð mér ekki atkvæði ykkar hvet ég til þess að gera það næst því með ykkar atkvæðum hefðu ég og mínar hugsjónir getað náð kjöri. Ég segi næst því eins og hugur minn liggur núna þá hugsa ég „minn tími mun koma“ :).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 27.10.2017 - 23:48 - FB ummæli ()

Kosningaloforð

Kristbjörg Þórisdóttir skipar 2. sæti fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi

Kæru vinir,

á morgun göngum við til kosninga. Kosningar eru lýðræðishátíð þar sem við tökum ákvörðun um hvert skuli stefnt næstu fjögur árin og hver verði við stjórn.

Ég gef kost á mér til setu á Alþingi Íslendinga. Ég get lofað því að ég mun leggja mig fram við að vinna fyrir alla íbúa landsins. Ég mun nálgast viðfangsefnin út frá grunngildum Framsóknar um samvinnu, félagshyggju og jöfnuð.

Mínar hugsjónir í stjórnmálum snúa meðal annars að velferðarmálum, menntamálum, umhverfismálum og lýðræðismálum.

Ég legg sérstaka áherslu á uppbyggingu geðheilbrigðiskerfisins, forvarnir, átak gegn ofbeldi, þjóðarátak gegn sjálfsvígum, málefni fatlaðs fólks, öfluga löggæslu, betri stjórnarskrá og ábyrga umgengni um sameiginlegar auðlindir.

Ég bið um stuðning þinn á morgun.

Þitt atkvæði getur einnig verið það atkvæði sem tryggir Lilju Dögg Alfreðsdóttur oddvita Framsóknar í Reykjavík suður inn á þing en við getum öll verið sammála um afburðahæfileika hennar sem íslenskrar stjórnmálakonu og mikilvægi þess að hún nái kjöri.

X-B.

Með hátíðarkveðju,

Kristbjörg Þórisdóttir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 27.10.2017 - 16:56 - FB ummæli ()

Fyrstu 1000 dagarnir

Eitt það skemmtilegasta, áhugaverðasta og gagnlegasta sem frambjóðendur gera í kosningabaráttu er að fá að fara í alls kyns heimsóknir til fólks, fyrirtækja og stofnana.

Í gær fór ég til fundar við starfsfólk Miðstöðvar foreldra barna (MFB) og Öyrkjabandalagið.

Miðstöð foreldra og barna var stofnuð 2008. Hvatinn að stofnun MFB var vöntun á úrræðum fyrir foreldra í barneignarferli sem glíma við geðheilsuvanda. Fyrir utan teymi sem starfar á Landspítalanum (FMB) er þetta eina sérhæfða geðheilsuúrræðið fyrir foreldra og börn yngri en eins árs. Miðstöðin er ekki rekin í hagnaðarskyni (non-profit). Rannsóknir sýna að allt að 20% fjölskyldna í barneignarferli þurfa sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu. Þjónusta MFB er í boði á landsvísu og er skjólstæðingum að kostnaðarlausu. Samkvæmt stöðluðum árangursmælingum er marktækur munur á líðan foreldra eftir meðferð hjá miðstöðinni. Fjöldi fjölskyldna sem nýtur þjónustu hefur vaxið um 30-40% á milli ára. Á þessu ári stefnir í að miðstöðin sinni 230 fjölskyldum.

1 króna í útgjöld á móti 30 krónum í sparnað

Á fjárlögum síðasta árs fékk MFB 20 milljónir króna en miðað við fjárlög 2018 fær miðstöðin enga fjárveitingu. Það vekur vissulega upp spurningar að jafn mikilvæg þjónusta hafi ekki haldist inni á fjárlögum og þarf að leiðrétta. Samkvæmt rannsókn London School of Economics (LSE) frá 2014 og tölur frá Bretlandi sem eru heimfærðar á Ísland þyrfti að verja 230 milljónum í málaflokkinn hér. Miðað við skýrsluna má áætla að fyrir hvern árgang sem ekki fær viðeigandi mefðerð muni kostnaður íslensks samfélags aukast um 7 milljarða á ári í velferðar- og menntakerfinu. Þar af eru 70% vegna barnsins en 30% vegna móðurinnar. Fyrir hverja 1 krónu sem varið er í málaflokkinn sparast 30 krónur!

Forvarnir hefjast í móðurkviði

Niðurstöður rannsókna eins og ACE rannsóknarinnar (The ACE study) sýna að áföll og streita í æsku auka verulega líkur á áhættuhegðun barna og heilsubrest á fullorðinsárum. Forvarnir hefjast strax í móðurkviði. Ef foreldrar glíma við geðrænan vanda er aukin áhætta á að börn þeirra muni gera það sömuleiðis. Því er ákaflega mikilvægt að veita þessum börnum þjónustu til að draga úr þeirri áhættu. Þannig má koma í veg fyrir að vandi flytjist á milli kynslóða.

Það er áherslumál mitt að tryggja geðheilbrigðisþjónustu fólks fyrir allt æviskeiðið. Þegar litið er til forgangsröðunar þá hljótum við að forgangsraða yngstu skjólstæðingunum fremst því þannig leysum við framtíðarvanda. Hér er vefsvæði þar sem þessar áherslur eru kynntar. Ungabörn geta ekki beðið.

Ég skipa 2. sætið fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi og mun beita mér fyrir þessum áherslum nái ég kjöri.

 

Flokkar: Lífið og tilveran · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 27.10.2017 - 16:07 - FB ummæli ()

Hvað kýst þú?

Á morgun verður gengið til kosninga. Þú hefur valdið, kjósandi góður. Þitt atkvæði gæti ráðið úrslitum kosninganna! Það er í þínu valdi hvort ég sem frambjóðandi komist inn á Alþingi Íslendinga eða ekki. Það getur munað einu atkvæði. Þú getur valið hvaða stefnu verður fylgt á næstu fjórum árum. Ég mun leggja sérstaka áherslu á uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu.

Traust í stjórnmálum

Sumir segja að kosningar skipti ekki máli og vilja ekki fara á kjörstað. Þeir aðilar láta öðrum það eftir að velja hverjir stjórna. Það er skiljanlegt að einhverjir beri ekki mikið traust til stjórnmálanna. Undanfarin tíu ár hefur rótleysi og vantraust einkennt stjórnmálin hér á landi. Við stjórnmálafólk höfum verk að vinna við að byggja að nýju upp traust á stjórnmálin. Það gerum við með því að segja það sem við gerum og gera það sem við segjum.

Eflum beint lýðræði

 Efla þarf beint lýðræði meðal annars með breytingu á stjórnarskrá. Reynslan hefur kennt okkur að þegar við stöndum frammi fyrir okkar stærstu ákvörðunum skilar almenningur bestu niðurstöðunni. Eitt af þeim málum sem við stöndum frammi fyrir núna er að móta framtíðarsýn varðandi stór mál eins og þjóðarsjúkrahús og innanlandsflugvöll. Það eru mál sem gott væri að leggja í þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkar atkvæðagreiðslur gætu farið fram samhliða kosningum til sveitarstjórna og Alþingis.

Við getum gert betur

Við erum fámenn þjóð, einungis um 340.000. Vegna þess höfum við möguleika á því að vera eins og sportbíll frekar en þungur trukkur. Við getum verið sveigjanlegri en stærri þjóðir og innleitt breytingar hraðar. Þess vegna tel ég að við getum gert betur á mörgum sviðum samfélagsins. Besta leiðin til þess að árangur náist er að sátt ríki. Besta leiðin til að ná sátt og viðhalda liðsheild er að allir taki þátt og lýðræðisleg niðurstaða náist í erfiðum málum.

Ég vona að þú nýtir lýðræðislegan rétt þinn á morgun og kjósir. Þannig tekur þú þátt í að móta framtíð okkar allra.

Höfundur skipar 2. sæti fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi

(greinin birtist á Vísi.is í dag).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 26.10.2017 - 22:43 - FB ummæli ()

Öryggisnet löggæslunnar

Ein af grunnskyldum íslenska ríkisins er að tryggja öryggi borgaranna. Til þess að svo geti verið þarf löggæslan í landinu að vera öflug. Miklar breytingar hafa orðið á samfélaginu á mjög skömmum tíma. Fjöldi erlendra ferðamanna nálgast sjöfalda íbúatölu landsins á þessu ári gangi spár eftir. Líkur eru á að allt að tvö þúsund manns muni leita alþjóðlegrar verndar hér á landi í ár. Það eru tvöfalt fleiri en í fyrra.

Skipulögð glæpastarfsemi hefur aukist

Í glænýrri skýrslu greiningadeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi 2017 kemur meðal annars fram að skipulögð glæpastarfsemi hefur aukist, framboð sterkra fíkniefna og kannabisefna er mikið, framboð vændis hefur aukist mikið og sterkur grunur er um vinnumansal. Í skýrslunni kemur einnig fram að sala og dreifing fíkniefna hefur í auknum mæli færst á samfélagsmiðla og netglæpir hafa aukist. Þessi breytti veruleiki kallar á snörp viðbrögð lögreglu. Staðan er þó þannig að skortur er á rannsóknarlögreglumönnum, álag er aukið, veikindi og slys eru algengari hjá lögreglufólki og lögreglan hefur of litla möguleika á að sinna frumkvæðislöggæslu vegna fjárskorts.

Öflugri löggæsla er trygging fyrir okkur öll

Öflugri löggæsla um land allt er ekki einka- eða hagsmunamál þeirra sem lögreglunni stjórna heldur er hún hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuna, fyrirtækin í landinu, sveitarfélögin og síðast en ekki síst alls almennings sem ber mikið traust til lögreglunnar. Tryggja þarf lögreglu nægilega góð starfsskilyrði til að hún geti sinnt þeim fjölmörgu verkefnum sem að henni snúa um land allt, allan ársins hring. Drög að nýrri löggæsluáætlun fyrir Ísland liggur fyrir þar sem tekið er á öryggisstigi, þjónustustigi, mannaflaþörf og fjárveitingum. Ljuka þarf gerð þessarar löggæsluáætlunar og vinna í samræmi við hana. Jafnframt þarf að leggja af hagræðingarkröfu við gerð fjárlaga þegar kemur að réttarvörslukerfinu. Efling lögreglunnar er í sjálfu sér forvarnamál. Með öfluga löggæslu í landinu getur lögreglan komið í veg fyrir alvarlega hluti áður en skaðinn er skeður. Með því er einnig komið í veg fyrir kostnað annars staðar í kerfinu.

Við teljum brýnt að efla löggæsluna á næsta kjörtímabili.

Höfundur skipar 2. sæti fyrir Framsókn í Suðvesturkjördæmi.

(greinin birtist á Vísi.is í dag 26.10.2017)

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur