Þriðjudagur 10.04.2012 - 00:00 - FB ummæli ()

Vor í lofti á páskum

Mynd af páskaunga í eggi og páskaliljuPáskarnir eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Fyrir utan súkkulaðieggin (dásemdina við að mega gúffa í sig súkkulaði að vild) og fríið (tími til að leika sér og liggja í leti) þá er margt annað sem bærist í huga manns um páska. Páskarnir tákna upprisuna eða eins og segir á veraldarvefnum:

Í flestum kristnum kirkjudeildum eru páskar mesta hátíð kirkjuársins enda nefndu kirkjufeðurnir páskana Festum festorum eða hátíð hátíðanna. Tilefnið er upprisa Jesú en kristnir menn trúa því að hann hafi risið upp frá dauðum á þriðja degi eftir að hann var krossfestur einhvern tíma á árabilinu AD 27 til 33.

Páskarnir minna okkur ekki síst á vorið sem liggur í loftinu og sumarið sem bíður handan við hornið. Eggin og páskaungarnir minna okkur á frjósemina og tákn hins nýja lífs sem kviknar og blómstrar. Eftir erfiðan vetur þá vorar alltaf á ný. Samhliða sprettur vonin um betri tíð.

Í mínum huga er einnig vor í lofti í íslensku samfélagi. Eftir hrun hefur hvert áfallið á fætur öðru dunið yfir íslensku þjóðina. Svo mikið að maður hefur stundum velt því fyrir sér hversu ótæmandi brunnur frétta af spillingu, svikum, mistökum og öðrum hörmungum getur verið.

Forsetakjör fer fram í sumar. Hver frambjóðandinn á fætur öðrum stígur fram og með þeim kviknar von um breytingar og nýja tíma. Ólafur hefur staðið sig ágætlega, haft áhrif á lýðræðisumbætur og staðið með þjóðinni þegar á hefur reynt. Ég tel þó tímabært að hann stígi til hliðar og er almennt ekki hlynnt því að fólk sitji of lengi á valdastóli. Ég tel það sérstaklega jákvætt að fram eru komnar tvær frambærilegar konur. Við fyrstu sýn er Þóra Arnórsdóttir sá valkostur sem mér líst best á. Mér þykir það spennandi að fá greinda, glæsilega og unga fjölskyldukonu á Bessastaði sem myndi fylla þann merka stað af lífi. Fyrir utan það að ég treysti henni vel til starfsins miðað við hennar frammistöðu á öðrum vettvangi þá tel ég að hún geti rutt brautina fyrir aðrar ungar konur að sinna krefjandi starfi en eiga jafnframt fjölskyldu.

Stór mál liggja einnig fyrir þinginu. Má þar nefna fiskveiðistjórnunarmálin, ESB-málið og stjórnarskrárbreytingar svo fátt eitt sé nefnt. Í stjórnmálunum eru komin fram þó nokkur ný framboð sem munu gefa kjósendum nýja valkosti í næstu kosningum til Alþingis og sveitarstjórna. Framboð sem eiga það sammerkt í grófum dráttum að vilja beita sér fyrir raunverulegum breytingum á stjórnmálamenningunni og á íslensku samfélagi. Eitt þeirra afla er SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar sem ég hef tekið þátt í að undirbúa og koma á laggirnar.

Öll þessi teikn eru eins og páskaunginn sem er að skríða úr egginu og mun með tímanum verða fleygur og gefa af sér betri tíma fyrir Íslendinga og íslenskt samfélag.

Það er vor í lofti og tímabært að horfa fram á við, sýna samstöðu og halda inn í betri framtíð :). Það er tímabært að rísa upp sem sterkari og betri þjóð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur