Miðvikudagur 11.04.2012 - 23:48 - FB ummæli ()

Sálfræðiþjónusta í heilsugæslu: aukin þjónusta, meiri sparnaður og bætt líðan almennings

Kvíði, þunglyndi, streita og annar tilfinningavandi* er algengur, lamandi, líklegur til þess að vera vangreindur og meðhöndlaður með ófullnægjandi hætti hér á landi og erlendis. Geðraskanir eru almennt vangreindar í heilbrigðiskerfum jafnvel í 50-75% tilfella af mörgum ólíkum ástæðum (1, 2, 3). Um þriðjungur er líklegur til að þjást af að minnsta kosti einni geðröskun á hverju ári og um helmingur er líklegur til að þjást einhvern tímann á lífsleiðinni (2, 4, 5). Þunglyndi er talið vera fjórða mesta orsök örorku í dag og er spáð öðru sætinu 2020 (6). Ómeðhöndlaður tilfinningavandi veldur einstaklingum og fjölskyldum mikilli vanlíðan og samfélaginu mikilli byrði og kostnaði á hverjum tíma (3, 7).

Hugræn atferlismeðferð (HAM) er gagnreynd meðferð við þunglyndi, kvíða og öðrum geðröskunum (8, 9, 10). Hugræn atferlismeðferð á að vera fyrsta meðferð við kvíða og vægu til miðlungs þunglyndi samkvæmt klínískum leiðbeiningum sem gefnar hafa verið út meðal annarra landa í Bretlandi og á Íslandi (11, 12, 13). Í Bretlandi er stórt verkefni í gangi þar sem markvisst er unnið að því að auka aðgengi almennings að gagnreyndri sálfræðimeðferð sem gengur undir nafninu Improving Access to Psychological Therapy (IAPT) (14) og má líta til þess verkefnis sem fyrirmynd að því hvernig hægt væri að efla framlínuþjónustu og aðgengi almennings að sálfræðiþjónustu hér á landi.

Rannsókn á algengi tilfinningavanda og úrræða á fimm heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu

Rannsókn um algengi tilfinningavanda og meðferð var unnin á síðasta ári í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á fimm heilsugæslustöðvum. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar var Ingibjörg Sveinsdóttir Ph.D, BCBA-D sálfræðingur á Heilsugæslunni Firði. Þátttakendur voru 267 komugestir á biðstofum heilsugæslustöðva á aldrinum 18-88 ára af báðum kynjum (15). Markmið rannsóknarinnar var að meta algengi tilfinningavanda í heilsugæslu, kanna hvaða meðferð væri veitt og athuga viðhorf til sálfræðimeðferðar. Markmiðið var ennfremur að afla þekkingar á tilfinningavanda í heilsugæslu með það að markmiði að efla framlínuþjónustu. Þátttakendur svöruðu spurningalista á meðan þeir biðu eftir tíma hjá heimilislækni sem innihélt m.a. skimunarlista fyrir þunglyndi og kvíða og heimilislæknir svaraði að auki spurningalista eftir viðtalið. Einnig svöruðu þátttakendur og læknar spurningu um hvort þeir teldu sálfræðimeðferð gagnlegan valkost væri boðið upp á hana í heilsugæslu. Aðrir þættir voru jafnframt kannaðir eins og hvaða meðferð er veitt og hvert málum er vísað þegar tilfinningavandi var greindur af heimilislæknum.

Þriðjungur þeirra sem leita sér aðstoðar á heilsugæslu á við tilfinningavanda að etja

Rannsóknin leiddi í ljós að minnsta kosti þriðjungur þeirra sem leita sér aðstoðar á heilsugæslu á við einhvers konar tilfinningavanda að etja og helmingur finnur fyrir einhverjum einkennum þunglyndis og/eða kvíða, allt frá vægum einkennum upp í alvarleg einkenni. Þessi niðurstaða er í samræmi við aðrar erlendar og innlendar rannsóknir (3, 16, 17, 18). Heimilislæknar mátu 41% þátttakenda með tilfinningavanda. Þrátt fyrir þetta voru einungis um 3% þátttakenda sem nefndu tilfinningavanda sem ástæðu komu sinnar. Niðurstöður skimunarlista gáfu til kynna að um 12% þátttakenda ættu við klínískt þunglyndi að stríða og rúmlega 14% við klínískan kvíða. Konur voru helmingi líklegri til þess að eiga við tilfinningavanda að etja og þátttakendur eldri en 57 ára voru með marktækt minni einkenni. Þeir sem komu oftar á heilsugæsluna voru með marktækt meiri einkenni tilfinningavanda. Nokkuð gott samræmi var á milli þess hvernig læknir og þátttakandi mat sig en þó var sums staðar talsverður munur.

Lyfjameðferð algengust en rúmlega helmingur telur sálfræðimeðferð gagnlegan valkost

Rannsóknin sýndi fram á að meirihluti þeirra sem var metinn með tilfinningavanda var í einhvers konar meðferð eða 80%. Flestir voru í lyfjameðferð en einungis 11% var vísað í sálfræðimeðferð. Sálfræðimeðferð var hins vegar metin sem gagnlegur valkostur af 53% þeirra sem mátu sig með tilfinningavanda og heimilislæknar mátu hana gagnlegt úrræði fyrir 58% þeirra sem voru metnir af þeim með tilfinningavanda.

 

Lærdómur

Tilfinningavandi er algengt vandamál þeirra sem leita á heilsugæslu þrátt fyrir að oft fjalli viðtalið einungis um líkamleg einkenni. Sál og líkami eru ein heild þannig að líkamleg veikindi hafa oft í för með sér tilfinningavanda og öfugt. Því þarf að taka á vanda hvers sjúklings með heildrænum hætti. Heilsugæslan er fyrsti viðkomustaður flestra í heilbrigðiskerfinu. Það er því afar brýnt að þróa og innleiða skimun fyrir algengum tilfinningavanda eins og þunglyndi og kvíða í heilsugæslunni á þjónustumiðstöðvum og jafnvel víðar. Einnig er lagt til að ráðnir verði sálfræðingar og annað fagfólk inn á heilsugæslur og sálfræðiþjónusta efld víðar eins og á þjónustumiðstöðvum. Sálfræðingur á heilsugæslu getur greint nánar vanda þeirra sem skimast hjá heimilislækni, sinnt meðferð þeirra sem eiga við vægan vanda að stríða meðal annars með hópnámskeiðum og unnið í þverfaglegu samstarfi innan heilsugæslunnar að heildrænni nálgun vandans. Með því að fjölga fagstéttum í heilsugæslunni er einnig hægt að takast á við þann skort sem er á heimilislæknum og draga úr álagi á heimilislækna sem og á sérfræðinga. Með eflingu framlínuþjónustu má greina og grípa fyrr inn í tilfinningavanda sem dregur úr líkum á alvarlegum veikindum og minnkar þörf fyrir sérhæfðari þjónustu. Með þessari einföldu aðgerð má efla þjónustu, spara fjármagn og bæta líðan almennings.

 

* Tilfinningavandi er íslensk þýðing á orðinu emotional disorder. Hér er vísað til tilfinningavanda sem víðs hugtaks sem nær yfir vanda þeirra sem eru með einkenni frá vægum og upp í alvarleg. Þegar einkenni eru komin yfir klínísk mörk er vandinn frekar skilgreindur sem geðröskun eða geðsjúkdómur.

 

Höfundur er sálfræðingur á Þjónustumiðstöð Breiðholts.

(þessi grein birtist fyrst á innihald.is þann 1.12.2011)

 

Heimildir:
1.    Coyne, J.C., Thompson, R., Klinkman, M.S. & Nease Jr. D.E., (2002). Emotional Disorders in Primary Care. Journal of Consulting and Clinical Psychology, 3, 798-809.
2.    Kessler, R. C., Demler, O., Frank, R. G., Olfson, M., Pincus, A. H., Walters, E. E. et al. (2005). Prevalence and treatment of mental disorders, 1990 to 2003. The New England Journal of Medicine, 352, 2515-2523.
3.    Spitzer, R. L., Kroenke, K. and Williams, J. B. W. (1999). Validation and utility of a self-report version of PRIME-MD: The PHQ primary care study. Journal of the American Medical Association, 282, 1737-1744.
4.    Jón G. Stefánsson og Eiríkur Líndal (2009). Algengi geðraskana á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Læknablaðið, 95, 559-564.
5.    Wittchen, H. and Jacobi, F. (2005). Size and burden of mental disorders in Europe – a critical review and appraisal of 27 studies. European Neuropharmacology, 15, 357-376.
6.    Murray, C.J.L. and Lopez, A.D. (1997). Alternative projections of mortality and disability by cause 1990-2020: Global Burden of Disease Study. Lancet, 349, 1498-1504.
7.    Layard, R. (2006). The case for psychological treatment centres. British Medical Journal 332, 1030-1032.
8.    Barlow, D.H., Gorman, J.M., Shear, M.K. and Woods, S.W. (2000). Cognitive-Behavioral Therapy, Imipramine, or their Combination for Panic Disorder: A Randomized Trial. Journal of the American Medical Association, 283, 2529-2536.
9.    DeRubeis, R. J., Hollon, S. D., Amsterdam, J.D., Shelton, R. C., Young, P. R., Salomon, R. M., et al. (2005). Cognitive therapy vs. medications in the treatment of moderate to severe depression. Archives of General Psychiatry, 62(4), 409-416.
10.    Hollon, S.D., DeRubeis, R.J., Shelton, R.C. and Amsterdam, J.D.,Salomon, R.M., O´Reardon, J.P. et al. (2005). Prevention of Relapse Following Cognitive Therapy vs. Medications in Moderate to Severe Depression. Archives of General Psychiatry, 62, 417-422.
11.    National Institute for Clinical Excellence. (2004). Depression: management of depression in primary secondary care. London: National Institute for Clinical Excellence.
12.    National Institute for Clinical Excellence. (2011). Anxiety – Management of anxiety (panic disorder, with or without agoraphobia, and generalized anxiety disorder) in adults in primary secondary and community care. London: National Institute for Clinical Excellence.
13.    Landlæknisembættið (2011). Klínískar leiðbeiningar um þunglyndi og kvíða. Reykjavík: Landlæknisembættið.
14.    Clark, D. M., Layard, R. and Smithies, R. (2010). Improving Access to Psychological Therapy: Initial Evaluation of the Two Demonstration Sites. LSE Centre for Economic Performance Working Paper No. 1648.
15.    Kristbjörg Þórisdóttir (2011). The prevalence of emotional disorder in primary care in Iceland: A survey among patients and general practitioners. Óbirt Cand.psych ritgerði við Árósarháskóla.
16.    Agnes Agnarsdóttir (1997). An examination of the need for psychological counseling service in primary health care in Iceland. An unpublished doctorial thesis at the University of Surrey in England.
17.    Guðný Dóra Einarsdóttir (2010). Skimun geðraskana hjá sjúklingum sem leita til heilsugæslulækna: Könnun meðal sjúklinga Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri. An unpublished Cand.psych thesis at the University of Iceland.
18.    Serrano-Blanco, A., Palao, D. J., Luciano, J. V., Pinto-Meza, A., Luján, L., Fernández, A., & … Haro, J. M. (2010). Prevalence of mental disorders in primary care: results from the diagnosis and treatment of mental disorders in primary care study (DASMAP). Social Psychiatry & Psychiatric Epidemiology, 45(2), 201-210.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Kristbjörg Þórisdóttir
er sálfræðingur með diplóma gráðu í fötlunarfræðum sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðum lífsstíl, samfélaginu, umbótum og stjórnmálum
Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi)

Kristbjörg er varaþingkona Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi
RSS straumur: RSS straumur